Við byrjum pistilinn í eistneskri sveit aftur í grárri forneskju. 19 öldin er máski gengin í garð en það breytir því ekki að hér er allt fullt af nornum og galdrakörlum og gráðugum sveitalubbum, svo ekki sé minnst á djöfulinn sjálfan, fáeina varúlfa og nokkra torkennilega kratta. Þetta persónugallerí birtist okkur í eistnesku myndinni Nóvember, sem sannarlega er byggð á skáldsögu, en skáldsagan sú er einfaldlega rímix af alls kyns þjóðsögum sem eistnesk börn heyra í gegnum nið móðurnjólkurinnar.
Myndin er gullfalleg, öll tekin í svart-hvítu, og ég þarf svosem ekki að segja ykkur hvernig nornir, galdrakarlar og varúlfar starfa – en hvaða skrítnu skepnur eru þessir krattar? Jú, þetta eru eistneskar þjóðsagnaverur, vinnudýr sem geta verið samsett úr alls kyns vinnutækjum og dýrahausum. Fyrsti krattinn sem við hittum fyrir er til dæmis samsettur úr nokkrum orfum og ljáum og með kindahaus í miðjunni. Það þarf svo að semja við djöfulinn um að gefa þessum kröttum sál og þar með líf – eitthvað sem ósjaldan er dýru verði keypt.
Svo þarf að halda kröttunum við efnið – ef þeir fá ekki nóg að vinna geta þeir snúist gegn meistara sínum, jafnvel drepið hann. Þetta eru sannarlega skrítnar kynjaskepnur, óhugnanlegar og brjóstumkennanlegar í senn – og fyrir þá sem kunna að meta óvenjuleg skrímsli í bíómyndum næg ástæða til að sjá myndina.
Þorpsbúar eru svo flestir óttalegar smásálir, græðgin stjórnar flestum þeirra gjörðum – en þó bærist rómantík í ungum hjörtum – og jafnvel gömlum, djúpt fyrir innan. Á meðan heimasætan Liina dreymir um hann Hans dreymir hann svo um þýsku barónsdótturina sem gengur í svefni hverja nótt út á kastalavegginn.
Til þess að vinna hug hennar býr Hans til giska óvenjulegan kratta, því það er ekki nóg með að hann búi til beinagrind úr verkfærum þá hylur hann beinagrindina snjó, þannig að úr verður talandi snjókarl. Og ólíkt öðrum kröttum, sem fáa fjöru hafa sopið og eru óttalegir vitleysingar, þá er þetta spekingslegur og ljóðmæltur kratti – enda búinn til úr snjó sem eitt sinn var rigning sem eitt sinn var stöðuvatn sem eitt sinn var úthaf. Með öðrum orðum, þessi snjókarl hefur séð og heyrt ýmislegt og getur núna loksins sagt einhverjum frá því.
En svo eru þjóðsögur og sögur sem manni finnst vera þjóðsögur. Þær síðarnefndu eru oftast eftir Shakespeare, svo erkitýpískar að þær hafa yfir sér þjóðsagnakenndan blæ – og engin er jafn erkitýpísk og Rómeó og Júlía. Ástarsagan þar sem tveir elskendur fá ekki að eigast sökum þess að foreldrar þeirra, eða jafnvel samfélög þeirra, eru í eilífum erjum.
Við heyrðum hér brot úr West Side Story – einni þekktustu myndinni sem sækir grunnsöguna til Rómeó og Júlíu, þó með þeirri breytingu að nú eru það tveir innflytjendahópar sem berjast, ekki bara tvær jafnhvítar fjölskyldur eins og í Verónu hinni fögru í eldgamla daga.
Þetta virðist komið til að vera – og á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary sá ég þrjár myndir sem allar sverja sig inn í þetta þema á einhvern hátt. Engin þeirra fylgir þó sögunni um Rómeó og Júlíu nærri því jafn nákvæmlega og West Side Story, sú sem kemst helst nálægt því er Jarðaberjasumarið, Jordgubbslandet, merkilega magnaður sænskur sósíal-realismi um jarðarberjatýnslumenn í Svíþjóð sem flestir eru pólskir og sumir frá Litháen.
Það eru lítil samskipti á milli hópanna – og Pólverjarnir líta sumir ekkert síður niður á sænsku sveitalubbana, eins og mamma aðalpersónunar kallar þá, og Svíarnir líta niður á þessa pólsku farandverkamenn. Þegar þeir hafa fyllt kassa af jarðarberjum þá þurfa þeir að hljóta náð fyrir augum afundinnar unglingsstúlku, sem annars hangir í símanum á meðan pólverjarnir þræla.
En þarna erum við komin með Júlíuna okkar. Wojtek, ungur pólskur piltur, sér eitthvað við Annelie, þessa stelpu sem aðrir kalla bara fúlu stelpuna. Hann sér Annelie niðrí bæ og sér að hún á litla samleið með barnalegum sænskum vinum sínum, rétt eins og hann á fátt sameiginlegt með pólskum drykkjufélögum sínum. Þannig að þau stinga vinina af og byrja að stinga saman nefjum á laun, en auðvitað byrjar fólk fljótlega að hvísla – og um leið og Wojtek lendir í vandræðum virðist þetta búið spil.
Helsti munurinn á þessari sögu og Rómeó og Júlíu er sá að ættbálkaerjur verónsku aðalsfjölskyldnanna er í raun bara afsökun til að hengja ástarsöguna á í Rómeó og Júlíu, á meðan hið gagnstæða er tilfellið á sænsku jarðarberjaökrunum; þar er ástarsagan bara afsökun til að hengja rannsókn á samskiptum Svía við farandverkamennina sem þangað koma og vinna vinnu sem á köflum jaðrar við að vera hrein þrælavinna. Það fer svo allt í háa loft þegar sænski verkstjórinn heyskist á því að kalla til lækni þegar móðir Wojteks fær aðsvif – og lokar svo alla Pólverjana inni eins og dýr um kvöldið, svo þeir trufli nú örugglega ekki heldrimannasamkvæmið á herragarðinum. Og þegar allt er við það að fara í háaloft þá er ástin eina ljóstýran í myrkrinu.
Þessi orðaskipti voru ekki á milli krakka af sitt hvoru þjóðerninu – þau voru á milli jarðarbúa og geimveru. Næsta ástarævintýri er How to Talk to Girls at Parties, mynd sem er þó ekki mjög praktískur leiðarvísir nema ef ske kynni að umrædd stelpa sé geimvera.
Myndin er byggð á smásögu eftir breska rithöfundinn Neil Gaiman og gerist í Bretlandi árið 1977, í Croydon í London, árið sem haldið var upp á 25 ára krýningarafmæli Elísabetar bretadrottningar. En þetta var líka árið sem Sex Pistols gáfu út ádeilulagið God Save the Queen og árið sem Neil Gaiman var sextán ára, rétt eins og aðalpersónur myndarinnar. Við fylgjumst með þremur strákum sem eru djúpt sokknir í pönksenuna þar sem þeir eru að leita sér að partíi.
Það finna þeir svo sannarlega, en þetta er ekkert venjulegt partí. Nú er rétt að muna að á þessum tíma þurftirðu helst að velja annað hvort pönk eða diskó, það var ekki vel séð að vera með eitthvað miðjumoð. Og við fyrstu sýn virðist partíið skrítinn bræðingur á diskói og raftónlist síðari tíma, tónlistin er á rafslóðum á meðan búningar partígesta minna einna helst á diskógalla.
En auðvitað eru þetta allt saman geimverur sem ætla að tortíma jörðinni, hreinlega éta hana, en þurfa að kynna sér siði innfæddra fyrst. Ein geimstúlkan hefur þó efasemdir um þessi áform og notar tækifærið og stingur af með einum jarðarguttanum. Þau verða vissulega bálskotin hvort í öðru, troða upp á pönktónleikum og reyna að átta sig á menningu hvors annars – en svo er bara að sjá hvort ástin reynist plánetuhungri hinna geimveranna yfirsterkari.
Á meðan á öllu þessu stendur á svo drottningin sitt drottningarafmæli – og það vill svo til að leiðtogi geimveranna er glettilega karlmannleg útgáfa af drottningunni. Hún er breska aðalstéttin, aðalstéttin sem mun með aðstoð Margaret Thatcher gerði sitt besta til að éta upp pönkið og Bretland allt á þessum árum.
En getur þetta Rómeó og Júlíu syndróm gengið of langt? Þær gleðilegu fréttir hafa orðið í Hollywood undanfarin misseri að skyndilega eru ungir karlmenn ættaðir af Indlandsskaganum, hvort sem er frá Indlandi eða Pakistan, orðnir tækar aðalpersónur í rómantískum gamanmyndum. Þetta eru oft uppistandarar sem leika mismikið dulbúnar útgáfur af sjálfum sér. Þið þekkið sjálfsagt mörg Master of None, sjónvarpsþætti sem fjalla um ástarævintýri Aziz Ansari – og nú er komin í bíó sumstaðar myndin The Big Sick, þar sem uppistandarinn Kumail Nanjiani segir afskaplega ævisögulega sögu af því þegar hann varð bálskotinn í Emily, er sagt upp af þessari sömu Emily – en er svo kallaður á spítalann rétt á eftir, þar sem draumadísin liggur í dauðadái af dularfullum ástæðum.
Hans hlutverk á spítalanum er þó ekki að vekja hana, nei, það er að skrifa upp á pappíra sem meintur eiginmaður og svo það að hitta foreldra hennar. Samskipti hans við foreldrana er svo í raun forvitnilegasti hluti myndarinnar, myndin forðast helstu klisjur sjúkrahúsadramana með því að hafa fókusinn á því hvernig stirt samband Kumail við tengdaforeldranna sem aldrei urðu þróast – og að því leytinu til er myndin örlítið kraftaverk. Mamman er leikin af Holly Hunter, sem er góð af venju. En pabbinn, hann er leikinn af Ray Romano, mögulega mest óþolandi leikara gervallar sjónvarpssögunnar. En núna verð ég að segja setningu sem ég bjóst aldrei við að þurfa að segja, Ray Romano er í alvörunni þrælgóður í þessari mynd.
En svo eru það foreldrar Kumail sjálfs – og þar vandast málin. Hann sagði þeim ekkert um Emily – af því mamma gamla er svo ákveðin í að hann eignist huggulega pakistanska eiginkonu að hún bíður föngulegum pakistönskum stúlkum í mat í hverri viku, Kumail til mikillar mæðu. Og þótt það sé eðlilegt að skjóta á skipulögð ástlaus hjónabönd þýðir þetta að myndin reynist sama marki brennd og Master of None og fleiri myndir og þættir með dökkleitum karlhetjum; dökkleitar kvenhetjur fá ekkert pláss, eru í besta falli hálfgert djók hjá ofur stjórnsamri móður. Ein þeirra fær vissulega ágætis ræðu í myndinni – en það er dálítið eins og indverskar og pakistanskar konur þurfi að bíða tíu árum lengur en strákarnir áður en þær fá alvöru aðalhlutverk, þangað til þær fá að vera annar helmingur ástarsögunar, eða jafnvel hreinlega aðalpersónan.
En já, við vorum að tala um þjóðsögur. Eiginlegar þjóðsögur og Sheikspírskar þjóðsögur – en hvað með sannar þjóðsögur. Goðsögur í lifandi lífi – eða jafnvel enn frekar í dauðanum? Rokkstjörnur eru vanar að lifa hratt og deyja ungar, en leikararnir eru öllu rólegri í tíðinni. Þar stendur þó einn upp úr, James Dean, með sín þrjú meistarastykki – öll frumsýnd þegar hann var horfinn úr jarðlífinu. Hann hafði vissulega átt örfá örlítil sjónvarpshlutverk og statistahlutverk í bíómyndum áður, en ekkert sem skiptir máli; öll hans alvöru hlutverk rötuðu beinustu leið í sögubækurnar.
Af bíóstjörnum okkar kynslóðar kemst bara einn leikari nálægt þessu, Heath Ledger sem lést fyrir tæpum áratug síðan. Hann átti þó bara tvö ótvíræð meistaraverk að baki – og ófáar myndir sem einhverjir myndu tilnefna sem þriðju myndina á legsteininum – en hlutverk hans í Brokeback Mountain og The Dark Knight hafa þó sannarlega tryggt honum traustan sess í kvikmyndasögunni.
Heimildamyndin I Am Heath Ledger er bæði upprifjun og tilraun til að skyggnast bak við tjöldin. Myndin er vel gerð og glettilega mikið af myndefni til sem Ledger skaut sjálfur. Það vantar þó að hægt sé að kafa dýpra, enda er það hreinlega ekki hægt því hann er farinn, að minnsta kosti ekki í gegnum jafn hefðbundna nálgun og hér er beitt. Það er helst að maður fái þá tilfinningu að Heath hafi að sumu leyti verið líkur Jókernum í atriðinu hér á undan – því þótt hann hafi verið hið mesta gæðablóð þá var hann ekki maðurinn með planið, hann var einfaldlega hreinn náttúrukraftur eins og Jókerinn sem hann lék.
Myndin er vel gerð sem slík, þótt hún bylti seint ævisöguforminu á líkan hátt og I’m Not There gerði, þar sem enginn annar en Heath Ledger lék Bob Dylan – ásamt jafnólíkum leikurum og Cate Blanchett, Christian Bale, Ben Whishaw, Richard Gere og Marcus Carl Franklin, sem öll túlkuðu nóbelsskáldið nýbakaða með sýnu nefi.
Óvæntasta ánægjan við myndina um Heath er þó áherslan á hans eigin kvikmyndagerð. Nei, hann var ekki byrjaður að leikstýra bíómyndum og kannski hefði hann aldrei gert það, hann naut sín nefnilega svo vel við að leikstýra tónlistarmyndböndum. Hann átti það til að hringja í tónlistarvini sína um miðjar nætur með hugmyndir af tónlistarmyndböndum við eitthvert lagið þeirra, var svo mættur á tröppurnar hjá þeim í morgunmat daginn eftir, albúinn að taka upp. Við skulum kveðja með einu af þessum lögum, þið finnið það svo bara á youtube til þess að skoða myndbandið, Morning Yearning með Ben Harper – sem Harper samdi upphaflega sem vögguvísu fyrir dóttur Heaths Ledgers.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 8 ágúst. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 33.30 mínútur).