„Af hverju er myndin í svart-hvítu?“

„Af því það er uppáhaldsliturinn minn.“

„Einhverjar spurningar að lokum?“

„Fínt, ég verð á barnum.“

Svona lék Richard Linklater költ-leikstjórann Eagle Pennell fyrir sýningu myndarinnar Last Night at the Alamo, en myndin var hluti af Texas-þema Karlovy Vary kvikmyndahátíðarinnar. Leikstjórinn Eagle var of drykkfelldur til að gera meira en tvær góðar bíómyndir áður en hann lést, átta dögum fyrir fimmtugsafmælið. Hann drakk frá sér flest tækifærin sem hann fékk, en gerði þó altént líklega meira við líf sitt en flestar aðalpersónur hans.

Linklater tók líka fram að hann grunaði að myndin ætti tvö met í kvikmyndasögunni; mesta drykkju í einni bíómynd og mesta blót í einni bíómynd. Mig grunar þó að hún eigi bara síðara metið, aðalpersónurnar hefðu getað drukkið miklu meira ef þær hefðu ekki talað svona mikið, það er pottþétt mynd þarna úti um þöglar fyllibyttur sem slær henni við í drykkjuskap.

Framan af var myndin raunar eins og ýkjusaga um háværa Ameríkana – hljóðrásin skar í eyrun en það voru ekki sprengingar eða tónlist, heldur fyrst og fremst háværar fyllibyttur. Ég veit ekki alveg hvort þetta hafði eitthvað með hljóðið í bíóinu að gera eða hvort þetta ætti að vera svona, jafnvel hvort hljóðupptakan á myndinni – sem gerð var af vanefnum – hefði einfaldlega verið svona. En hægt og rólega lækkar rómurinn og maður fer að komast inní plottið – þótt það sé vissulega af skornum skammti.

Myndin sver sig sannarlega í ætt við Texas-skólann sem Linklater er hluti af, hér er mikið talað og lítill eiginlegur söguþráður, þetta er einfaldlega kvöld í lífi bars, síðasta kvöldið. Að þessu leyti er hún kannski ekkert svo ólík Dazed & Confused, bara með töluvert eldri og þeim mun drykkfelldari aðalpersónum.

En hægt og rólega tekur þó ein aðalpersónan yfir. Kúrekinn. Hann er aldrei kallaður annað – og er framan af hetjan þeirra alla. Án þess að hafa mikið fyrir því – og hann er viðkunnalegur, tekur aðdáun almennra bargesta af auðmýkt. Hann er eldri bróðir þeirra alla, það líta allir upp til hans.

En svo lendir hann á séns og þá fara brestirnir að birtast, hver af öðrum. Hann verður aldrei neitt skrímsli, alls ekki – en þetta er hægfara afbygging á karlmennsku, þar sem fer að glitta í kvikuna og klaufaskapurinn stafar helst af einskæru óöryggi með eigin karlmennsku. Eitt magnaðasta atriði myndarinnar er svo þegar kúrekinn missir hattinn – og við blasir afskaplega lúðalegur skallinn, algjörlega úr karakter – eða kannski frekar afhjúpun á því að til þessa hafi hann verið í karakter.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson