Ung kona kemur fyrir herráð skipað jakkafataklæddum karlmönnum og segir þeim til syndanna – og fer svo á vígstöðvarnar og bindur enda á eins og eina heimsstyrjöld. Einni öld síðar segja ótal konur í Hollywood Harvey Weinstein og fleiri valdamiklum karlmönnum til syndanna, einungis fáeinum mánuðum eftir að við kynntumst þessari ungu konu sem stöðvaði heimsstyrjöldina fyrri.

***

Unga konan er hin ódauðlega Undrakona, Wonder Woman, sem gekk inn í karlaheim tuttugustu aldarinnar og hunsaði flestar þeirra misgáfulegu hefðir og batt enda á þeirra heimskulega stríð. Niðurstaðan varð þriðja vinsælasta mynd ársins vestan hafs, og hinar tvær (The Last Jedi og Beauty and the Beast) skörtuðu líka kvenkyns hetju í stærsta hlutverkinu, eitthvað sem hefur ekki gerst í meira en 50 ár.

Wonder Woman var kannski ekki sú vinsælasta af þessum þremur, en hún kjarnaði árið öðrum fremur, ár #metoo og hallarbyltinga í Hollywood var líka árið sem Hollywood tókst loksins að gera almennilega ofurhetjumynd um konu, með kvenkynsleikstjóra í þokkabót. Fyrir utan að ná að sýna stríð bæði með gestsaugum og kvenlægari gildum – og nálgast þar með sannleikann um styrjaldir á dálítið öðruvísi hátt en venjulega.

Beauty&theDogs.jpg

Vinsælar myndir eru þó auðvitað ekki alltaf góðar, Fríða og dýrið var til dæmis andlaus og fullkomlega óþörf endurgerð sem bætti engu við teiknimyndina stórkostlegu. Þá mæli ég frekar með Fríðu og hundunum, martraðarkenndri mynd þar sem við fylgjumst með ungri stúlku sem neyðist til þess að þvælast á milli stofnana í karlaveldinu Túnis nótt eina til þess að reyna að tilkynna nauðgun. Nauðgararnir voru lögreglumenn – og um leið og hún þvælist í gegnum kerfið þá virðist kerfið stundum ætla að gleypa hana, enda í raun sama kerfi og misnotaði hana til að byrja með.

Kvennabylting Hollywood á hvíta tjaldinu náði þó fyrst og fremst til yngri kvenna, það var því hressandi þegar tvær eftirminnilegustu persónurnar á kvikmyndahátíðinni í Berlín snemma árs reyndust vera kellur yfir sextugu, pólskur dýraverndarsinni í Pokot og mamma Django Reinhardt í Django, konur með meiri sál og reynslu og baráttuhug í litla fingri en flestir aðrir í öllum kroppnum. Samskipti kvenna sín á milli voru svo í forgrunni í Fukushima, mon amour, þar sem gömul geisha kenndi Marie, ungum trúð, sitthvað um lífið í skugga kjarnorkunnar á bannsvæðinu í Fukushima þar sem myndin er tekin.

Karlar í krísu

Karlmenn voru vissulega áfram áberandi í bíómyndum ársins – en þeir virtust oft ekki almennilega vita hvað þeir ættu af sér að gera. Karlarnir eru fastir í nostalgískri fortíð í Trainspotting 2 og orðnir gamlir og gráir í martraðarkenndri framtíð í Logan. Þetta er ofurhetjumynd um ellina, um gamla menn sem hefur mistekist að búa til betri heim – og eygja aðeins von um framtíðina í glasabarninu Láru Úlfsdóttur, þögulli ungri stúlku sem mögulega á eftir að takast það sem þessum gömlu mönnum tókst ekki. Besti leikarinn á síðustu óskarsverðlaunahátíð var svo Casey Affleck, sem í Manchester by the Sea lék kennslubókardæmi um hvernig bæld sorgarviðbrögð hins vestræna karlmanns brjótast út í árásargirni og því að missa nánast málið af harmi.

MenDontCry

En nóg um breska og ameríska karlmennsku. Kíkjum frekar á Hunda (Caini), sem fjallar um Roman, borgarstrák sem hefur erft stóran landarskika einhvers staðar á hásléttu Rúmeníu, en kemst að því að afi hans var aðal glæpaforinginn á svæðinu og fyrrum undirmenn hans ætla svo sannarlega ekki að láta einhvern lattélepjandi lopatrefil frá Búkarest selja undan þeim landið. Í afskekktu fjallahóteli í Bosníu gerist svo ein magnaðasta mynd ársins, Karlar gráta ekki, þar sem gamlir hermenn úr Júgóslavíustríðinu eru mættir í meðferð, ennþá að reyna að gera upp áratuga gamalt stríð. Þeir gera það með því að endurupplifa og hreinlega leika helstu trámu stríðsins aftur, sem og með því að slást og drekka og jú, gráta smá. Rétt eins og í áðurnefndum myndum virðist vonin helst liggja í næstu kynslóð, þessir menn eru of skekktir á sálinni til þess að í þeim bærist mikil von.

Siðsöm samkynhneigð

Moonlight

Árið byrjaði á því að samkynhneigðin lét loksins á sér kræla í íslensku bíósveitinni í Hjartasteini og nokkrum vikum seinna vann mynd um samkynhneigð loksins sjálfan Óskarinn sem besta mynd. Moonlight var sannarlega listilega gerð og er næm bíómynd um forboðnar ástir tveggja blökkudrengja í gettóinu – en ég gat ekki að því gert að kinka kolli þegar samkynhneigður kollegi minn í gagnrýnendastétt benti mér á að þeir kysstust ekki einu sinni. Sumsé, hommamynd sem var passlega listræn og siðsöm til þess að þóknast hinum frjálslynda gagnkynhneigða meirihluta.

Það var hins vegar fátt siðsamt við samkynhneigðina í myndunum þremur sem heiðursgestur Stockfish-kvikmyndahátíðarinnar, Alain Guiraudie, sýndi okkur í myndum á borð við Stranger by the Lake og við fengum ágætis yfirlit yfir sögu baráttu samkynhneigðra í myndum á borð við BPM og Tom of Finland. Í ægifögrum Pýreneafjöllunum gerðist svo franska útgáfan af Brokeback Mountain í Being  17, þar sem árstíðirnar breytast fyrir augunum  á okkur og við skynjum hversu beintengdir strákarnir tveir eru náttúruöflunum um leið og þeir uppgötva betur eigin náttúru.

Constitution

Einhver besta mynd ársins var svo um króatíska dragdrottningu og nágranna hennar. Stjórnarskráin fjallar um Vjeko, skapvondan háskólaprófessor, sem er barinn til óbóta þá sjaldan sem hann leyfir sér að vera hann sjálfur og fer út á lífið í kvenmannsklæðum. Það vill svo  til að hjúkrunarkonan sem sinnir honum er nágranni hans og með þeim tekst vinskapur – en málin flækjast þegar hún fær Vjeko til þess að kenna löggunni, eiginmanni sínum, stjórnarskrána króatísku, en það er harla sérviskulegt skilyrði fyrir króatíska lögreglumenn að kunna hana utanbókar. Eiginmaðurinn er nefnilega Serbi – og Vjeko hatar ekkert meira en Serba. Þannig rekast mismunandi fordómar harkalega á – en nándin neyðir þessa þrjá ólíku einstaklinga að reyna þrátt fyrir allt að skilja hvert annað.

Þessi skelfilegu hvítu andlit

GetOut

Moonlight var vissulega ekki fyrsta myndin með blökkumanni í aðalhlutverki til þess að vinna Óskarinn, Twelve Years a Slave og In the Heat of the Night voru á undan henni, en hún er sú fyrsta þar sem varla sést í hvítan mann. En það getur verið hrollvekjandi lífsreynsla að vera umkringdur vel meinandi bleiknefjum og því fengum við að kynnast í Get Out, sem reyndist bæði ein besta gamanmynd ársins og ein besta hryllingsmyndin, þar sem vel meinandi bleiknefjar úr millistétt eru einstaklega óhugnanlegir fyrir svarta kærastann sem er boðið í heimsókn til tengdaforeldranna.

Detroit

Þessi saga á þó langa og blóðuga forsögu – og hún var rifjuð upp í I Am Not Your Negro,  magnaðri heimildamynd um ævi rithöfundarins og baráttumannsins James Baldwin, þar sem Samuel L. Jackson átti einn magnaðasta leiksigur ársins sem sögumaður myndarinnar.  Á tímum Black Lives Matter og ítrekaðra misheppnaðra hernaðaríhlutana Bandaríkjanna í fjarlægum löndum var svo sannsöguleg mynd Kathryn Bigelow um uppþotin í Detroit sannarlega tímabær. Detroit er dýnamítið á annars óþarflega kurteislegu bíóári, gíslataka siðlausrar lögreglu er nánast óbærilegt að horfa upp á á köflum og svo er einkennilega öfugsnúið að aðalskúrkurinn er eins og Tinni sjálfur endurfæddur sem rasískasta lögga ársins.

Það var hins vegar einkennilegt að á meðan Detroit hvarf í fjöldann var lofaðasta mynd sumarsins karakterslaus en formfögur stríðsmynd, Dunkirk, sem í ofanálag tókst alveg að gleyma að hermennirnir sem þar börðust voru ekki allir hvítir Bretar.

OtherSideofHope

Rasistum nútímans er umhugaðra um innflytjendur – en Hollywood er hins vegar óþarflega áhugalaus um þá þessi misserin. Það er frekar að á þeim málum sé tekið í evrópskum myndum. Aki Käurismaki birti okkur einlæga en kannski óþarflega einfaldaða mynd af örlögum sýrlensks flóttamanns í Hinum megin vonar, hinum megin landamæranna í Svíþjóð sáum við Jarðarberjasumarið – Rómeó og Júlíu okkar hnattvæddu aldar, þar sem pólskir farandverkamenn eru hálfgerðir þrælar á jarðarberjaökrunum, sem kemur ekki í veg fyrir að einn þeirra verði skotinn í afundnu unglingsstelpunni sem á að heita yfirmaður þeirra. Loks tekur pólska myndin Fuglasöngur í Kigali ágætlega á við það tráma sem margir þessir innflytjendur hafa gengið í gegnum – og jafnvel líka heimamenn sem hafa hjálpað þeim, en myndin fjallar um tvær konur, pólska og rúandíska, sem báðar lifðu af óöldina í Rúanda fyrir tuttugu árum. Þótt það sé kannski ofsögum sagt að þær hafi raunverulega lifað af.

Verkalýðshetjur og dansandi ungmenni

En eru bíómyndirnar eitthvað að takast á við kerfið sjálft sem allir þessir undirokuðu hópar eru að takast á við? Nokkrar vissulega. Hin dansk-íslenska Vetrarbræður og hin sænska Yarden sýna okkur verkamenn í hinu kapítalíska hagkerfi sem sannarlega upplifa tilgangslausa vinnuna sem helvíti á jörðu, breska stofudramað The Party er ískrandi fyndinn spéspegill á raunir hvíta yfirstéttarfólksins sem heldur kerfinu gangandi, líka þau þeirra sem þykjast berjast gegn því, og í hinni hrollvekjandi makedónsku mynd, Þegar dagurinn bar ekkert nafn, horfum við upp á týnda kynslóð sem finnur engan tilgang í lífinu og virðist hafa gleymst að innræta nokkur alvöru gildi. Ef undan er skilin hetja myndarinnar, alvarlega bæklaður strákur með bogna fótleggi sem heldur í siðferðiskompásinn mitt í hrollvekjunni sem hægt og rólega umlykur krakkana.

Nágrannar okkar á Norðurlöndum rifjuðu svo upp hvernig peningahyggjan tók gleðina úr íþróttunum – allavega í tilfelli tennismeistarans Björns Borg í Borg/McEnroe og hnefaleikakappans Olli Mäki í myndinni Hamingjuríkasti dagurinn í lífi Olli Mäki. Kapítalismi framtíðarinnar er þó í raun bara óljós ógn í myndunum, sem eru miklu frekar fallegur óður til veraldar sem var.

IDanielBlake

Það var svo einhver kaldhæðni örlaganna að ég skyldi villast á sósíalistadramað I, Daniel Blake og dans- og söngvamyndina La La Land í bíó sama kvöldið. Það tók vissulega smá tíma að sættast við kæruleysislegan dansinn og sönginn í Los Angeles á meðan maður var enn hálf miður sín yfir örlögum Daniel Blake, en þegar á leið áttaði maður sig á því að þrátt fyrir allt voru þessar tvær gjörólíku myndir um það sama; það hvernig hið kapítalíska þjóðskipulag gerir sitt besta í að halda okkur rígföstum í þeirri þjóðfélagsstöðu sem við erum föst í. Þjóðfélagsstaða dansandi elskhuganna í La La Land er vissulega allt önnur og betri en hjá réttlausa verkamanninum Daniel Blake, og vandamál þeirra eru sannarlega lúxusvandamál í samanburðinum, en þetta er þó í grunninn sama baráttan. Baráttan fyrir að láta drauma rætast og að geta haldið reisn í samfélagi sem gefur lítið fyrir drauma og mannlega reisn.

Framtíðin á næstu plánetu

En hvað með framtíðina? Gaf bíóárið 2017 okkur einhverja vísbendingu um hana? Ekki mikla. Hollywood brást við loftslagsbreytingunum með því að senda fólk út í geim að leita að byggilegum plánetum í Passengers og Alien: Covenant en niðurstaðan varð í báðum tilfellum hálf misheppnað bíó. Hin eiginlegu Ragnarök áttu sér svo stað í Ásgarði í þriðju myndinni um þrumuguðinn Þór – sem þrátt fyrir  undirtitilinn válega, Ragnarök sjálf, reyndist besta dæmi ársins um hvernig bíómyndir geta stundum einfaldlega verið hrein, ómenguð og algjörlega kolbrjáluð skemmtun.

690Vopnafjörður

A Ghost Story hætti sér aðeins inn í voveiflega framtíð þar sem draugarnir einir eru eftir – eða kannski bara aparnir, ef eitthvað er að marka Stríðið um Apaplánetuna. Einhvern veginn vitraðist manni þó framtíðin best í heimildamyndinni Untitled, sem sýnir okkur heim á hverfanda hveli, heim sem hverfur sjónum um leið og hann er festur á filmu – bíómynd sem leikstjóri dó frá og fékk aldrei að sjá fullgerða. Þetta er ljóðræn svipmynd af hnattvæðingu í gegnum linsu flakkandi kvikmyndavélar, gleðin og hryllingurinn í sömu andrá. Svo getur líka verið að framtíðin sé á Vopnafirði, þar sem póstnúmerið 690 Vopnafjörður verður heiti á bíómynd um þessa eilífu spurningu smábæjarins; á ég að fara eða vera?

ToniErdmann

Merkilegustu bíómyndirnar passa svo oft ekki í neina flokka í snyrtilegum áramótauppgjörum. Sú albesta, Toni Erdmann, birtir okkur ýmsa fleti tilfinningaskala manneskjunnar sem okkur grunaði varla að væru til í undirfurðulegu, átakasömu og drepfyndnu sambandi þýskra feðgina.

mother.jpgSú klikkaðasta, mother!, er annað hvort myndlíking fyrir konuna sem móður jörð eða um það hvernig hreiðurgerð verðandi móður er í raun tilraun til þess að fangelsa eigið líf. Eða eitthvað allt annað, myndin er stútfull af hugmyndum sem ganga kannski ekki almennilega upp saman en rekast þess í stað sífellt á, eins og lífið sjálft áður en við fönguðum það í bergmálshellum. The Killing of a Sacred Deer er nærri því jafn galin og daðrar við helstu þemu ársins; hún virðist á köflum snúast um fallandi feðraveldi eða samkynhneigð en reynist á endanum fjalla um það sem við hræðumst mest, það sem við skiljum ekki.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Stundinni 13. janúar 2018.