Það er rigningardagur og þú horfir út um bílglugga á heiminn þjóta hjá. Þetta er ekki merkilegt landslag, það ætti að vera auðgleymanlegt smáatriði – en við tökum óvenju vel eftir því, vegna þess að við erum að horfa í gegnum augu Chris, sem er að sjá heiminn í fyrsta skipti í tuttugu ár.

Hann er á leið heim í Granite Falls, litla smábæinn sem hann ólst upp í, eftir tuttugu ár í fangelsi. Við fáum lítið að vita um það hvernig hann lenti í fangelsi fyrr en töluvert er liðið á myndina, þannig þurfum við að dæma Chris eins og hann er núna – en ekki fyrir það sem hann gerði eða gerði ekki.

Outside In fjallar ekki sérstaklega um fangelsiskerfi Bandaríkjanna né réttarkerfið – þótt það sé ávallt undirliggjandi þema þá fjallar myndin meira um litlu hlutina sem fylgja því að vera aftur þátttakandi í heiminum. Það er eitthvað um fyrirsjáanlega brandara um snjallsíma – og einn þeirra meira að segja góður – en svo eru líka hlutir eins og að fylla út starfsumsóknir og finna að þú passar ekki inní þessi box og munt aldrei gera, að þurfa að æla eftir fyrsta bjórinn í 20 ár og að finna aftur gamla BMX hjólið og uppgötva heiminn á ný á því. BMX senurnar eru einhverjar bestu senur myndarinnar – Chris virðist fá heiminn beint í æð þegar hann hjólar, þennan heim sem hann fór á mis við í öll þessi ár. Einnig fangar þessi mynd af honum á alltof litlu hjóli ágætlega persónu Chris – án þess að hann sé vitlaus eða seinþroska þá er hann samt í einhverjum skilningi ennnþá unglingur í þessum heimi, af því hann gerði ekkert af því sem jafnaldrar hans eru búnir að gera síðustu 20 árin. Eins fáum við nokkur dæmi um tilfinninguna þegar Chris áttar sig á að minnstu yfirsjónir geta kostað lífstíð í fangelsi, eða eins og skilorðsfulltrúinn hans segir honum – hann er hvergi nærri frjáls ennþá.

Þessi erfiðu orð

OutsideIn3Lynn Shelton leikstýrir og Jay Duplass leikur Chris – og þau skrifa handritið saman. Duplass er líklega þekktari sem annar helmingur Duplass-leikstjórabræðranna, sem ásamt Shelton eru með þekktustu leikstjórum sem kenndir eru við mumblecore – orð sem leikstjórarnir sjálfir hafna þó. Enda nafnið villandi – flestir eru ágætlega skýrmæltir í þessum myndum – og þetta eru orðmargar bíómyndir, en það þarf að hafa fyrir orðunum.

Það á bæði við um Chris og Carol, hina aðalpersónuna, sem þurfa að venjast því að tala saman utan múrana og tilfinningar sem voru ekki orðaðar þá þarf skyndilega að orða. Carol, sem Edie Falco leikur meistaralega, var enskukennari Chris – en var svo sú sem vann harðast að því að fá hann lausan. Hvers vegna vitum við aldrei almennilega hvers vegna taugin á milli þeirra var svona sterk til að byrja með. Mögulega sökum áhuga Carol á góðgerarmálum – en mögulega er einhver önnur ástæða, við þurfum ósjaldan að geta okkur til um fortíðina í þessari mynd. Carol er búin að vera eina haldreypi hans við umheiminn öll þessi ár og Chris er bálskotinn í henni – en Carol er skeptískari, enda ástarsamband með fyrrverandi nemanda einkennileg tilhugsun, fyrir utan að hún sé gift kona – þótt við sjáum fljótlega að hjónabandið sé í molum.

OutsideIn2.jpgAfskippt dóttir þeirra hjóna, Hildy (Kaitlyn Dever), finnur svo óvæntan sálufélaga í Chris. Hún er nógu klár til þess að ná til táningsins í Chris sem aldrei fékk að þroskast – en þess utan eru þau einfaldlega tveir utangarðsmenn sem fá ekki þá athygli sem þeir þrá frá Carol. Þannig verður galdur þessa óvenjulega ástarþríhyrnings sá að við lærum stundum mest um þann aðila sem er fjarverandi.

Þau þrá hið forboðna af því þeim hefur verið neitað of lengi um hið eðlilega (Chris), hið eðlilega er orðið þeim fangelsi (Carol) eða … við vitum kannski aldrei almennilega af hverju Hildy sækir frekar í félagsskap fullorðinna en jafnaldra sinna, hún fer mögulega aðeins of langt á unglingaspjaldinu – en næmur leikur Kaitlyn Dever skilar þó ansi mörgu ósögðu. Kannski til þess að eignast hlutdeild í heimi móður sinnar í gegnum Chris, eða kannski bara af því eins og nafnið bendir til þá er heimurinn öfugsnúinn og langanir rekast á við væntingar heimsins, aftur og aftur. En þá þurfa þau öll að finna mörkin sjálf – og það eru orðin sem getur verið erfitt að segja.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson