Internetið umlykur okkur öll – nema kannski helst þegar við förum í bíó. Ekki bara af því við þurfum að slökkva á símanum, heldur líka út af því kvikmyndagerðarmenn sneiða sem mest þeir geta hjá því að birta heim þar sem allir eru sítengdir – og þegar þeir gera það þá heppnast það oftar en ekki illa, þær fáu internetsögur sem sagðar hafa verið í bíómyndum virðast oftast vera gerðar af þessu eina prósenti hins vestræna heims sem þekkir þetta internet varla nema af afspurn.

Get nefnt þá skelfilegu Personal Shopper sem dæmi – þar sem stór hluti plottsins tengist símaskilaboðum, og allur takturinn í þeim samskiptum er ótrúverðugur, þetta gæti gengið ef fólk væri að tala saman en textaskilaboð eru allt annað samskiptamunstur.

En Timur Bekmambetov, sem er hingað til frægari fyrir hasarmyndir eins og Næturvaktina rússnesku og Wanted, er ásamt samverkamönnum sínum að þróa nýja gerð kvikmynda, Screen Life eða Screen Movies. Hann hefur framleitt nokkrar en Profile er sú fyrsta sem hann leikstýrir og fjallar um Amy, breska blaðakonu (frönsk í raunveruleikanum) sem vingast við ISIS-liða. Hún er á höttunum eftir sögu, hann er á höttunum eftir henni, vill fá fleiri vestrænar stúlkur til liðs við hreyfinguna. Hann verður fljótt hrifinn af henni – eða virðist vera það, við vitum að hún er að leika, við erum aldrei alveg viss með hann.

Myndin gerist öll á skjánum hennar Amy, þar sem við sjáum bæði samskipti hennar við hryðjuverkamanninn en líka samskipti hennar við kærastan, ritstjórann og vinina. Og takturinn er, blessunarlega, sannfærandi; maður trúir því að þetta sé venjuleg nútímamanneskja að nota internetið. Eins sýnir þetta ágætlega raunveruleika blaðamanna nútímans, sem fer að ansi stórum hluta fram í þessum litlu fartölvum okkar – þeir dagar sem við fengum skúbbin okkar afhent í bílakjallara frá skuggalegum manni í rykfrakka eru því miður að mestu liðnir.

Þetta er í grunninn hasarmynd og vel gerð sem slík, Bekmambetov er ekkert mikið á dýptina, ástæðan fyrir því að hún virkar er fyrst og fremst aðalleikkonunni Valene Kane að þakka, enda til staðar allan tímann, þótt stundum heyrum við bara í henni á meðan hún talar við fólkið á skjánum. En myndin sýnir líka fram á veikleika formsins, tölvuskjár er eftir allt saman einfaldlega ekki nógu myndrænt forvitnilegur – hann getur borið eina mynd, en mig grunar að þetta verði fljótt þreytt og efast einhvern veginn um að ég eigi eftir að leita uppi fleiri af Screen Life myndum Bekmanbetov.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson