Tveir menn liggja á gólfinu, haldast í hendur og hlusta á fagran óð Charlene, „I‘ve Never Been to Me.“ Þetta gæti verið fallegt atriði, mögulega þó örlítið væmið, ef þetta væru elskendur eða vinir eða feðgar – en nei, þetta eru tveir leigumorðingjar sem voru að enda við að reyna að drepa hvorn annan. Og einmitt það gerir þetta að einhverri bestu notkun tónlistar í kvikmyndum í langan, langan tíma.
Spólum aðeins til baka: Myndin er You Were Never Really Here og Joaquin Phoenix leikur þar launmorðingjann Joe í bleksvartri mynd (og hér kemur eitt stykki feit Höskuldarviðvörun), þar sem hann bjargar stúlkubarni úr kynlífsánauð – en fær það í bakið þegar sá valdamikli kynlífshringur sem hann abbaðist uppá reynir allt til þess að eyðileggja líf hans. Eins og til dæmis að mæta heim til hans og drepa aldraða móður hans, einu manneskjuna í heiminum sem heita má að Joe eigi mannleg samskipti við. Það er eitthvað skelfilegt við morðið á mömmunni, ekki hennar vegna, hún virtist södd lífdaga – heldur okkar vegna og Joe vegna. Okkar vegna af því mamman var eina ljósið í myndinni, innan um alla þessa eymd, og hans vegna út af því hann átti ekkert annað eftir af mennsku í þessum vonda heimi.
En launmorðingjarnir eru enn í húsinu, þeir eru að bíða eftir Joe – og eftir æsilegan skotbardaga þá nær hann að sigrast á þeim. Joe er örmagna, liggur við hlið annars morðingja móður sinnar, sem er ekki dáinn ennþá, en báðir vita að hann er feigur. Þar sem þeir liggja þarna, annar deyjandi og hinn örmagna, þá heyra þeir í útvarpinu. Klassísk seventís ballaða frá því þeir voru báðir strákar, eitthvað sem mamma þeirra spilaði örugglega á sólríkum bernskudögum. Reikna ég með, þar sem ég er á svipuðu reki og Phoenix og mamma spilaði einmitt plötu með þessu lagi reglulega.
Þeir byrja báðir að raula með, og ennþá virkar þetta meira eins og kolsvartur brandari úr Tarantino mynd. En þá kemur göldrótt augnablik, mitt í svartnættinu. Launmorðinginn deyjandi réttir Joe hendina – og þeir haldast í hendur á meðan Charlene syngur. Þetta er lag um húsmóður sem hvergi kemst, en sungið af einhverjum sem fór og týndist. Hver sem syngur, þá er eitt á hreinu – þetta lag er sannarlega um þá.
Ég efast svosem um að þeir hafi komið til allra þessara staða sem nefndir eru í laginu, en textar popplaga virka ekki á svo bókstaflegan hátt, þeir snúast oft um stakar línur, jafnvel viðlagið – og hér er viðlagið einfaldlega:
I’ve been to paradise
but I’ve never been to me…
Þessir menn hafa nefnilega fyrir löngu týnt mennskunni – eða eins og titill myndarinnar gefur til kynna – þú varst aldrei hérna. Ekki í alvörunni. Þú varst bara draugur sem bjóst til aðra drauga.
En mögulega varstu hérna einhvern tímann í alvörunni. Á björtum bernskudögum þegar þú lékst þér á gólfinu á meðan mamma þín spilaði grammafónplötur og þú varst ekki ennþá orðinn sálarlaus launmorðingi. Og á svona gólfi finnurðu lífið fjara í burtu og ert loksins kominn heim. Og burtséð frá öllum glæpum þá sættast þeir á þetta:
Won’t you share a part
of a weary heart
that has lived a million lies?
Texti: Ásgeir H Ingólfsson