Aretha. Bara eitt orð. Alltaf þegar maður heyrði eða las um soul-tónlist þá var hún einhvern veginn yfir öllu, guðmóðirin sem allir litu upp til. En svo var hún bara dauðleg eftir allt saman.

Röddin er sjaldnast tærari og hreinni en í þessu lagi um heppnu gömlu sólina. Þetta er lag um vinnuna – og þótt það sé freistandi að sjá sólina sem hvíta manninn sem hefur það gott á meðan þrælarnir þræla á akrinum þá er lagið miklu magnaðra ef það er skilið bókstaflega. Þessi tilfinning að þræla í paradís – þar sem augun eru á moldinni en horfa stöku sinnum upp í himininn. Samanber viðlagið:

Up in the morning, out on the job
Work like the devil for my pay
But that lucky old sun got nothing to do
But roll around heaven all day

Í einfadleika sínum súmmerar þetta upp allt sem er að kapítalismanum og því vafasama vinnusiðferði sem hann boðar; við finnum mögulega paradís en við getum aldrei notið hennar. Hún er alltaf handan við sjóndeildarhringinn. Þetta er einfaldlega lag um vinnu sem þrældóm. Þetta ætti eiginlega frekar að vera mánudagslagið.

Aretha var vel að merkja ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta sem söng þetta lag. Fyrstir voru hvítir jakkafatasöngvarar á borð við Frankie Laine og Frank Sinatra, sem voru svo órafjarri þessum raunveruleika að orðin týndust og urðu merkingarlaus. Louis Armstrong, Sam Cooke og Ray Charles komust nær kjarna lagsins seinna meir – og sömu sögu var að segja um hvíta söngvara sem voru meiri verkamannasöngvarar, á borð við Pat Boone og Johnny Cash. Sérstaklega Cash raunar – hann og Areta öðrum fremur skilja lagið. Skilja þessa sól – en ennþá frekar, að lagið er ekki um hana.

Og auðvitað skildirðu lagið líka ef þú lifðir bak við járntjald – hér er tékkneska útgáfan, Stare Šťastné slunce, með Hana Hegerová – og svo á ensku með þykkan hreim strax á eftir.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson