Spegill, spegill, herm þú mér, hver er uppáhaldsbíómyndin þín?
Á hverju ári spyrja aðstandendur Karlovy Vary kvikmyndahátíðarinnar sex valinkunna einstaklinga þessarar spurningar. Stundum eru það kvikmyndagerðarmenn – í ár voru það gagnrýnendur. Sem mættu svo og kynntu uppáhaldsmyndina.
Guy Lodge sýndi spænsku myndina Anda býflugnabúsins, sem spænskukennarinn hans hafði kynnt hann fyrir, mynd sem hann sagði óð til ímyndunarafls bernskunnar. Það að koma með hana til Karlovy Vary væri líkast því að deila draumaheimi með öðrum.
Barbara Hollander sýndi okkur Stutt mynd um dráp, einfaldlega af því hún saknaði Kieslowskis. Scott Feinberg sýndi okkur The Searchers eftir John Ford, mynd sem hann hataði þegar hann var fimmtán ára. En eftir að hafa haldið áfram að lesa um hana og horfa á hana aftur og aftur fór hann að elska hana.
Þau Dan og Edna Fainaru sýndu okkur mynd júgóslavneska leikstjórans Dusan Makavejev, forsprakka hinnar svokölluðu svörtu bylgju balkansbíómynda, en myndin sem þau sýndu var W.R. leyndardómar lífverunnar – og sögðu að þarna hefði kvikmyndalistin öðlast nýja vídd fyrir þeim, í þessari fersku, dónalegu, róttæku mynd sem var suðupottur raunveruleika og skáldskapar – og fjallaði um tengsl kommúnisma og kynlífs.
Óvenjulegasta valið var svo kannski hjá honum Boyd van Hoeij, sem sýndi mynd sem sjaldnast er kölluð meistaraverk, The Blue Lagoon, en sagði hana naíva og tæra mynd um paradís þar sem ungt fólk getur uppgötvað og lært um ástina án nokkurra reglna og skilyrða frá þjóðfélaginu í kring.
Ég ætla ekki að segja ykkur frá minni uppáhaldsmynd núna, ég ætla bara að rifja upp það yndislega fyrirbæri vídeótek sem aldrei var þýtt almennilega á íslensku enda kannski aldrei til hér heima – og varla til neins staðar lengur. En í erlendum stórborgum um aldamótin, þegar tölvurnar voru ekki byrjaðar að spila bíómyndir og vídjótæki og sjónvarp voru aðeins of dýr og þunglamaleg tæki til að flytja á milli landa, þá voru vídeótekin vin í eyðimörkinni – vídjóleigur þar sem hægt var að leigja herbergi með bíótjaldi og myndvarpa í kjallaranum.
Þar sá ég mína uppáhaldsmynd í fyrsta skipti rétt fyrir síðustu jól síðustu aldar, á Terminal Bar í Prag. Barinn lokaði árið eftir en vídjótekið færðist bara á næsta bar – Vírusbarinn – og þar sá Carmen Gray sína uppáhaldsmynd rúmu ári síðar.
„Ég bjó í Prag árið 2001, þetta var áður en ég fór að vinna í kvikmyndabransanum, ég vann sem kennari og fór í þennan litla sýningarsal og horfði á gamlar myndir – og þetta var ein af þeim myndum sem ég sá þar. Þegar ég stúderaði kvikmyndir í háskóla hafði ég séð Andrei Rublev [eftir Tarkovsky] en ég hafði aldrei séð Spegil áður, og ég heillaðist af þessum ljóðrænu senum, mér fannst þær magnaðar, myndin kom á óvart þótt ég hafi þekkt verk hans áður, þetta var mjög sterk upplifun.“
Myndin var sem sagt Spegill Tarkovsky, Zerkalo. Þarna starfaði Carmen sem enskukennari – en undanfarin ár hefur hún starfað sem kvikmyndagagnrýnandi fyrir miðla á borð við The Guardian, Senses of Cinema og Calvert Journal. En hvað er svona heillandi við Spegilinn hans Tarkovskys?
„Ég er mikill aðdáandi Tarkovsky fyrir og þetta er persónulegasta og ljóðrænasta mynd hans, hún er mjög ævisöguleg, en hálfgerður vefnaður af bernskuminningum og draumum, alls ekki bein ævisaga. Ég kann því vel hvernig hún er sett saman og myndin segir okkur ýmislegt um erfitt samband hans við Rússland. Því þótt hann elskaði heimalandið heitt var hann að gera þessar myndir undir eftirliti sovéskra yfirvalda á tímum mikillar ritskoðunar og þeir voru að segja að myndirnar sem hann vildi gera væri ekki í alvörunni rússneskar. Þetta var mikil pressa allt hans líf og ekki mörgum árum eftir að hann kláraði myndina fór hann í sjálfskipaða útlegð.“
Spegill Tarkovsky kom út árið 1975 og er eins og Carmen segir lauslega ævisöguleg, brotakennd í frásögn og í henni má heyra ljóð sem samin eru og lesin af Arseny Tarkovsky, föður leikstjórans. Það skýrir hve brotakennd myndin er – hún er sett upp sem frjálst flæði minninga hins deyjandi skálds, minninga bæði um fjölskyldu og Rússland. Myndin tekur líka á flóknu sambandi leikstjórans við heimalandið, Rússland, sem hann elskaði – en það var ekki auðvelt að vinna undir kommúnistastjórninni í Kreml og sérstaklega var erfitt fyrir hann að klára Spegilinn – myndin var ellefu ár í vinnslu og erfiðleikarnir urðu væntanlega til þess að hann fór í útlegð nokkrum árum síðar og gerði þar sínar síðustu bíómyndir.
En hvernig speglast spegillinn í kvikmyndum samtímans?
„Myndin hefur haft mikil áhrif á rússneskar og Austur-Evrópskar bíómyndir. Jafnvel of mikil, svo mikil að fólk talar stundum um að menn þurfi að fara að feta nýjar brautir. Til dæmis er Zvyagintsev undir miklum áhrifum frá Tarkovsky, þótt hann myndi aldrei viðurkenna það, en þú sérð það í mörgum myndum hans, hann notar líka mikið af trúarlegum og andlegum táknum, og hjá Tarkovsky eru alltaf þessar senur af regni að falla eða vindinum í náttúrunni. Það hvernig hann notar það ljóðrænt er síendurtekið. Þá hefur hann haft mikil áhrif á heimildamyndagerðarmenn á svæðinu, eins og í Eystrasaltslöndunum, þeir eiga það sameiginlegt með honum að trúa því að myndirnar eiga að tala sínu máli og þú eigir ekki að þurfa að útskýra of mikið eða vera með of mikið tal. Og hann skýtur upp kollinum víða, jafnvel hjá Lars von Trier, það kann að virka ólíklegt, en það eru líkindi þar líka.“
Áhrif myndarinnar í rússneskum kvikmyndum eru jafnvel of mikil að sögn Carmen, sumir telja að rússneskir kvikmyndagerðarmenn þurfi að fara að flýja skugga Tarkovsky. Carmen nefnir sérstaklega Andrey Zvyagintsev, sem er væntanlega virtasti kvikmyndagerðarmaður Rússa um þessar mundir. Mynd hans Leviathan vakti mikla athygli fyrir fáeinum árum og sýndi gerspillt rússneskt embættismannakerfi og hans nýjasta mynd, Ástlaus, fékk betri dóma en nokkur önnur mynd á síðustu kvikmyndahátíð í Cannes. Hún nefnir líka heimildamyndagerðarmenn sem og danska ólíkindatólið Lars von Trier, sem tileinkaði einmitt Tarkovsky mynd sína Antichrist.
En hvernig stenst Spegillinn tímans tönn?
„Ég held hún sé tímalaus. Að sumu leyti er hann ekki í tísku, þetta einlæga andlega nálgun, hún er ekki í takt við póst-módernisma eða kaldhæðni. Það er húmor í honum en hann fer framhjá mörgum, þetta er ekki írónísk satíra. Þannig að ég hugsa að sumum finnist í dag að myndirnar taka sig of alvarlega og hampi um of karlmannlegum gildum, en ég held um leið að fólk kunni enn að meta hann því myndirnar hans eru svo stórkostlegar.“
Hún er tímalaus og gamaldags í senn að sögn Carmen, ýmislegt í henni er ekki beint í tísku, ljóðrænt tungumálið og einlægnin, skorturinn á kaldhæðni – og húmorinn er til staðar en fer fram hjá mörgum. En þegar allt kemur til alls kann fólk ennþá að meta sinn Tarkovsky.
(Clint Eastwood raular)
… Take warning by me.
Don’t go for a soldier, don’t join no army.
For the dove she will leave you, the raven will come.
And death will come marching at the beat of the drum.
Come all you pretty fair maids, come walk in the sun.
And don’t let your young man ever carry a gun.
En bregðum okkur nú aðeins aftur til Hollywood og spyrjum okkur: hvernig þróðist kvikmyndasagan, svona móralskt séð? Ég man að ég aldist upp við að trúa því að tabúin féllu eitt af öðru og sífellt meiri bersögli væri í boði, í bland við sífellt meira ofbeldi og dónaskap vissulega, en sömuleiðis meiri einlægni. Það mátti sífellt meira segja og sýna í bíó, siðprúðar Hollywood-myndir gullaldarárana virtust hálfgerðir forngripir góðborgarasamfélags sem löngu var horfið.
En getur verið að við höfum beygt af þessum kúrs, ef við vorum þá nokkurn tímann á honum? Það er erfitt að bægja slíkum hugsunum frá sér þegar maður horfir á nýjustu mynd Sofiu Coppola, The Beguiled, og horfir svo stuttu síðar á samnefnda mynd Don Siegels frá árinu 1971, en báðar eru þær byggðar á sömu skáldsögunni. Colin Farrell og Nicole Kidman hafa tekið við aðalhlutverkunum af Clint Eastwood og Geraldine Page, en það sem stingur mann fyrst og fremst er þetta; mynd Sofiu Coppola er einfaldlega ritskoðuð útgáfa af mynd Siegels. Vafasamir þættir á borð við sifjaspell og barnagirnd eru fjarlægðir úr sögunni, en líka nánast öll alvöru erótík. Á meðan Colin Farrell kyssir bara tvær stúlkur og sést aldrei gera neitt meira þá kyssir Eastwood fjórar þeirra, þar á meðal skólastýruna, og það er fleira ritskoðað úr mynd Coppola; limlestingar eru þar aðeins orðaðar en ekki sýndar, dýralífið er horfið og með því gæluskjaldökur og hrafnar yngstu stúlkunnar. Þá er borgarastríðið fjarlægt á meðan fyrri myndin sýnir okkur magnaðar raunverulegar ljósmyndir úr stríðinu í upphafi myndar – og í kjölfarið kemur þetta raul hans Eastwoods sem við heyrðum hér áðan, þar sem hann nánast hvíslar þjóðlagið The Dove She is a Pretty Bird rétt eftir að sprengjuómurinn hljóðnar.
Þá er þessi saklausa setning í mynd Coppola, „og þrælarnir voru farnir,“ til marks um að ein magnaðsta persóna fyrri myndarinnar, og samviska hennar jafnvel, ambáttinn Hallie, er einfaldlega skrifuð í burtu. Sem kemur sumum okkar ekkert á óvart, altént ekki þeim okkar sem fannst lofaðasta mynd Sofiu, Lost in Translation, jaðra við að vera rasísk í sýn sinni á japanskt samfélag.
Hennar helsti styrkur hefur oftast verið myndrænn, myndirnar hennar hafa nánast alltaf verið gullfallegar – en hér eru allir litir daufir og myndavélin hreyfist nær aldrei, myndin er merkilega litlaus á allan hátt og maður heyrir stundum varla hvað leikararnir eru að segja út af því þeir tala í svo miklum mónótón.
Það að sýna lítið og gefa meira í skyn getur vissulega verið listrænt stílbragð, en það getur líka hreinlega verið viktoríanskt stílbragð; að sýna minna, að leyfa helst ekki að sjá í ökkla, hvað þá fótleggi eða brjóst. Tepruskapur sem listræn stefna.
Mynd Siegel er andstæða myndar Coppola að þessu leyti, hann sýnir jafnvel of mikið og notar frásagnarbrögð eins og voice-over og endurlit fyrir hugsanir persónanna, frásagnarbrögð sem eru löngu dottin úr tísku. Og myndin er um margt afskaplega vafasöm – samanber þessa senu í blábyrjun myndarinnar.
“What’s your name girl?”
“Amelia, but everybody calls me Amy.”
“I’m Corperal John McBurnie, but everybody calls me McB.”
“How old are you, Amy?”
“Twelve.”
“Old enough for kisses.”
Sagði Clint Eastwood þetta í alvörunni? Hugsar maður áður en hann kyssir stelpuna. Þetta er einmitt eitthvað skítugt og siðlaust við myndina – en það hentar sögunni, þetta er saga um vafasama karaktera og það gerir henni lítinn greiða að stroka út allar þeirra verstu gjörðir. Og svo vantar líka raulið hans Clint í nýju myndina – við heyrðum það í upphafi þeirrar gömlu og líka undir lokin. Clint raular um að heillast ekki af hermönnum, um að ganga ekki í herinn, því þá muni dúfan yfirgefa þig og hrafninn koma með dauðann í för. Við meyjarnir segir hann: ekki láta ungu mennina halda á byssum.
Við skulum ljúka þessum pistli með þessum skilaboðum frá Clint Eastwood.
Come all you pretty fair maids, come walk in the sun.
And don’t let your young man ever carry a gun.
Come all you young fellows, take warning by me.
Don’t go for a soldier, don’t join no army.
For the dove she will leave you, the raven will come.
And death will come marching at the beat of the drum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 1. ágúst. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 36.55 mínútur).