Bin Laden LagÍ vikunni voru sautján ár síðan. Síðan turnarnir féllu. Og eins og marga grunaði var fall turnanna sjálfra aðeins upphafið af atburðarás sem enn sér ekki fyrir endan á. Þeir atburðir höfðu auðvitað mest áhrif í Mið-Austurlöndum, þar sem Bandaríkjamenn hafa verið duglegir við að stunda hernað með oft skelfilegum afleiðingum. En ekki síður heima fyrir, þar sem vel má rekja uppgang þjóðernishyggju og aukinnar spennu á milli kynþátta til þessa örlagaríka septemberdags.

Strax árið 2004 voru sumir farnir að tengja þetta tvennt – þar á meðal rappararnir Immortal Technique, Mos Def og DJ Green Lantern, auk þess sem lög Jadakiss og Eminem eru sömpluð. Þeir sungu um hvernig það væri ekki bin Laden sem væri að leggja hverfi þeirra í eyði, það væri Bush sjálfur.

Lagið varð vissulega umdeilt – sérstaklega á meðal bókstafstrúarmanna, og þá meina ég þeirra sem tóku textann allan óhóflega bókstaflega, nánar tiltekið laglínur á borð við að Bush hafi fellt tvíburaturnana.

Aðalhöfundur lagsins, Immortal Technique, hefur hins vegar sagt opinberlega að hann telji Bush ekki ábyrgan fyrir 11 september, en hann hafi hins vegar ekki verið alveg hreinskilin með tengsl sín við ýmsa sem voru ábyrgir og bendir á að þótt flestir hryðjuverkamennirnir hafi verið frá Sádi-Arabíu hafi Bandaríkjamenn ráðist á Afganistan og Írak.

Það eru raunar Mos Def og Eminem sem sjá um að færa í stílinn með því að varpa fram nokkrum góðum samsæriskenningum, á meðan megnið af textanum er sunginn af Immortal Technique – og þar eru staðreyndirnar á hreinu, bendir á tengsl CIA við bin Laden og fleira, og talar auk þess um Fake Christians og Fake Politicians, eitthvað sem rímar við Fake News okkar daga.

En fyrst og fremst er þetta eldræða, þar sem allri reiðinni yfir því hvernig Ameríka er að þróast, reiðinni yfir bakslaginu í réttindabaráttu blökkumanna og reiðinni yfir aldalangri mismunun sem virtist aðeins ætla að aukast – þessi reiði brýst út í hálfgerðri vopnkvaðningu, þar sem bent er á að óvinurinn séu ekki múslimar í austri, heldur valdhafar í þeirra eigin landi. Eitthvað sem gæti vel endað í borgarastyrjöld einn daginn, samanber eftirfarandi texta:

‘Cause if another country invaded the hood tonight

It’d be warfare through Harlem and Washington Heights

I wouldn’t be fightin’ for Bush or White America’s dream

I’d be fightin’ for my people’s survival and self-esteem

I wouldn’t fight for racist churches from the South, my nigga

I’d be fightin’ to keep the occupation out, my nigga

 

Texti: Ásgeir H Ingólfsson