A Star is Born er endurgerð á endurgerð á endurgerð á endurgerð og hérna eru allar klisjurnar í bókinni; Öskubuskuævintýrið þar sem ung stúlka hittir stjörnuna – og syngur auðvitað eins og engill. Svo breytist þetta í poppstjörnusögu með öllu þessu helsta, baráttunni við að halda í einlægnina og vitaskuld góðum skammti af alkóhólisma fallandi stjörnu.

En samt, þrátt fyrir allt þetta þá er þetta þrælfín bíómynd. Fyrir því eru kannski helst þrjár ástæður. Í fyrsta lagi eru leikararnir magnaðir, Lady Gaga er skrambi góð, Bradley Cooper er stórkostlegur og yfirvaraskeggið hans Sam Elliott á skilið sinn eigin flokk á Óskarsverðlaunahátíðinni, svona fyrst akademíuna langar svona mikið að búa til nýja flokka.

Önnur ástæða er hvernig myndin finnur sannleikann í þöglu augnablikunum og sú þriðja að til viðbótar við bullandi alkóhólismann er önnur aðalpersónan, Jackson, að verða heyrnalaus. Jackson Maine er sumsé súperstjarna þegar myndin byrjar og við hittum hann fyrst þegar hann er að spila á risastórum tónleikum, þetta er fagmannlega gert en þetta er iðnaðarrokk, við finnum að sálin er annars staðar – líklega í flöskunni á næsta bar.

En það vill svo til að næsti bar reynist óvænt vera dragbúlla þar sem Ally, altso Lady Gaga, fær náðarsamlegast að syngja með dragdrottningunum og hann heillast strax af þessari óuppgötvuðu söngdívu – og svo platar ein dragdrottningin hann til að syngja eitt lag fyrir sig á meðan hann bíður eftir Ally. Þá heyrum við loksins hvernig hann syngur í alvörunni, þegar það er búið að strípa allt kjaftæðið í burtu.

Þegar það hægist á heiminum heyrir hann svo loksins í sjálfum sér. Þetta er mynd um þöglu augnablikin – í heimi þar sem þau eru svo sannarlega af skornum skammti. Og þá er ég bara að tala í hversdagslífi okkrar margra – svo ekki sé talað um poppstjörnu á fleygiferð á milli tónleika með viskíflöskuna í annarri hendinni og áritandi brjóst á aðdáendum með hinni.

Sannleikurinn í klisjunni

Það eru einhver sterk tengsl á milli versnandi heyrnar Jacksons og alkóhólismans og óhamingjunnar sem hann ber með sér alla tíð. Hann er ennþá stórstjarna en ferillinn er á niðurleið þegar hann hittir Ally – og föðurlegar ráðleggingar hans til hennar um að vera trú sjálfri sér mætti mögulega þýða sem: „Ekki gera eins og ég.“

Hún er ekki drykkfelld eins og hann, en á ekki síður erfitt með að halda í einlægnina á meðan stimamjúkur breskur umboðsmaðurinn reynir að breyta henni í klisjukennda poppstjörnu með gervilegt hár og fær hana til að eyða meiri tíma í eróbikkstúdíóinu að æfa dansspor heldur en við það að semja lög.

Þetta er mynd um skemmtanaiðnaðinn sem smjattar á hæfileikafólki og spýtir því út, breytir því eftir eigin höfði og eigin ranghugmyndum um hvað fólk vill heyra – en það eitt og sér er ekki svo merkilegt, heldur frekar hvernig þau bregðast við. Hann með því að halla sér að bokkunni og týna sjálfum sér þar, hún með því að hætta að standa með sjálfri sér. Jackson er líka skemmtilega þversagnakenndur þegar kemur að stigvaxandi velgengni Ally, hluti af honum er bullandi öfundsjúkur og hluti af honum vill henni allt hið besta – en báðir þessir hlutar hans sameinast þó í því að vera skeptískir á breytinguna sem umboðsmaðurinn galdrar fram í henni, þannig er vel meinandi Jackson eitraður af öfundsjúka Jackson, út af þessu eina sem þeir eru sammála um.

A Star is Born2Það skal viðurkennast að allra bestu atriðin eru allra fyrst í myndinni, bæði þegar þau hittast á dragbúllunni og þegar þau hanga á gangstéttarbrún fyrir utan kjörbúð að skiptast á sögum. En myndin heldur samt áfram að vera göldrótt þegar þöglu augnablikin koma – þegar Ally hangir með pabba sínum (Andrew Dice Clay) og gömlu skröggunum félögum hans að segja ýktar frægðarsögur af því hvernig hann hafi verið betri en Sinatra, þegar Jackson hittir gamlan félaga í Dave Chapelle sem er kominn í örugga höfn í Memphis, sjómaður sem hætti að sigla.

Þannig verður myndin leitin af þessum galdraugnablikum í öllum hávaðanum, leitin að einlægninni og hinum tæra tón, einhverju til að segja sem skiptir máli. Leitin að ástinni sem þau týna reglulega og þurfa reglulega að finna upp á nýtt. Og jafnvel leitin að sannleikanum í klisjunni.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson