LofMérAðFallaMerking.jpgÞetta byrjar á svörtum ramma og röddinni hans Ólafs Darra. Hún er mjúk og róandi eins og venjulega, en það er myrkur í orðunum – og fljótlega áttum við okkur á að hér leikur hann rammfullorðinn karlmann að reyna að nýta sér eymd unglingsstúlku. Hún nær þó, með hjálp vina, að nýta sér veikleika hans – en við vitum að þótt þær vinni nokkrar orustur þá vinni þær aldrei stríðið.

Ólafur Darri birtist ekki aftur – en stelpunum tveimur sem snéru á hann fylgjum við, bókstaflega, alla leið. Þetta eru þær Stella og Magnea, og í raun er Magnea að elta Stellu, sem er eldri og hávaxnari og sjálfsöruggari. Hún er femme fatale sögunnar, tálkvendið. Líklegast ástæðan fyrir því að Magnea sogaðist inní þennan heim, við getum ekki verið viss, en það er líklegasta tilgátan.

LofMéraðFalla3.jpgÞetta er heimur myndarinnar Lof mér að falla, heimur eiturlyfja – sem og á köflum dónakalla sem eru eins og sníkjudýr á þessum sama heimi, kaupa sér eymd þeirra svo þær hafi efni á að kaupa sína eigin eymd. Já, og var ég búinn að nefna eymdina? Það er nefnilega rosalega mikið af henni í myndinni.

Stella og Magnea fullorðnast svo – og myndin flakkar ört á milli tímaskeiða, speglar þannig upphaf og endi, orsök og afleiðingu. Á fullorðinsárum hafa þó ákveðin hlutverkaskipti orðið. Myrkraveran Stella hefur séð ljósið og sér nú um að hjálpa þeim þjáðu – en núna er Magnea litli djöfullinn sem minnir hana sífellt á fortíðina. Magnea er orðin hrak af manneskju, jafnvel full ýkt, en samviskubitið yfir að hafa skilið hana eftir í heimi ógæfunnar nagar Stellu endalaust og gerir alla hennar millistéttartilveru á endanum innantóma. Það birtist meira að segja í kærastanum – sem virðist hreinn og beinn, samt pínu durgur, en hún virðist sætta sig við hann frekar en að elska, eins og henni finnist hún ekki eiga betra skilið.

Og þótt Magnea sé hinn eiginlega aðalpersóna þá er persóna Stellu forvitnilegri – þá sérstaklega eldri útgáfan. Hennar ógæfa er sjálfstraustið og töffaraskapurinn, hún er stelpan sem allar hinar þráðu í Gaggó, hvort sem þær þráðu hana bókstaflega eins og Magnea eða þráðu að vera hún. Núna sér hún hvernig hún misbeitti þessu valdi sínu, bæði á vinkonur sínar og sjálfa sig – sem var ekki jafn ósnertanleg og hún virtist.

Það er margt fantavel gert í þessari mynd. Sannkristinn meðferðarúrræði fá á baukinn, við sjáum hvernig „þetta Jesúkjaftæði“ fer öfugt ofan í uppreisnargjarna unglinga í meðferð og hrekur þá á endanum aftur á götuna. Á meðan leikur biskupsonurinn Gói versta djöfull myndarinnar, já, nema vera skyldi ofbeldisfautann (Víkingur Kistjánsson) sem á í meðvirku sambandi við Magneu á fullorðinsárum. Sá kóni er örlítið of ýktur til þess að maður kaupi hann almennilega, en hins vegar á sonur Víkings, Tómas, stórleik sem yngri útgáfa pabbans, jafn lúðalega sjarmerandi og sá gamli er lúðalega ógeðslegur.

Eins eru aðalleikkonurnar fjórar hver annarri betri og það er töluvert hugrekki í kvikmyndagerðinni, eins og bara strax í byrjun þar sem upphafssenunni líkur á óvæntri þögn og svo titlinum á svörtum fleti: Lof mér að falla. En falla hvert?

Myndin sjálf fellur á handritinu, ekki einstaka veikleikum í uppbyggingu sögunnar, heldur miklu frekar á því að handritið er ekki alveg jafn hugrakkt og kvikmyndagerðin sjálf. Og þar komum við að foreldrunum.

Ráðalausir foreldrar

Magnea er skilnaðarbarn – en þó að virðist hluti af tveimur ágætlega hamingjusömum fjölskyldum sem urðu til við skilnaðinn. Fósturforeldrarnir hverfa þó fljótlega að mestu úr myndinni og foreldrarnir verða í aðalhlutverki. Þetta eru ekki dæmigerðir foreldrar dópista. Pabbinn virðist að vísu hafa verið í einhverri neyslu áður fyrr, en það er lítið gert með það. Þetta eru þvert á móti ljúfir og góðir foreldrar, sem reyna að vera skilningsríkir, þvert á harðstjóra og ofbeldisfólk í foreldrahópi annarra dópista hvíta tjaldsins.

En það er dálítið eins og ljúfmennskan verði þeim fjötur um fót, þau þora nánast aldrei að sýna aga eða hörku gagnvart afkvæmunum, hversu miklum ógöngum sem þau lenda í. Þau þora aldrei að vera ströng. „Þá fjarlægist hún okkur bara,“ segir pabbinn á einum stað – og mann grunar aðeins að þetta hafi verið öfugt í hans tilfelli, að ástlausir og óhóflega strangir foreldrar hafi orðið kveikjan af hans neyslu. Hérna er komin ljóslifandi speki Jesse (Ethan Hawke) úr Before Sunrise um að foreldrar okkar alla fokki okkur upp, ýmis með of mikilli ást eða of lítilli ást, ofverndun eða skorti á vernd. Hér birtist þetta í praxís – þar sem foreldrarnir vilja ekki beita aðferðunum sem næsta kynslóð á undan beitti, en festist í staðinn í ráðaleysinu einu.

Þetta er forvitnileg nálgun og óþægileg, sérstaklega fyrir okkur sem höfum lært einhverja uppeldisfræði. Getur verið að gömlu aðferðirnar virki betur – er mýktin jafn misheppnuð uppeldis- og kennsluaðferð og harkan? Það er forvitnileg spurning sem mætti skoða betur – og var raunar velt upp með öfugum formerkjum í Whiplash.

LofMéraðFalla

En stærsti vandi myndarinnar er að þetta er í vissum skilningi saga foreldranna, þótt þau séu í aukahlutverki. Ekki bókstaflega, vissulega, en þetta er forvarnarmyndin sem þau hefðu viljað sjá, jafnvel sagan sem þau munu segja yngri sysktinunum um Magneu.

Við skiljum nefnilega aldrei af hverju þær Magnea og Stella standa í þessu. Við sjáum einstaka senur, sem oft endast ekki nema í örskotsstund, af upptúrnum, eins og þegar Magnea brosir eins og hún sé í himnaríki eftir að hafa prófað nýtt dóp. Það er nóg af djammsenum, en myndin sýnir djammsenurnar nær alltaf utanfrá. Þið þekkið kannski sögur fólks sem hefur hætt að drekka og/eða dópa og lýsir því hvernig það gengur inná bar og lýsir öllu því sem fram fer sem botnlausum leiðindum. Sem það mögulega er þegar þú ert ekki í partíinu lengur, heldur bara að horfa á það. Við verðum aldrei vímuð með þeim, við fáum aldrei að skilja kikkið. Við horfum bara á þær veslast upp og komumst aldrei inní hausinn á þeim.

Þannig skiljum við bara helminginn – ef það, því ef við skiljum ekki fyrri helminginn skiljum við þann seinni ekki heldur. Með því að draga upp mynd af þessum heimi sem er eymdin ein þá vantar einfaldlega eitthvað. Þær sjálfar vantar einhvern alvöru persónuleika, annan en fíknina, þótt leikkonurnar geri sitt besta til að ljá þeim karakter.

Þannig verður myndin aldrei það kjaftshögg á áhorfandann sem hún ætlar sér líklega að vera, því hún kemur aldrei sérstaklega á óvart. Pabbinn segir Magneu á einum stað að hún geti orðið allt sem hún vilji verða – og við vitum öll að hann hefur rangt fyrir sér. Ekki af því hún geti ekki hætt að dópa, það gæti ennþá verið von þar – en vegna þess að þótt hún sé með góðar einkunnir þá skortir hana persónuleika og áhugamál, og þar með allan hvata til þess að verða eitthvað. Hún vill ekki verða neitt, við sjáum aldrei neina möguleika fyrir hana, aðra en hið óumflýjanlega framtíðarflak fíkilsins sem hún verður í lokin.

Það má mögulega súmmera myndina upp með þeim orðum að það vanti allt Trainspotting í hana. Það má vel að merkja alveg saka þær myndir um að baða fíklalífið dýrðarljóma, þrátt fyrir einstaka niðurtúr. En þær eru það skemmtilegar, óforskammaðar og góðar samfélagsádeilur að maður fyrirgefur þeim það. Hins vegar þarf líka niðurtúra eins og þessa, en það er satt best að segja flóknara mál – og til þess að þær gangi almennilega upp þarf aðeins meiri breidd í tilfinningalitrófið. Smá fokkjú einræður áður en allt fer í fokk, ekki bara málhalta unglinga sem virka óttalega barnalegir vitleysingar gagnvart okkur hinum fullorðnu.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson