Bíóklassík1983Í bíóklassíkinni fetum við okkur afturábak í gegnum kvikmyndasöguna, eitt ár í einu. Núna er komið að árinu 1983 – en það er þó ekki alveg nákvæmt ártal í tilfelli The King of Comedy. Hún var nefnilega frumsýnd í Bandaríkjununum í febrúar árið 1983, á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí sama ár – en hún var hins vegar heimsfrumsýnd í Breiðholtinu þann 18. desember árið 1982, sem jólamynd Bíóhallarinnar.

Myndin hefst á því að Jerry Lewis, í hlutverki nafna síns Jerry Langford, berst í gegnum þvögu æstra aðdáanda og snarbrjáluð kona lemur á bílrúðuna í farþegasætinu. En þá er ramminn frystur – og rómantísk tónlist tekur við á meðan við fáum að lesa nafnið á myndinni og aðstandendum hennar. En hendurnar eru þarna áfram – þessar hendur sem áður táknuðu ógn eru núna orðnar eitthvað fallegt.

Þessi upphafssena myndarinnar súmmerar myndina ágætlega upp. Jerry sést til dæmis ekki í bakgrunninum – af því fyrir framan hann situr núna Rubert Pupkin (Robert DeNiro), sem hefur smyglað sér inn í bílinn.

KingOfComedyUpphaf

Fljótlega komumst við að því að Rubert og Masha, brjálaða konan, eru félagar í stjáklinu – þau eru bæði jafn brjáluð. En Rubert er bara öllu yfirvegaðri í sinni brjálsemi, með skýrari markmið og það tekur fólk lengri tíma að átta sig á að veruleikaskynið er ekki alveg í lagi.

Pupkin dreymir sumsé um að verða uppistandsgrínari, rétt eins og Jerry. Og hann svífst einskis til þess að láta þann draum rætast. Hann dreymir dagdrauma um næstu skref, þar sem allt gengur upp – og það er engum brögðum beytt til þess að aðskilja dagdraumana raunveruleikanum, þannig vitum við aldrei alveg fyrir víst hvort við erum stödd í raunveruleikanum eða dagdraumum Pupkins, enda veit hann það sjálfsagt ekkert alltaf sjálfur.

Pupkin er einfaldlega hversdagshetja sem dreymir um betra líf – og myndin undirstrikar það á ýmsa vegu. Hann bíður loksins framhaldsskólaástinni á stefnumót og gamli skólastjórinn biður hann afsökunar á að hafa vanmetið hann í beinni útsendingu. Þannig fáum við innsýn í hversdagslega dagdrauma, sem eru sumir háleitir og aðrir lágkúrulegri, sem á sjálfsagt við um dagdrauma okkar flestra. Munurinn er bara að Pupkin er tilbúinn til þess að ganga lengra en við flest til að láta þá rætast.

Stjáklarinn Rubert er sjarmerandi performer – á meðan stjarnan Jerry er þurr á manninn. Þannig hafa þegar orðin ákveðin umskipti á hlutverkum þeirra í myndinni sjálfri (og Masha, rétt eins og Jerry, er leikin af þekktum grínara, henni Söndru Bernhard), það eru stjáklararnir sem eru stjörnurnar á meðan stjarnan sjálf reynir að hylja alla sína birtu.

Undir lok myndar sér Jerry svo loks uppistand hjá Rubert – og á svipnum að dæma áttar hann sig á að lögmálin hafa breyst, leiðin að frægðinni er önnur og ný kynslóð fetar nýja slóð. Hann er leikhússtjarnan sem áttar sig á að bíóstjörnurnar hafa tekið við, þögla stjarnan að horfa upp á fyrstu talstjörnurnar, sjónvarpsstjarnan að horfa upp á fyrstu youtube-stjörnuna. Stjarna hverfandi miðils og deyjandi kynslóðar að átta sig á að öll lögmál hafa breyst og öll þeirra heilræði eru úrelt.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson