Flestir leikstjórar – og jafnvel flestir listamenn – eiga sér sínar þráhyggjur, áhugamál og stef sem ganga aftur og aftur í myndum þeirra, jafnvel þegar þær virðast við fyrstu sýn snúast um gjörólíka hluti. Bandaríski leikstjórinn Damien Chazelle hefur nú gert fjórar bíómyndir – og eftir fyrstu þrjár hefðu fæstir hikað við að svara því til að myndirnar hans snérust fyrst og fremst um tónlist, það sem helst virtist sameina Whiplash og La La Land, sem eru að öðru leyti ansi ólíkar myndir. Sú fyrri fjallar um tónlist sem þráhyggju og sú síðari frekar sem áhugamál, sú fyrri er yfirþyrmandi og sú seinni létt og leikandi. Frumraun Chazelle, Guy and Madeline on a Park Bench, hef ég ekki séð, frekar en flestir. En trompettinn á veggspjaldinu staðfestir að sú snýst um tónlist líka.

En það er afskaplega lítil tónlist í First Man, mun minni músík heldur en í flestum bíómyndum – enda heyrist hljóð ekki í iðrum geimsins. Þetta er mynd um Neil Armstrong, já, þennan eina sanna – manninn sem tók litla stóra skrefið, frægasta skref allra tíma. Við sjáum hann fyrst í lítilli orustuflugvél í Kóreustríðinu, sem er mögulega við það að hrapa. Það segir samt sitt um myndina að ég þurfti að gúgla þetta eftirá til að vera viss um hvaða stríð, þótt Kórea væri vissulega líklegust með tilliti til tímans, Chazelle má eiga það að hann matar hlutina ekki ofan í áhorfandann hér, en myndin á það til að vera óþarflega ruglingsleg fyrir vikið – án sjáanlegrar ástæðu.

En það sem myndin á sameiginlegt með Whiplash og La La Land er að allar snúast þær um hverju menn eru tilbúnir að fórna fyrir draumana. Í Whiplash kynnumst við kennara og nemanda sem báðir virðast tilbúnir að fórna geðheilsu og hamingju nemandans til þess að gera hann að tónlistarsnillingi, í La La Land hittum við fyrir elskendur sem eru reiðubúin að fórna ástinni fyrir frægð og frama og hér birtist okkur maður sem er tilbúinn að fórna eigin lífi og gera börn sín föðurlaus til þess að stíga á tunglið.

Ég skal viðurkenna að ég hafði  takmarkaðan áhuga á fjölskyldulífi Neil Armstrong fyrir fram og vildi frekar vita meira um þessa tunglferð sem við öll þekkjum, en myndin virðist lengi vel ákveðin í að vera fjölskyldudrama frekar en tungldrama.

Armstrong missir dóttur sína snemma í myndinni og það litar hana alla – lengst af filmar myndavélin atburðarásina í dökkleitum litum, þetta er sorgarheimili og það lagast ekki mikið þegar kollegar Armstrong týna lífinu við hættuleg æfingaflug. Þetta er sannfærandi sorg, alltumlykjandi og endalaus – en vandinn er að áhorfanda er hálfpartinn sama, maður fær aldrei að kynnast persónunum sem um ræðir nógu vel til að finna til raunverulegrar samkenndar, þess í stað bíður maður bara eftir að Neil og Buzz komist á tunglið – og merkilegt nokk þá birtir yfir myndinni þegar að við komumst í hin myrku mánafjöll.

FirstMan2.jpgArmstrong myndarinnar er leikinn af hjartaknúsaranum Ryan Gosling, en þetta er ekki hefðbundin hetja – Gosling skrúfar sjaldan frá sjarmanum og þess í stað veltir maður á köflum fyrir sér hvort geimfarinn frækni sé einhvers staðar á einhverfurófinu. Eins læðist sú hugsun að manni að titillinn vísi ekki bara til þess að hann hafi verið fyrstur á tunglið, heldur alveg eins að þetta sé hinn fyrsti karlmaður, þið vitið, andlega bæklaður karlmaður sem virðist líklegur til að eyðileggja eigin fjölskyldu með því að bæla allt niður.

En það lifnar raunar yfir myndinni aðeins áður en þeir fara út í geim, síðasta árið þegar draumurinn er við það að verða að veruleika byrjar strax að lifna yfir myndinni og augnablikið þegar þeir setja músík á úti í geim er göldrótt – en minnir mann um leið á helsta veikleika myndarinnar, þá staðreynd að ástríða Chazelle fyrir geimferðum er aldrei jafn áþreifanleg og ástríðan fyrir tónlistinni í fyrri myndum hans, hann deilir ekki þráhyggjunni jafn sterkt með aðalpersónu sinni í þetta skiptið og það kemur niður á myndinni. Eins verða senurnar í geimförunum endurtekningasamar – þetta eru örvæntingafullir menn í málmdósum sem hristast ört, meira veit maður ekki – og kannski er það pælingin, að þeir hafi verið að fálma í myrkrinu, að gera eitthvað sem enginn í heiminum raunverulega kunni.

Einstaka þjóðrembur hafa svo kvartað yfir því að ekki hafi verið sýnt frá því þegar Armstrong setur bandaríska fánann á tunglið – fáránleg umkvörtun sannarlega, og raunar mjög jákvætt að þeir hafi sleppt því – en hins vegar mætti frekar finna að því að myndin tæpir á ýmsu sem hefði mátt flétta þéttar og betur við söguna. Samtíminn og kalda stríðið geysa í bakgrunninum, sem og Víetnamstríðið, og geimferðakapphlaupið er hjákátlegt í augum sumra – en það er samt alveg rétt að hrósa Chazelle að fara erfiða og óvenjulega leið til að nálgast þessa frægu sögu, en því miður gengur hún ekki almennilega upp.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson