Hvað myndirðu gera við peningana sem myndu sparast ef við myndum leggja niður NASA? Tja, við gætum bætt heilbrigðiskerfið, tryggt öllum boðlegt húsnæði með salernisaðstöðu og engum rottum, það er ekki til peningur fyrir neinu og það sem fer í skatta fer ekki í heilbrigðiskerfið heldur það að senda hvítann mann til tunglsins.
Þetta eru skilaboðin í lagi Gil Scott-Heron, Whitey on the Moon. Heron er hárbeittur að vanda, enda maðurinn magnað ljóðskáld, samanber eftirfarandi erindi.
The man jus’ upped my rent las’ night.
(’cause Whitey’s on the moon)
No hot water, no toilets, no lights.
(but Whitey’s on the moon)
Ég verð samt að viðurkenna að þótt lagið sé snjallt og rökin um margt sterk þá efast ég um að tunglgangan sé rétt skotmark. Það var stríð í Víetnam á sama tíma – þar var sóunin á skattpeningum. Það að fara á tunglið er hollt fyrir mannkynið – eða kannski ennþá frekar, það að þrá að fara á tunglið. Við erum nefnilega held ég best heppnuð sem tegund þegar við leyfum okkur að dreyma og oft eru það ópraktískustu og draumkenndustu markmiðin (að skrifa bók, að búa til bíómynd, að gera plötu eða komast á tunglið) sem skila á endanum mestu.
Metnaður mannskepnunnar er henni nefnilega áskapaður – en hún á sér jákvæða hlið og neikvæða. Hún krystallast nefnilega annars vegar í því að ná árangri, ná lengra, gera eitthvað nýtt, gera eitthvað best. Sem er ekki endilega slæmt – en hin hliðin er hættulegri, græðgin, hefndarþorstinn og drottnunargirnin. En hversu miklu máli skiptir tunglið, því er vissulega erfiðara að svara. Rétt eins og það er erfitt að svara því hver tilgangurinn var á endanum.
Samt er þetta ágætis áminning um það að flest okkar helstu afrek eru afleiðing þrældóms, þess vegna viljum við trúa því að pýramídarnir hafi verið byggðir af geimverum – við viljum helst ekki hugsa um alla þjáninguna sem fylgdi byggingu þeirra.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson