Ég er eitískrakki og fyrir okkur er Highlander ein af lyklimyndum æsku okkar. Ég sá hana ótal sinnum á táningsárunum – en aldrei í bíó, og ég er ekki frá því að það séu áratugir síðan ég sá hana síðast.

Þess vegna stóðst ég ekki mátið að kíkja á miðnætursýningu á myndinni og var forvitinn að vita hvað fullorðnum kvikmyndaspekúlantinum myndi finnast um myndina. Og niðurstaðan er einfaldlega þessi: Highlander er impressjónískt meistaraverk sem kjarnar margt það besta (og jú, jú, sumt að því versta) við kvikmyndagerð níunda áratugarins. Strax í byrjun koma þessir stórkostlegu eldrauðu stafir, skiptingarnar á milli nútímans og fortíðarinnar eru meistaralega leyst og myndin er eitt best heppnaða dæmið um þessa sérstöku eitís gerð af söngleik þar sem rokkbandið sem sér um tónlistina er nánast í hlutverki í myndinni þótt þeir birtist aldrei. Freddie Mercury syngur angurværar ballöður fyrir hetjurnar okkar og groddalegt rokk og meðvitaða afskræmingu á New York, New York fyrir skúrkinn.

Það er auðvitað eitt sem menn finna einna helst að myndinni, það að Frakki leiki Skota og Skoti leiki Spánverja, já, eða Egypta – hann er tvísaga í því. En það reynist í raun fullkomin hlutverkaskipan, þetta eru ekki venjulegir menn – þetta eru menn sem hafa lifað í aldir og farið víða, og vafalítið heyrt ýmsan hreyminn. Connery er sjarmerandi að venju og skúrkurinn Kurgan miklu betri en mig minnti, löðrandi í illsku og með einhvern epískasta hlátur kvikmyndasögunnar. En Lambert kann líka að hlæja. Hinn Lambertski hlátur er alveg sérstakur, glott og tvö he he – og á einhvern einkennilegan hátt ótrúlega róandi. Maður veit að allt verður í lagi, svo lengi sem Lambert hlær.

Já, og svo minnir myndin mann á það að Connor McLeod er fæddur árið 1518. Sumsé, Hálendingurinn er 500 ára í ár. Það væri nú ástæða til að hafa partí á Þingvöllum og bjóða öllum nema púkalegum Alþingismönnum!

Texti: Ásgeir H Ingólfsson