Í brúðkaupi í Finnlandi nýlega spjallaði ég við fyrrum heimsmeistara í tangó. Hann fílaði Ísland af því við höfum aldrei ráðist á Finnland. Hann er vissulega orðinn miðaldra og með góðan skammt af aukakílóum – en það að sjá hann dansa er ennþá ekkert minna en stórkostlegt.

En finnska tangóið á sér merkilega sögu – og þróaðist á sinn sérstaka hátt, þannig að núna er finnskt tangó dálítið eins og íslenski hesturinn – allt annað en venjulegt tangó. Finnska tangótónlistin átti sitt blómaskeið um miðja síðustu öld en er þó enn feykivinsæl, á stærstu tangóhátíðina mæta til dæmis meira en hundrað þúsund manns.

TangógrímerkiOg um hvað fjalla öll þessi finnsku tangólög? Tja, þau eru öll á finnsku, þannig að ég þarf bara að treysta á Pekka Gronow, yfirmann grammafónsafnsins hjá finnska ríkisútvarpinu – eða hann var það að minnsta kosti um aldamótin, þegar hann fullyrti að „finnski tangóinn snérist um ástir, sorgir, náttúruna og sveitina,“ og bætir svo við að „Haustregnið og dimm kvöldin merki brostnar vonir.“

Hann Reijo Taipale var líkast til ein helsta tangóstjarna Finna, hann söng Satumaa, frægasta finnska tangólagið sem Frank Zappa gerði líka sína útgáfu af. En ég ætla frekar að deila með ykkur Liljakukka, enda er það bæði fallegra lag og svo er þetta myndband stórkostlegt. Ekki bara rokkabillíhárgreiðslan hjá Reijo, heldur ekki síður hvernig við fáum að sjá áhorfendurna alla, þessi veröld sem var, allt þetta fólk á dansgólfinu núna og orðið afar og ömmur ef það er þá ennþá á lífi.

En þetta var samt ekki föstudagslagið – heldur bara langur formáli að föstudagslaginu. Föstudagslagið uppgötvaði ég fyrir ári síðan í youtube-eftirpartíi í Malmö, þar sem ég heyrði þetta gullfallega lag, sem vissulega er örlítið sænskt en samt ansi finnskt, þetta er finnskur tangó í Svíþjóð – og einfaldlega eitt fallegasta lag í heiminum.

Bandið heitir Darya og tunglskinssynfónían, Darya och Månskensorkestern. Þau byrjuðu í tangótónlist en hafa þróast yfir í eitthvað flóknara, tangóinn er ennþá undirliggjandi en ekki alltumlykjandi – og textinn er um fátækt par … ég veit ekki mikið meira nemá það að þetta er áramótalag, bandið hefur það fyrir hefð að taka upp eitt lag á hverjum áramótum og þetta er eitt þeirra. Tuhlaajat.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson