Þið munið eftir Vladimir og Estragon,  er það ekki? Það eru þeir sem bíða eftir Godot í einu frægasta leikriti 20 aldar. Þeir bíða allt leikritið – og sú staðreynd að Godot kemur aldrei skiptir kannski ekki öllu máli, það eru nefnilega samræður þeirra Vladimirs og Estragons sem skipta máli. Leikritið fjallar um lífið á meðan beðið er – og biðin er löng. Við vitum ekki nákvæmlega hverjir þessir kumpánar eru – en oftast eru þeir leiknir sem einhvers konar útigangsmenn og það eru ýmsar vísbendingar um það í leikriti Becketts.

Godot sjálfur  er ósjaldan sagður vera Guð sjálfur – sem er skiljanlegt á enskunni, en það gleymist stundum að leikritið er upphaflega skrifað á frönsku og þar er Guð ekki God heldur Dieu. En hvort sem þessir tveir menn eru að bíða eftir Guði eða manni þá kemur hann aldrei.

BonesForOttoÍ stuttmyndinni Bein fyrir Ottó eru það hins vegar konur sem eru að bíða – og þær eru að bíða eftir körlum. Þessi rúmenska mynd fjallar um tvær vændiskonur sem standa úti á þjóðvegi og bíða eftir að einhver vænlegur kúnni stoppi. Í upphafi berjast þær um besta staðinn á gangstéttinni, en fara svo hægt og rólega að kynnast betur. Þær verða vinkonur í gegnum biðina og við áhorfendurnir kynnumst þeim á meðan þær bíða. Önnur er þrautreynd, hefur staðið oft áður á þessu götuhorni, hin er hrekklaus byrjandi – óperusöngkona sem vantar pening til þess að komast í söngkeppni.

Starfsgrein þeirra hættir fljótlega að skipta máli – þess í stað fáum við einfaldlega að kynnast persónum þeirra, fjölskylduminningum, væntingum og draumum. Já, og Ottó, flækingshundi sem sú reyndari er vön að koma með bein fyrir á meðan hún bíður.

Bein fyrir Ottó er ein af tíu myndum sem sýndar voru á Future Frames dagskránni á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary – en þar fá tíu efnilegir kvikmyndagerðarmenn að sýna verk sín, sem flest eru um hálftími á lengd. Löng stuttmynd sem sagt, oftast útskriftarmyndir – og ég er raunar mættur hingað fyrst og fremst út af seinni myndinni á dagskránni á þessari sýningu.

Elsa María Jakobsdóttir er nefnilega einn þessara tíu leikstjóra og er mætt hingað með stuttmyndina Atelier, sem var útskriftarverkefni hennar úr danska kvikmyndaskólanum. Þannig að ég hef verið að bíða eftir Elsu – og við skulum bíða aðeins lengur eftir Elsu – og fara fyrst rúma hálfa öld aftur í tímann. Þegar Bibi Anderson kynnti Ingmar Bergman fyrir Liv Ullman á götuhorni í Stokkhólmi.

Þessi fundur sótti á Bergman, líkindi kvennana tveggja – og varð seinna grunnurinn af einni hans frægustu mynd, Persona, en stef úr þeirri mynd heyrist hér undir. Þær Bibi Anderson og Liv Ullman leika hjúkrunarkonu og leikkonu – leikkonan Elisabet talar ekki lengur, það er samt ekkert að henni – þetta var bara ákvörðun. Hún hefur fundið sér nýtt hlutverk. Læknirinn segist skilja hana, orðar ástandið svo:“Þessi vonlausi draumur um að vera. Ekki sýnast, heldur raunverulega vera. Þegar sérhver raddblær er lygi, sérhver hreyfing er fölsk, sérhvert bros er gretta.“

Læknirinn ákveður að senda hana í sumarbústað sinn í sveitinni – og hjúkrunarkonuna Ölmu með. Elisabet þegir áfram – en Alma talar og talar, hún hefur loksins fundið einhverja sem hlustar. Hún talar líka til að fylla út í þögnina – hún þráir ekkert heitar en að heyra Elisabet tala.

Persona

Hægt og rólega virðast mörkin á milli kvennanna tveggja þurrkast út – Elisabet yfirtekur líf Ölmu, mögulega er Alma hlutverkið sem Elisabet er að leika. Túlkunarmöguleikarnir eru óteljandi – enda gefur leikkonan ekkert upp. En myndin hefur áhrif enn þann dag í dag.

„Ég hugsa að um leið og maður setur tvær konur saman í hús á eyju þá ertu óneitanlega með Persona eftir Bergman vofandi yfir.“

Þetta var Elsa María Jakobsdóttir,  spurð um áhrifavalda á mynd sinni Atelier. Persona var augljósa svarið, en myndin er tekin upp á Farö, þar sem Bergman byggði sjálfur sumarbústað og bjó þar með Ullman á meðan á ástarsambandi þeirra stóð.

En á næstu eyju byggði svo sænskur auðjöfur síðar hús, hálfri öld síðar. Og þar tók Elsa María myndina sína upp.

„Ég leitaði í marga mánuði að húsi, mig langaði að finna hús, sem ég lýsti í fyrsta drafti af handriti að húsið þyrfti að vera skandínavískur mínimalismi á sterum með snert af sci-fi. Og kannski að setja markið ansi hátt að finna þannig á filmskóla-budgeti. En við leituðum í marga mánuði og þvældumst um allt í Danmörku og á Skáni og þetta gekk sem sagt ekkert svakalega vel að finna svona hús, út af því fólk sem á svona eignir vill kannski ekkert fá kvikmyndaskólanema inná gafl hjá sér.

En svo gerist það bara í gegnum Facebook, mikill er máttur Facebook, að þetta hús kemur upp. Þetta hús heitir Kuben og er á Gotlandi í Svíþjóð. Þetta var byggt sem bústaður, residensía, listamannabústaður fyrir tónlistarfólk, af því Björn Ulvæus úr Abba ætlaði sér að byggja upptökustúdíó á eyjunni. Það var talað um að fljúga inn stórum tónlistarmönnum af kynslóð Abba-Björns, talað um Jagger og Bowie og allt það, en þegar húsið er tilbúið dregur Björn sig út úr verkefninu þannig að upptökustúdíóið var aldrei byggt en listamannabústaðurinn stendur og hefur í raun aldrei verið notaður. Og þetta var mikil sorg fyrir frumkvöðulinn sem stóð á bak við að byggja þetta stórmerkilega hús. Þetta er sem sagt ekki einu sinni á Gotlandi heldur á eyju sem heitir Furillen, sem er fyrir utan Gotland, næsta eyja við Farö. Hann var óskaplega glaður þegar við höfðum samband og fannst ekkert nema sjálfsagt að leyfa okkur að vinna í húsinu og taka upp þessa mynd og við höfðum aðgang að húsinu í tvo mánuði fyrir tökur, þannig að ég varði talsverðum tíma þar til að vinna verkefnið áfram og gera klárt fyrir tökur.

Svo var frekar skrítið að enda með svona verkefni, ég var búin að vera með verkefnið í þróun í hálft ár, og kennararnir mínir, Dagur Kári og fleiri, nefndu náttúrulega alltaf Persona í þessu samhengi, og svo enda ég eftir allt og allt á pínulítilli eyju sem er næsta eyja við Farö. Þar sem Bergman bjó og tók upp Persona. Ég varð eiginlega dálítið hrædd. Þetta var of skrítið. Of skrítið en á sama tíma líka bara örlögin. Þá verður maður bara að segja já og takk og gera þetta einhvern veginn.“

Atelier segir, rétt eins og Persona, frá tveimur konum á afskekktri eyju. Í báðum myndum eru vissulega fleiri  persónur – en þær skipta litlu máli. Við vitum lítið um aðalpersónuna, hún virðist vera þarna til að púsla sér saman – vinna í sjálfri sér. Hún heldur að hún verði ein þarna, en sænsk hljóðlistakona mætir svo einnig á svæðið og skapar hávaða þar sem átti að vera þögn.

AtelierPosterÞað er ekki mikið talað í  myndinni – en það eru þó mörg tungumál; sænska, danska og enska – plús íslenskur leikstjóri og franskur titill. En hvað þýðir þessi franski titill, Atelier? Þetta þýðir vinnustofa, staður til að vinna í verkefnum – eða bara sjálfum sér.

Elsa: „Mér fannst það bara mjög lýsandi fyrir verkefnið. Bæði á bókstaflegan hátt og líka á einhvern annan hátt. Þetta að vera að vinna í einhverju, að vera kona sem augljóslega er að vinna í sjálfri sér, hvað sem það nú þýðir. Ég var mikið að spá í sjálfshjálparkúltúr, konum og sjálfshjálparkúltúr. Þannig að þetta var bara dálítið upplagt, Atelier þýðir bara vinnustofa. Ég var dálítið að spá í sjálfshjálparkúltúr sem nýjum trúarbrögðum eiginlega með alls konar pælingum og  fræðum og táknum.“

En þótt margt sé líkt með Persona og Atelier þá er það sem er ólíkt kannski merkilegast. Í Persona er það sú þögla sem hefur valdið, sú sem talar er föst í hennar þögla leikriti. Þessu er að mestu öfugt farið í Atelier, þótt vissulega sé sú þögulli fyrst og fremst fámál og feimin – hún treystir sér ekki alla leið inní þögnina. Já, eða kemst kannski ekki þangað, sökum truflunar. Einnig fyllir tónlist Hildar Guðnadóttur og Takeshi Sakomoto stundum þögnina, en hún hefur verið spiluð hér undir.

Myndin virðist gerast hér og nú, en samt ekki – andi vísindaskáldskapsins svífur yfir vötnum þótt engin eiginlegur vísindaskáldskapur sé til staðar. En svo brýtur náttúran sér leið inn. Við heyrum bank – og úti stendur kind.

Elsa: „Þessi gotneski fjárstofn var náttúrulega bara eitt af því fyrsta sem maður rakst á þegar maður mætti til Gotlands í fyrsta sinn. Það er rosa skap í þeim og þær eru ofboðslega fallegar og með mjög sérstakt skap og svo upplifðum við það þegar við erum í okkar fyrstu ferð til Gotlands og sitjum í þessu geimskipi að það er eins og himinn og jörð séu að farast, við sitjum þarna í þessu geimskipi og húsið leikur á reiðiskjálfi, það er eins og heimurinn sé að farast, en svo fer maður út og sér að það eru gotneskar kindur að ráðast á húsið. Og það var einhvern veginn fullkomið fyrir söguna. Að svona lítil dýr gætu látið svona villu og fólkið sem í henni er virkilega óttast um líf sitt.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 19 júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 40.08 mínútur).