Það er farið að hausta og sumarið fer bráðum að hörfa, en það er samt ennþá hér, það sér maður á því að það eru ennþá nánast eingöngu rándýrar sumarstórmyndir í bíó, framhöld af síðasta sumri. Ég á enn eftir að komast á skrímslaframhöldin tvö, þessa um risaeðlurnar og stökkbreyttu Ókindina sem heitir eitthvað annað núna en Jaws.

En ég kíkti á Incredibles 2 og Mission: Impossible – Fallout og upplifði hálfgerða formúluþreytu þótt myndirnar væru báðar ágætar. En það er samt aðeins snúið upp á formúluna, það er auðvitað hluti af henni – en ekki sama hvernig snúningurinn er.

Incredibles2.jpgSnúningurinn hér er fyrst og fremst kynjavinkillinn, sem löngum hefur verið heldur karllægur í hasarmyndum Hollywood. Það er hreinlega farið alla leið í Incredibles 2, þar sem Elastigirl er einfaldlega fengin í aðalhlutverkið – af almannatenglum, vel að merkja – á meðan Herra Ótrúlegur fær að sitja heima og passa börnin. Þegar það fer svo að bera á óútreiknanlegum ofurkröftum hjá kornabarninu, sem hefur litla stjórn á þeim, þá er þó spurning hvort barnauppeldið reynist ekki erfiðari þraut heldur en smáræði eins og að stoppa ofurlestir eða berja á skúrkum. Í ofanálag reynist aðalskúrkurinn kvenkyns – á meðan karlgreyin eru að mestu á hliðarlínunni.

Þetta er lúmskara í sjöttu Mission: Impossible myndinni. Serían hefur alltaf daðrað aðeins við að vera eins og Bond en um leið þurft að aðgreina sig frá Bond (en mætti samt læra það að semja góða titla á bíómyndir af njósnara hennar hátignar, Ghost Protocol, Rogue Nation og Fallout hljómar eins og vondutitlakeppni). Fyrsta myndin fékk meira að segja þekkta poppara til að endursemja þemalagið, rétt eins og Bond-myndirnar hafa gert frá ómunatíð – en féllu fljótlega frá þeirri hugmynd. En það sem er kannski forvitnilegast er hvernig Bond-gellurnar hafa þróast í Mission: Impossible heiminum. Fyrsta myndin skartaði Emannuele Béart og Kristin Scott Thomas, mun virtari leikkonum en í flestum Bond-myndum fram að þessu – en vissi ekki almennilega hvað átti að gera við þær. Engu að síður var Scott Thomas eiginlega sálin í myndinni, þrátt fyrir afskaplega naumt skammtaðan tíma á skjánum – bestu leikararnir hafa einfaldlega þennan hæfileika, ekki að stela myndum heldur gæða þær sál sem þær eiga ekkert endilega skilið.

Svo komu tvö og þrjú og Thandie Newton og Michelle Monaghan voru það besta við augðleymdar myndir – áður en Paula Patton var það auðgleymdasta við annars furðu eftirminnilega fjórðu myndina.

En svo kom fimmta myndin og Rebecca Ferguson breytti öllu, ekki ósvipað og Eva Green gerði fyrir Bond í Casino Royale. Þarna var komin kvenhetja sem var of eftirminnileg til þess að kvikmyndagerðarmennirnir gætu einfaldlega bara gleymt henni í næstu mynd. Hörð af sér, betur skrifuð en oftast – en einfaldlega með leikkonur sem leyfðu sér að setja sálina í annars ódýra hasarhetju. Í ofanálag er leikkonan sænsk og persónan heitir Ilsa, sem er viðeigandi, enda er Ferguson það eina í þessum myndum sem kemst í hálfkvisti við Casablanca, fyrir utan Karlsbrúarsenuna í fyrstu myndinni, vitaskuld.

Þess vegna gerist sá fáheyrði atburður að hún snýr aftur í sjöttu myndinni – og í ofanálag snýr Michelle Monaghan aftur úr þriðju myndinni, konan sem hvarf svo Krúsi gæti haldið áfram í leyniþjónustunni – en á sér alvöru líf sjálf við að bjarga heiminum á sinn hátt. Þær mætast meira að segja og hefðu sjálfsagt orðið vinkonur ef þær hefðu ekki verið of uppteknar við að bjarga heiminum. Þetta er sannarlega þróun frá kvenpersónum sem annað hvort gleymast eða deyja, svo hetjan geti verið reið, sorgmædd eða niðurbrotin í næstu mynd. Að því sögðu þarf að þróa þetta aðeins betur – Ferguson nær ekki að vera alveg jafn áhugaverð og í síðustu mynd, menn eru ennþá að læra þetta; að þróa kvenpersónurnar áfram í þessum myndum í staðin fyrir að kynna alltaf nýja.

Svart-hvíta saklausa veröld

Það er hins vegar minna um að snúið sé uppá skúrkana og heimspólitíkina sem er þó alltaf undir þegar sviðið er þetta stórt. Sem er nánast afturhvarf til fortíðar þegar horft er til Stjörnustríða og ofurhetjumynda undanfarinna missera sem iðullega daðra aðeins við það að kallast á við fréttatímana.

Þannig eru þessar tvær myndir nánast afturhvarf til saklausari fortíðar þar sem hasarmyndir voru fyrst og fremst veruleikaflótti og vondu kallarnir fyrst og fremst bara vondir. Hér er enginn Donald Trump – við sjáum engan valdameiri heldur en Angelu Bassett, sem er yfirmaður CIA, og vel viljaðan pólitíkus sem við lærum lítið um í The Incredibles.

Jú, það er þessi sífellda ógn um að ofurhetjur verði ólöglegar og að njósnadeildinni hans Ethans verði lokað, en það er alltaf þannig og bara eins og daufur endurómur frá X-Men seríunni á sínum betri stundum. Svo spyr einn anarkistaskúrkurinn Krúsa hvort hann treysti yfirmönnum sínum, og þar með ríkisstjórninni, í blindni? En það er ekkert reynt að svara þessu í alvörunni – og mögulega má helst lesa þá pólitík úr myndunum að engu þurfi að breyta (Mission: Impossible) eða einmitt að við þurfum að breyta hlutunum (The Incredibles). Svo eru líka einhverjar hugmyndir um virði þess að bjarga einu mannslífi, þótt allur heimurinn sé undir, svona svipað og í Avengers og Schindler‘s List.

CruiseRunning.jpgEn Mission: Impossible myndirnar snúast samt auðvitað fyrst og fremst um eitt: að horfa á Tom Cruise hlaupa. Eða stökkva eða klifra. Þau atriði eru best þegar þau reyna verulega á lofthræðsluna í áhorfendum, eins og í norsku fjöllunum sem hérna leika Kasmír.

Þessar myndir eru persónulegt æfingasvæði síðustu stóru Hollywood-stjörnunnar, þar sem hann bíður aldrinum og tölvutækninni birginn. Hann er leikarinn sem íþróttamaður, sem reynir sífellt við næsta met. Á tímum ofurhetja sem öðlast líf í gegnum tölvubrellur þá er Tom Cruise ofurmennið sem er samt mennskur. Hér hefur hann á endanum betur gegn sjálfum Súpermann, en Henry Cavill leikur yngri og hávaxnari leyniþjónustumann sem er eins konar barnapía fyrir Cruise – en á auðvitað ekkert í gamla kallinn þegar til kastanna kemur. Svo er bara að vona að hann hreinlega drepi sig ekki í mynd númer sjö eða átta, enda viljum við öll sjá göngugrindarhasaratriðin í númer sextán.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson