Í annað skiptið á tæpri viku villist ég aftur til eftirhrunsáranna við greinaskrif, hálfpartinn óvart. Ég veit ekki alveg hvenær þessi tími endar – við vitum auðvitað öll hvenær hann byrjar. Og þó, kannski lauk honum þegar Næsta bar lokaði. Eða kannski frekar þegar Næsti bar datt úr tísku?

Allavega, maður fær gamla Næsta bar beint í æð þegar maður horfir á Uppistandsstelpur eftir Áslaugu Einarsdóttur – það getur meira að segja vel verið að ég hafi verið þarna, ég fór á einhver af þessum kvöldum – en myndavélin einbeitir sér af uppistandsstelpunum og einu áhorfendurnir sem ég greindi almennilega voru kunnuglegir barþjónarnir.

Og núna finnst mér eins og við þurfum að fara að skoða þetta tímabil betur. Burtséð frá pólitískum hræringum og hruni og Icesave. Eða kannski ekki burtséð frá, það er alltaf þarna – en skoða betur þetta líf sem var að þróast og verða til í skugganum. Á milli gróðæra. Ladybird sýndi okkur í vetur sem leið að 2002 er orðið nostalgía – en þessi ár, 2008-10 sirka, eru engu lík í þeirri Íslandssögu sem ég hef lifað og þótt við höfum kafað rækilega ofan í flest sem gerðist á Austurvelli er máski kominn tími á að skoða hvað var að gera aðeins ofar í Miðbænum.

Íslenskur femínismi var meðal annars að ganga í endurnýjun lífdaga og þessi mynd er sannarlega hluti af því. Konur á rauðum sokkum var frumsýnd um svipað leyti og þær deila sama leikandi frásagnarmátanum, í báðum bæta teiknimyndasenur Unu Lorenzen miklu við frásögnina og báðar sýna hve dýrmætur húmorinn og sköpunargleðin getur verið allri réttindabaráttu.

Uppistandsstelpur fjallar eins og nafnið gefur til kynna um hóp kvenna sem koma saman til að halda uppistandskvöld. Þetta eru alls konar týpur, en með ákveðinni einföldun – og hér er ég að vitna í þær sjálfar – þá byrjaði þetta á nokkrum femínistum sem ruddu brautina og svo bættust „sex-and-the-city Kaffibarsgellur“ við. Þetta er hentug einföldun um sumt – útskýrir ágætlega hvernig dýnamík hópsins þróast, en auðvitað einföldun samt. Bæði eru þessar meintu Kaffibarsstelpur ekkert allar alveg ókunnugar femínisma og eins hafa hafa femínistastelpurnar alveg sést á Kaffibarnum líka. Eins er skemmtilegur kontrast hvernig þær tvær sem starta þessu, Katla og Þórdís Nadia, líta þetta allt öðrum augum eftir að þetta er komið í gang. Katla, sem notar hið skemmtilega orð framkvæmdafemínismi yfir uppátækið, er sátt við að láta keflið eftir öðrum á meðan Nadia finnur einhverja köllun í uppistandinu, hún vill fara með þetta alla leið.

Ég man að ég hafði smá áhyggjur þegar ég sá myndina fyrst – ég var búinn að sjá þetta standöpp í salnum þannig að ég vissi að bara það ætti að tryggja að myndin yrði fyndin, en gæti myndin bætt einhverju við, gæti hún keppt við standöppið sjálft? En teikningar Unu slógu strax í upphafi á þann kvíða, sem og aðrar áherslur myndarinnar – hér eru engar langar upptökur á standöppi sem stór hluti áhorfenda hafði mögulega séð. Myndin sýnir ekki nema búta úr einstökum standöppum – mörgum standöppum raunar – enda eru stelpurnar ellefu og hver og ein fær drjúgan tíma. Hins vegar sjáum við undirbúninginn og ýmsar senur sem kalla á við uppistandið og dýpka það, senur þar sem klippt er á milli uppistandsins og uppsprettunar, sem í einu tilfelli var annað misheppnað uppistand. Tap verður að sigri og aftur að tapi, allt í gegnum klippivélina.

Hvenær kemur framhaldið?

Uppistandsstelpur2.jpgÍslenskt standöpp er tiltölulega ungt ennþá – og kannski ekki sérlega meinstrím ennþá, ef einstaka uppistandarar eru undanskildir. En það er samt loksins að verða til eitthvað sem hægt er að kalla senu. Grínistar sem voru þekktari fyrir útvarps- eða sjónvarpssketsa, eins og Radíusbræður og Tvíhöfði, er það sem maður man helst á árunum fyrir Mið-Ísland og Uppistandsstelpur. En þótt þetta sé ung listgrein hérlendis varð þetta fljótlega strákasport.

Strákarnir birtast aðeins hér – þegar myndavélin grípur Jóhann Alfreð í Mið-Íslandi í hléinu á einu uppistandinu játar hann það að stelpurnar séu miklu grófari en þeir, þeir myndu aldrei komast upp með þennan neðanbeltishúmor. Sem þær taka sumar undir – en mögulega eru strákarnir bara búnir að klára þann húmor hjá sjálfum sér, mögulega hefur hann runnið sitt skeið og þarf pásu? Ég veit það ekki, mögulega er styrkur uppstandsstelpnanna að það eru fleiri sögur ósagðar af konum en köllum, augljósir brandarar sem liggja þarna og bíða eftir að einhver segi þá.

En þótt þessar uppistandsstelpur hafa gert ýmislegt síðan, margar hverjir verið áberandi í leiklist, kvikmyndagerð, ljóðlist, dansi, akademíu og mannréttindabaráttu – þá er hálfgerð synd að þær séu ekki jafn sýnilegar í uppistandinu lengur (Þar er helst að Þórdís Nadia sé undantekningin, en útskriftarsýning hennar úr LHÍ var mjög skemmtilegur bræðingur af uppistandi og einleik). Mögulega er kominn tími á framhald?

En þangað til – þá er öll myndin til ókeypis á Vimeo ef þið viljið horfa.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson