Fátt hefur verið íslenskum kvikmyndagerðarmönnum fjarlægara en pólitík, eitthvað sem hefur orðið nánast pínlegt í kjölfar hrunsins. Vissulega er hægt að telja til fáeinar undantekningar, eins og Boðbera og Rokland, tvær rækilega pólitískar myndir sem fóru flatt, og þriðjung Vonarstrætis, þann þriðjung sem dró töluvert niður annars góða bíómynd. Eins hafa íslenskar heimildamyndir margar nálgast samtímapólitíkina á frjóan og fjölbreyttan hátt.

Kannski eru áðurnefnd feilspor ástæðan – eða ermögulega illnauðsynleg tengsl þessar dýrustu listgreinar okkar við fjármálaöflin? Það gengur samt ekki alveg upp, jafnvel í Bandaríkjunum, þar sem stórfyrirtæki framleiða myndir sem kosta tugi milljarða án ríkisstyrkja, er meiri pólítík í einni Captain America mynd en í öllum leiknum íslenskum bíómyndum þessarar aldar. Þangað til núna.

Því tvær forvitnilegustu íslensku myndir ársins eiga það sameiginlegt að vera hápólitískar og skila því á gjörólíkan hátt. Í byrjun árs var það Andið eðlilega, þar sem gamli góði sósíal-realisminn var notaður til að segja afskaplega fallega og manneskjulega sögu um tvær konur – sem áttu það sameiginlegt að vera fórnarlömb aðstæðna sem þyrfti ekki mikinn pólitískan vilja til að breyta. Lára er landamæravörður á Keflavíkurflugvelli sem er á götunni og með dótið sitt í bílnum því, hvað sem fortíð hennar líður, er í svipaðri stöðu og alltof margir aðrir Íslendingar, að eiga hreinlega ekki efni á að búa í eigin landi. Svo kemur Adja inn í líf hennar, flóttamaður sem hvergi fær að búa.

Öllum sem hafa lesið fáeinar sögur flóttafólk er örugglega ljóst að slíkar sögur geta virkað vel sem bíómynd. En bíómynd um umhverfisvernd? Það er ekki einu sinni búið að gera góða framtíðarstórslysamynd um loftslagsbreytingar ennþá, sem er að vísu furðulegt.

Casablanca-syndrómið afbyggt

KonaFerÍstríð3.jpgEn Kona fer í stríð er einmitt sú mynd – og hún fer óvenjulega leið að því. Ástæðan fyrir því að bíómyndir um hugsjónafólk geta verið vandmeðfarnar er mögulega Casablanca-syndrómið – sem hefur þó verið til staðar ennþá lengur, þar sem hetjan þarf að vera smá Bogart, passlega kaldhæðinn og tregur í taumi. Hugsjónamaðurinn Victor Laszlo er vissulega, ótvírætt, góður gaur – en það nennir enginn að sjá heila mynd um Victor Laszlo. Meira að segja konan hans tollir með honum af skyldurækni öðru fremur.

En þótt Casablanca sé vissulega ein besta bíómynd í veröldinni þá var þetta mögulega röng ályktun, kannski er bara víst hægt að gera heila bíómynd um Victor Laszlo. Hún Halla í Kona fer í stríð er þessi týpa, hún er réttlætislúði, rétt eins og tvíburasystir hennar er nýaldarlúði – þær fara aðeins of langt með þessa hugðarefni sín og öll kaldhæðni og heimsósómauppgjöf er fjarri þeim.

Eða fer hún of langt? Erum það ekki frekar við sem notum kaldhæðnina og svartsýnina til þess að halda kúlinu – og um leið til þess að hafa það kósí aðeins lengur. Myndin hefði vissulega getað orðið vatn á myllu þeirra sem tala um góða fólkið (og sumum finnst hún vera það), hreinlega með því að vera óbærilega réttsýn og húmorslaus – en þótt persónurnar séu í sjálfu sér passlega húmorslausar þá hefur myndin húmor fyrir þeim, hlýlegan og góðlátlegan húmor. Þær tvíburasysturnar eru eldri hippafrænkur minnar kynslóðar; hlýjar, vel meinandi og stundum aðeins of fullar af réttlætiskennd … eða kannski bara aðeins of einlægar í einhverju sem okkar sjálfhverfa kynslóð gat ekki lifað sig inní, kannski af því við höfðum misst trúna á að þetta virkaði.

En aftur að Höllu. Fyrst sjáum við hana með bogann á lofti, nútíma Hrói höttur, að reyna að gelda stórfyrirtækin og færa náttúruna aftur til fólksins. Svo er líka nett ofurhetjuvísun, þar sem hún afklæðist hetjuklæðunum og verður kórstjóri í Reykjavík – og tvíeðlið verður enn sterkara þegar við kynnumst tvíburasysturinni Ásu. Ekki bara af því þær eru tvíburar, heldur af því hvernig líf þeirra eru tvær hliðar á sama pening. Við þurfum öll stundum að velja á milli þess að bæta sjálf okkur (eða okkar stöðu) eða bæta heiminn – og báðar systurnar hafa valið þar sitt hvorar öfgarnar, sem eru þó náskyldar, markmiðið er í grunninn það sama, þótt nálgunin sé það ekki.

Leikhúsið í íslensku bíói

Fyrri mynd Benedikts, Hross í oss, var vissulega frábær bíómynd með sterkum höfundareinkennum, en um leið sór hún sig sannarlega í ætt íslenskra landsbyggðarmynda um sérviskulega karaktera. Þessi er hins vegar miklu byltingarkenndari. Það sem gerir myndina byltingarkennda í íslenskri kvikmyndasögu er hvernig hún færir okkur leikhúsið inn í kvikmyndirnar. Lengi vel var leikhúsið aðallega dragbítur á íslenskum kvikmyndum, með ofurskýrum leikhúsframburði fyrstu íslensku myndanna , en frásagnarmeðul leikhússins hafa lengstum verið órafjarri.

KonaFerIStrið2Þá er ég ekki bara að tala um það augljósa, tónlistarmennina sem fylgja Höllu við hvert fótspor í að öðru leyti raunsærri frásögn. Ég er líka að tala um þegar hún hjólar frjálslega um miðbæ Reykjavíkur og það eru engir bílar fyrir, né túristar á gangstéttum. Mögulega til að sýna okkur hvað borgir heimsins gætu verið frábærar ef við bönnuðum bara bílaumferð – en svo er svipuð sena stuttu síðar, þar sem hún er nýbúin að ræða við ofsóknarhræddann samherja sinn og það er einn bíll á eftir henni. Sem í samhenginu verður grunsamlegur – og sýnir okkur hvað leikhúslógíkin getur virkað vel í bíó, þar sem formsins vegna einungis það mikilvægasta er á sviðinu, en ekki allt það sem væri þar í raunveruleikanum. Eins sækir hún nokkuð í smiðju leikglaðra og krítískra heimildamynda eins og Ern eftir aldri og Ge9n, þar sem ólíklegustu hlutir eins og ritvélasláttur verður hluti af hljóðmyndinni.

Eins er gaman að sjá Juan Camillo aftur í hlutverki ferðamannsins óheppna, sem hann lék líka í Hross í oss. Þetta er ákveðin sérviskuleg hefð sem hefur löngum skort í íslenskum skáldskap, aukapersónan sem dúkkar upp reglulega í annars lítt tengdu höfundarverki. Að því sögðu held ég að þessi karakter virki ekki aftur í næstu mynd, nema hann öðlist meiri fjölbreytni og dýpt – og hér kemur því uppástunga fyrir Benedikt: þessi aukapersóna þarf að verða aðalpersóna! Enda sárvantar meiri skáldskap um alla útlendingana á Íslandi, hvort sem það eru ferðamenn, flóttamenn, innflytjendur eða expatar.

Eins er Úkraínukaflinn afskaplega vel unnin og ekki sú eftirápæling sem maður óttaðist. Nema hann er of stuttur. Og það má segja um margt í myndinni. Fókusinn er alltaf á Höllunni hennar Halldóru Geirharðs, sem leikur vel að merkja systurina Ásu líka, já og var ég búinn að segja ykkur hvað Halldóra er stórkostleg í myndinni? Ég ætla heldur ekkert að gera það, sumt er svo augljóst að það er algjör óþarfi að taka það fram. En allavega, það hefði verið djöfull gaman að sjá innherjann hennar í ráðuneytinu svitna á fundum, sjá meira af plottfundum ríkisstjórnarinnar, fá meiri Úkraínu og heyra meira af þessum bónda sem Jóhann Sigurðsson leikur og er, þegar ég pæli í því, eiginlega Humphrey Bogart sögunnar á sinn afdalalega bangaslega hátt. Afdala-Bogart. Svo hefði mátt vera meira af Juan í fangelsinu – og svo framvegis og svo framvegis. Það sem ég vildi sagt hafa, eini gallinn við þessa mynd er að hún er ekki að minnsta kosti þrír tímar. Ekki endilega bara fyrir allar þessar hliðarsögur sem ég nefndi, heldur líka svo hún hafi meiri tíma til að flækja söguna og pæla í alls kyns hlutum sem hún veltir upp og sitja í manni, þótt myndin hafi ekki tíma til að vinna meira úr þeim. En það er auðvitað alltaf hægt að gera framhald.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson