Nú bíðum við öll í ofvæni eftir áratugsafmæli hrunsins mikla – en fimm dögum fyrir hrun þá birtist öskrandi spádómur um komandi tíma á blogginu krapp.blogspot.com – og hafði raunar verið tekið upp mánuði fyrr í því goðsagnakennda Akureyska listamannaathvarfi Populus Tremula. Ef þú komst aldrei á tónleika þangað þá er ástæða til að samhryggjast, enda lokatónleikarnir með epískari tónleikaupplifunum sem undirritaður man, þar sem tæplega sextugur karl styðst við staf og syngur Tom Waits fyrir hlé og Nick Cave eftir hlé. Með örlítilli viðkomu í Cornelis Vreesvijk.

En allavega, aftur að lagi dagsins. Þetta var á þeim fornu tímum þegar fólk downloadaði mp3 linkum af internetinu – og það er eina leiðin til þess að hlusta, nema auðvitað þú sért eigandi einu kasettunnar sem til er af verkinu. Smelltu hér til að finna skífuna.

Og umrætt verk er auðvitað pönk-þröngskívan Burt með borgarastéttina með samnefndri hljómsveit – og föstudagslagið er fyrsta lag plötunnar, sem heitir einmitt líka Burt með borgarastéttina. Sveitina skipuðu fjórir ungir Akureyringar, söngvarinn Hrafnkell (einnig þekktur sem Melli), gítarleikarinn Villi Stebba, bassaleikarinn Þorgils (einnig þekktur sem Nolem) og trumbuleikarinn Gunnar Jóhannesson.

Þetta er alvöru pönk – og þótt það heyrist ekki endilega alltaf orðaskil þegar söngvarinn Melli öskrar í mækinn þá skiljum við öll núna hvað hann meinti – og heyrum vel þegar hann segir: „allt sama helvítis hræsnarapakkið.“

Og fyrst þið eruð byrjuð að hlusta þá er um að gera að klára þessa örstuttu plötu (um átta mínútur) þar sem finna má fjögur lög til viðbótar (sjötta lagið er því miður löngu týnt), lög á borð við Tvatlskrift, Útgubbuð kaffi karólína, ballaðan angurværa Sannleikurinn um Ægi Dagsson og ádeilulagið There‘s a Long Road to Dagvarðareyri.

Nánar má svo lesa um verkið í meðfylgjandi bloggi og skoða myndir af hljómsveitarmeðlimum.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson