Stundum passar lag og texti fullkomlega saman. Jafnvel lag, texti og mynd. Where the Wild Things Are. Ég hafði aldrei hlustað á textann almennilega fyrr en núna – ég fann bara fyrir laginu, sem passaði svo vel við bíómyndina – um þessa óendanlegu orku sem felst í bernskunni og fantasíunni. Leiknum.

Somethin’ filled up
My heart with nothin’,
Someone told me not to cry.

Now that I’m older,
My heart’s colder,
And I can see that it’s a lie.

Children wake up,
Hold your mistake up,
Before they turn the summer into dust.

Um það að eldast og gleyma bernskunni. Fylla hjartað af fölskum vonum. Þetta nothin‘ – eru það fölsku markmiðin, eru það áhyggjurnar, eru það skuldirnar? Við eigum öll okkar ekkert og við grátum fæst nógu oft.

En svo erum við líka kynslóðin sem óx aldrei almennilega úr grasi. Síbernsk. Það er snúið að fullorðnast og það er hægt að gera það á ýmsa vegu.

Ég var að ræða við strák á barnum áðan sem greindi á milli pólitíkusa sem hann var ósammála og pólitíkusa sem hann taldi beinlínis hættulega á frekar einfaldan hátt í raun; fyrri gerðin var að minnsta kosti fullorðið fólk. Og svo voru Trumpar heimsins.

En fyrir sumum er Trump pabbi. Bernskan er allavega, sum okkar eldast fyrir aldur fram af því foreldrar okkar gerðu það aldrei.

Þess vegna þurfum við að varðveita barnið í okkur – klisja, ég veit – en þann hluta sem skiptir máli. Varðveita undrið, varðveita þann hluta sem sér galdurinn í því einu að hoppa og skoppa og leita að ævintýrinu.

Ekki sjálfselska sjálfhverfa krakkann sem við vorum öll líka stundum. Fyllum hjartað með einhverju allt öðru en lygi. Eða eins og segir í næsta erindi:

If the children don’t grow up,
Our bodies get bigger but our hearts get torn up.
We’re just a million little god’s causin’ rain storms turnin’ every good thing to rust.
I guess we’ll just have to adjust

ArcadeFireVið stækkum og hjartað þarf að fylgja. Það þarf að stækka líka. Við þurfum að aðlagast, en um leið að halda hjartanu hreinu og heilu.

Það sem ég er samt að reyna að segja með öllum þessum orðum er mjög einfalt: einhvern veginn hafa Arcade Fire náð að fanga undrið, leitina og leikinn í þessu einfalda lagi. Textinn er svo bara bónus.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson