Þegar maður situr á flugvelli og bíður eftir flugi til Kúrdistan er auðvitað eina ráðið að sökkva sér ofan í kúrdíska tónlist. Og þegar maður er á leiðinni á kúrdíska kvikmyndahátíð þá skoðar maður auðvitað hvort ekki finnist einhver góð músík úr uppáhalds kúrdísku bíómyndinni manns.
En endar svo á lagi úr annarri mynd sama leikstjóra, Hálfmána. Myndin er eftir Bahman Ghobadi, sem ég átti gott spjall við á allt annarri kvikmyndahátíð á síðasta áratug – en það er hann Hossein Alizadeh sem flytur lagið, Harmakvein gleðinnar.
Þetta er lag um þjóð sem fær ekki að vera þjóð, sögu hennar og væntingar, allan snjóinn og ellina, árin þegar maður hverfur í hvítuna, er lagður í frosna jörð. Held ég – ég hef auðvitað ekki hugmynd um það, ég er ekki búinn að læra kúrdískuna ennþá, þetta kemur – ég verð þarna í viku. En þangað til verð ég bara að giska út frá Hálfmána-myndbrotinu sem fylgir.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson