Ég kenndi einu sinni menntaskólanemum Wuthering Heights. Bókina eftir Emily Brontë sumsé, en jú, ég sýndi þeim auðvitað myndina líka; þessa frægustu, með Laurence Olivier og Merle Oberon, og brot úr þeim seinni, Andreu Arnold myndinni með svörtum Heathcliff og sjónvarpsmyndina með Ralph Fiennes og Juliette Binoche, sem fékk afleita dóma en er samt mín uppáhaldsaðlögun. Og auðvitað, auðvitað, lét ég þau hlusta á Kötu.

Kate Bush var nefnilega á þeirra aldri þegar hún sló í gegn nítján ára með laginu „Wuthering Heights.“ Það er ekki erfitt að ímynda sér að þetta hafi verið lokaverkefni við einhvern breskan menntaskóla – og ef svo hefði verið hefði hún alveg átt skilið tíu.

Það sem hún nær nefnilega svo snilldarlega að koma til skila er hvað þetta er fáránleg saga – en samt svo brilljant. Hún skopstælir söguna með tonni af væntumþykju, eða eins og hún orðar það: „I hated you, I loved you too …“

Svo deila þær stöllur Emily og Kate afmælisdegi, Kata fæddist daginn sem Emily hefði orðið 140 ára, auk þess sem þær aðalpersónurnar Catherine eru nöfnur. Það er einhver mystísk tenging þarna, ein af þessum mystísku tengingum sem maður skilur bara til fulls þegar maður er átján ára og andvaka og önnum kafin við að semja sinn fyrsta hittara.

Ég var hins vegar bara tveggja ára þegar Wuthering Heights sló í gegn þannig að fyrsta Bush lagið sem ég heyrði var dúett með Peter Gabriel – „Don‘t Give Up.“ Og það er dálítið eins og Kata hafi fundið sinn Heathcliff í Gabriel þegar maður horfir á myndbandið þar sem þau snúast í kringum hvort annað uppi á einhverri hæðinni og vindvélin er hárrétt stillt fyrir passlega dramatík.

Írónían er ekki jafn augljós núna en hún er þarna ennþá, glampandi máninn á bak við – sviðsetning hinnar miklu ástar – og textinn sem Gabriel fer með í upphafi á ekkert illa við vandræðagemsann Heatchcliff:

In this proud land we grew up strong
We were wanted all along
I was taught to fight, taught to win
I never thought I could fail
 

No fight left or so it seems
I am a man whose dreams have all deserted
I’ve changed my name, I’ve changed my face
But no one wants you when you lose

En þótt það sé írónía í gangi þá er kemistrían samt ekta, þau myndu ekki halda svona fast utan um hvort annað annars. Til að bæta ofan á dramatíkina þá sjáum við heilan tunglmyrkva eiga sér stað bak við þau – nema auðvitað er möguleiki að myndbandið gerist einfaldlega á heilum mánuði?

Undir lokin brýnir svo Kata fyrir Heatcliff, ég meina Peter, að gefast ekki upp því einhvers staðar sé staður ætlaður þeim. Hún segir honum að vísu áður að gefast ekki upp af því hann eigi vini. Það er vissulega setning sem á ekki vel við um hinn geðvonda Heathcliff, hvað þá í fleirtölu – en Gabriel mun hafa samið lagið um erfiðleika breskra verkamanna á tímum Thatchers, hver veit nema Heathcliff hefði eignast vini þá, mögulega yfir einum köldum á Liverpool-leik?

Texti: Ásgeir H Ingólfsson