Hefndendurnir og bíóstríðið eilífa

Hitchcock sagði einhvern tímann að einn helsti kosturinn við að vinna með Cary Grant (og öðrum álíka stórstjörnum) væri ekki sú að hann seldi bíómiða, heldur að þá þyrfti hann ekki að eyða dýrmætum mínútum í að búa til baksögu fyrir persónuna. Það vissu allir hver Cary Grant væri. Svo væri vissulega hægt að vinna með það á marga vegu og snúa þess vegna á væntingar áhorfanda til stjörnunnar.

En núna, hálfri öld síðar, er stórstjarnan dauð. Daniel Radcliffe, Gael Gadot og Chris Hemsworth selja ekki marga bíómiða, Harry Potter, Wonder Woman og þrumuguðinn Þór sjá um það. Það eru persónurnar sem leikararnir leika sem selja bíómiðana um þessar mundir, auðvitað ekki hvaða persónur sem er, þær þurfa að vera vel kynntar eða í það minnsta hluti af þekktum sagnaheimi.

Ef litið er á lista yfir vinsælustu myndir síðustu ára eiga þær nánast allar það sameiginlegt að vera framhald, endurgerð eða aðlögun á bókmenntaverkum eða myndasögum. Það sem er nýtt í þessu er það síðastnefnda; vissulega hafa ótal bókmenntir endað á hvíta tjaldinu í gegnum tíðina en lengst af gerðist það svona: fyrsta myndin var kvikmynduð og svo réðst framhaldið af velgengni hennar. Hún þurfti að standa á eigin fótum – og þótt það væri oft möguleiki á framhaldi þá var það sjaldnast innbyggt í myndina.

Þess vegna þóttu Peter Jackson og framleiðendur hans tefla djarft um aldamótin þegar þeir ákváðu að kvikmynda Hringadróttinssögu alla í einu, og gera úr því þrjár þriggja tíma myndir. Hvað ef fyrsta myndin floppar? hugsaði nánast hver einasti kvikmyndaframleiðandi á plánetunni. Áratug síðar var miklu styttri forveri Hringadróttinssögu, Hobbitinn, kvikmyndaður og þessi litla nóvella var teygð í þrjár þriggja tíma bíómyndir. Hollywood var hætt að hugsa í stökum bíómyndum.

Það þarf þorp til að gera Hollywood-mynd

Harry Potter malaði líka gull á sama tíma og í staðinn fyrir að leita að handritum sem gætu hentað stjörnum eins og Tom Cruise og Brad Pitt fóru menn að leita að þekktum sögum sem átti eftir að segja í bíó – og fundu þar tvær gullnámur. Annars vegar Stjörnustríð, feykivinsælan sagnabálk sem hafði þó bara skilað sex bíómyndum á 38 árum. Nú er ljóst að þær verða sex á sex árum – og fleiri sagðar í bígerð. Hin gullnáman voru ofurhetjur gömlu hasarblaðana. Rétt eins og Stjörnustríð var þetta ekki alveg ný uppgötvun, það var búið að gera nokkuð reglulegar ofurhetjumyndir í áratugi. En tæknibrellurnar voru hægt og rólega farnar að ráða betur við ótrúlega atburðarás hasarblaðanna og myndirnar urðu betri – sem endaði á því að Marvel-fyrirtækið gekk alla leið og ákvað að búa til samtvinnaðan sagnaheim með tugum aðalpersóna og hundruðum aukapersóna – rétt eins og hasarblöðin höfðu gert í áratugi.

Avengers.jpgÞetta var ekki augljóst í fyrstu; Jármmaðurinn, Hulk, Kapteinn Ameríka og Þór fengu allir sínar myndir sem voru aðeins laustengdar – hetjurnar veifuðu hver annarri en héldu svo áfram, einir og óstuddir, að berja á skúrkum. En svo kom fyrsta Hefnenda-myndin og í kjölfarið varð sífellt algengara að hetjurnar væru gestaleikarar í ævintýrum hinna – og hetjunum fjölgaði líka hratt.

Eitt af því fyrsta sem Marvel gerðu til að tengja myndirnar var að lauma einu atriði eftir kreditlistann – og jafnvel öðru fyrir miðju. Fram að því höfðu aðeins svæsnustu bíónördar setið yfir öllum þessum nöfmum – en nú nýverið var ég í troðfullum sal í keðjubíói þar sem við sátum öll sem fastast og lásum samviskusamlega hver ljósamaðurinn var, hvaða aðstoðarmennirnir hans hétu, hver sæi um hárgreiðsluna á Scarlett Johansson og Chris Pratt og svo framvegis og svo framvegis.

Ég játa auðvitað að ég las þetta ekki allt, en þegar maður þraukar yfir tíu mínútna kreditlista svona stórmyndar skilur maður betur hversu mikið fyrirtæki þær eru. Maður veit kannski hvað þær kosta – en þessi endalausu nöfn verða til þess að manni vitrast að það þarf þorp til að búa til bíómynd. Jafnvel heila borg. Ég taldi ekki en kreditlistinn var að minnsta kosti á stærð við Akureyri.

Enda hafa myndirnar þróað með sér ákveðna samfélagsvitund í gegnum allar þessar myndir, þótt vissulega sé djúpt á henni. Í fyrstu Hefnenda-myndinni var miðbær New York lagður í rúst í bardaganum við skúrkana, í þeirri næstu tortímdist heil tilbúin borg í Austur-Evrópu, Sokovia. En þessi eyðilegging hefur afleiðingar. Eyðileggingin í New York er baksvið sjónvarpsofurhetjubálka Marvel, sem þurfa að glíma við vafasama fasteignabraskara sem sjá tækifæri í að byggja heila borg upp á nýtt, og tortíming Sokoviu býr til diplómatíska flækju og færir ofurhetjurnar inn á svið stjórnmálan, þar sem sannleikurinn og réttlætið verða fyrstu fórnarlömbin. Enda hafa þær lært sína lexíu í mynd númer þrjú og tekst að færa flesta bardaga yfir á löngu yfirgefnar eyðiplánetur eða sléttur Afríku.

Varúð: spilliefni

En ef þú ert ein af þessum örfáu manneskjum á jarðkringlunni sem er ekki búinn að sjá Eilífðarstríð hefnendanna þá þarftu að vita tvennt: ég mun örugglega kjafta frá endanum hér á eftir og þessi mynd er eins langt frá því og hugsast getur að teljast sjálfstætt framhald og hugsast getur. Þið munið kannski eftir þessu orði, sjálfstætt framhald? Þetta var sagt um hverja einustu framhaldsmynd þangað til fáeinum árum síðan og fór alltaf í taugarnar á mér. Það gerði ráð fyrir minnislausum áhorfendum sem þyrfti að mata á öllum upplýsingum um hvað hefði mögulega gerst áður.

En allavega, upp á söguþráðinn að gera sakar ekki að rifja upp nýjustu myndirnar um Þór og Verndara alheimsins. En til þess að lifa þig almennilega inn í þetta þarftu eiginlega að vera búinn að sjá allar myndirnar átján sem komu á undan – alla fjörtíu klukkutímana. Vegna þess að hér birtast svo margar hetjur að hver og ein fær ekki nema fáeinar mínútur. Alltof fáar mínútur til þess að fara djúpt í persónusköpun. En eins og Hitchcock sagði á sinn hátt um Cary Grant, þess þarf ekki. Það er búið að því. Þú ert nú þegar búinn að eyða ófáum kvöldstundum með öllu þessu fólki – og geimverum – áður. Þú þekkir það, ert búinn að þróa með þér samkennd með sumum, andúð á öðrum, eins og gengur.

Í raun er þessi mynd eins og bíóútgáfan af ættarmóti. Þú þekkir flesta eitthvað, marga mjög vel – og það eru ósýnilegir þræðir sem tengja ykkur öll. Bíðum samt aðeins, líkingin er gölluð – ættarmót eru of tilefnislaus, hér eru hetjurnar nefnilega neyddar til að berjast saman. Mögulega er þetta frekar eins og jarðarför – eða jafnvel stórafmæli aldins ættföðurs.

Þrammandi Thanos

Enda er þrátt fyrir allt aðalperósna í myndinni. Thanos, geðilli títaninn sem vill tortíma hálfum alheiminum. Bara hálfum, vel að merkja, hann er ekki alveg brjálaður! Thanos hefur hingað til aðeins birst okkur í örstuttum atriðum, við vissum lítið um þessa þungbrýndu geimveru annað en að hann væri einhver hættulegasti skúrkur alheimsins. En þeir eru það nú flestir. En hér fær hann óvænta dýpt og verður merkilega forvitnileg aðalpersóna – en samt er hann ofboðslega einfaldur.

Thanos.jpgÞví hvað gerir Thanos? Jú, hann þrammar áfram – lemur menn og annan, vissulega. Lendir í stöku sálarklemmu líka og sumir andstæðingarnir eru erfiðari en aðrir. En aðallega þrammar hann áfram. Hann er einfaldlega óstöðvandi og stendur fyrir ákveðnina, feðraveldið, hnefarétturinn og skynsemina (sem er fljót að breytast í hreinræktaða geðbilun), allt í senn. Á meðan Thanos þrammar áfram þá biðja hetjurnar hver aðra ítrekað að drepa sig áður en Thanos nær þeim, til að bjarga alheiminum. En engin þeirra gerir það. Sá sem er tilbúinn til að fórna vinnur. Það er ekki sá klókasti sem vinnur þetta stríð, heldur sá samviskulausasti. Það eru kannski allir afkomendur Thanosar, beinir og óbeinir, í uppreisn gegn honum – en hann á samt alltaf lokaorðið.

Vegna þess að Thanos vinnur þetta stríð. Þetta er saga um það þegar vondi kallinn vinnur. Ekki bara einhver smáglæpon sem nær að ræna sjoppu, jafnvel banka, jafnvel drepa nokkur þúsund í leiðinni – nei, þetta er mynd um það þegar vondi kallinn vinnur og trilljónir deyja. Við vitum auðvitað að það eru framhöld á leiðinni. Náttúrulögmálin í þessum myndum eru óútreiknanleg og stundum afturkræf, einhverjir munu lifna við á ný, einhvern veginn. En samt, hálfur alheimurinn dó og það er nú alveg dálítið stórt skref hjá draumafabrikku sem hingað til hefur verið alræmd fyrir hamingjusöm endalok. Þrátt fyrir allan hasarinn reynist þessi dauðdagi svo furðu hljóðlátur, furðu ljóðrænn eftir allan hasarinn – þessi endir sækir meira í smiðju T.S. Eliot en Stan Lee, þar sem alheimurinn ferst ekki með hvelli, heldur snökkti.

Goðsagnir vísindabyltingarinnar

Það fylgir þessum skúrki líka sú skemmtilega hliðarverkun að flestir gagnrýnendur sem fíla ekki myndina enda á að vera sammála skúrknum. Thanos vill helminga fjölda lífvera í heiminum af því gjafir alheimsins eru ekki endalausar, ef það væru helmingi færri í þessum sama alheimi myndu engir líða skort. En helsti veikleiki myndarinnar er persónuofgnóttin, verður þetta ekki miklu betra þegar hetjurnar verða aftur helmingi færri, eins og í gamla daga, og allir fá nóg af línum?

Wanda.jpgEn hvað tengir þessar ofurhetjur allar saman – og af hverju tengja þær svona sterkt við okkur? Þær urðu flestallar til á tuttugustu öldinni í nýja heiminum, Ameríku, og hafa margar ofurhæfileika af slíkri stærðargráðu að þær eru guðum líkastar í getu sinni – en um leið afskaplega mennskar í breiskni sinni.

Þær urðu til í nýjum heimi sem var að reyna að búa til sínar eigin goðsögur – og á tímum þegar guðirnir hættu að vera miðlægir í heimsmynd almennings. En það þurfti áfram nýjar goðsögur – en nú þurftu þessar goðsögur snertifleti við hinn nýja heim vísinda og tækniframfara, já og við nýaldarhyggju blómabarnanna þegar á leið.

Bruce Banner og Peter Parker eru báðir vísindamenn (eða vísindahneigðir unglingar) sem öðlast ofurkrafta fyrir slysni, þegar tilraunir fara úr böndunum. Doctor Strange er skurðlæknir sem leitar í nýaldarfræðin þegar líkaminn bregst honum. Járnmaðurinn, Kapteinn Ameríka og Svarta ekkjan eru í raun háþróuð vopn, sem hafa í ofanálag samvisku og mennsku til að bera.

Það er helst að guðunum og geimverunum leyfist óútskýrðir ofurkraftar – enda urðu sögurnar til á sama tíma og hugmyndir Erich von Daniken um að guðirnir væru geimfarar voru vinsælar. Enda reynist Ásgarður, sem og aðrir staðir sem nefndir eru í Snorra-Eddu, einfaldlega vera hátæknivæddar plánetur þar sem heljarmenni beita tækni sem jarðarbúa getur aðeins dreymt um. Tækni eins og Mjölni og öðrum leikföngum goðanna. Og við höfum ekki einu sinni minnst á stökkbreytta X-mennina sem sökum réttindamála byggja enn annan ofurhetjuheim.

Einhvern veginn svona þróuðust ofurhetjurnar og urðu helgimyndir tuttugustu aldarinnar (eitthvað sem listamenn á borð við Warhol og Erró föttuðu snemma), passlega órökrétt viðbrögð dægurmenningarinnar við nýrri heimsmynd, nýjum lögmálum og nýjum hugmyndum. Allar þessar persónur hafa svo farið í gegnum ótal endurlífganir, nýja og nýja höfunda sem hafa sumir gert þær að sirkusfíflum og aðrir af heimspekilega flóknum einförum og allt þar á milli, hin eilífa endurnýjun erkitýpunnar er innbyggð í þessar hetjur og þær eru ekki að fara neitt.

GamoraSumir hafa meira að segja áhyggjur af því að þær muni tortíma kvikmyndaheiminum og öllu sem í honum er, þannig að ekkert verði eftir nema Marvel-hetjur og kannski einstaka Stjörnustríð. Þetta eru eðlilegar áhyggjur – og fákeppnin sem því fylgir að allir helstu sagnabálkarnir falli á sömu hendur er varhugaverð. En þetta eru ekki verri myndir heldur en stórmyndir fyrri áratuga, Rambóarnir, Rockyarnir og Lethal Weapon myndirnar sem við þessi bráðum miðaldra ólumst upp við. Vandinn er frekar sú samþjöppun valds sem hefur haldið áfram síðustu þrjátíu ár, þar sem 3 myndir eru sýndar í 30 sölum og 30 myndir sýndar í 3 sölum. Það eru nefnilega meira en nógu margar góðar bíómyndir búnar til í heiminum til þess að duga manni öll kvöld ársins og rúmlega það. Það eru nefnilega búnar til mörgþúsund kvikmyndir á hverju ári – og alveg einhver hundruð af þeim góðar – en fæst okkar getum séð nema brot af þeim við erum ekki annað hvort á þönum á milli kvikmyndahátíða eða búum í einhverri af þessum fáu borgum heimsins með alvöru kvikmyndamenningu, þar sem er ekki bara eitt heldur mörg listræn kvikmyndahús. Þannig að kannski er Thanos bara þegar allt kemur til alls bara táknmynd frústreraðs dreifingaraðila, sem dreymir um heim með helmingi færri bíómyndum svo allar fái þær nú sitt pláss í bíósölum heimsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson