Svona man ég Palla fyrst. Ótrúlegur talent – en hann passaði ekki í músíksenu tíunda áratugarins. Það var enginn að gera svona tónlist og enginn beinlínis að leita að henni, þetta var tími sveitaballabandana (sem nú eru flest orðin safngripir) en tónlistin hans Páls Óskars var bæði of gamaldags og of framúrstefnuleg, hann var gamaldsags evrópskur meginlandssjarmör, líklegur til að ganga tignarlega niður götur Parísar in the 60s, en líka með framúrstefnulega tölvutakta sem áttu ekki eftir að verða meinstrím fyrr en áratug síðar. Og hinsegin kúltúrinn sem hann auðvitað tilheyrði líka var rétt að byrja að brjótast inn í meginstrauminn.

Þessi næntís Palli var heillandi – og það var óskiljanlegt að hann væri ekki stórstjarna, þótt vissulega væri hann þekktur. Svo var hann með þá stórkostlegu útvarpsþætti Dr. Love – og fáir hafa talað af meiri einlægni í útvarp. Páll Óskar hefur vissulega talað um seinna meir að sjálfur hafi hann verið í tómu tjóni í einkalífinu á þeim árum sem hann sá um Dr. Love – en ég held það hafi bara gert Dr. Love betri, það tekur enginn við sambandsráðum frá eilíflega hamingjusömum pörum, þau skilja ekkert endilega baslið á okkur hinum.

En varðandi músíkina var trikkið í raun einfalt; Páll Óskar hélt einfaldlega tryggð við eigin músík – þótt hún hafi auðvitað þróast – og komst svo á endanum rækilega í tísku. Ég held samt að hann hafi bara verið í tísku í örskotsstund – og svo föttuðum við að hann er júník klassík og var kominn til að vera.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson