Það er erfitt að hata mynd og elska um leið. En jú, það er tilfellið með Bohemian Rhapsody. Myndin er auðvitað lestarslys, tveir leikstjórar og stöku sinnum er eins og tóneyrað sé skaddað, sérstaklega í byrjun, þar sem lofandi senur fá ekki það andrými sem þær þurfa og bandvitlaus músík er spiluð undir upphafsatriðinu. Somebody to Love, lag sem passar alls ekki við stemmninguna. Í mynd um hljómsveit sem var brautryðjandi í tónlistarmyndböndum er það mikil synd. En þetta lagast – flest í myndinni lagast eftir því sem á líður, svona upp að einhverju marki.
Stærsta synd myndarinnar er þó hvað hún er djöfull gagnkynhneigð. Þetta er Freddie Mercury, gott fólk, bullandi hýr fír eins og við vitum öll núna. Þá er ég ekki að tala um að samkynhneigðin komi ekki við sögu, heldur frekar að, fyrir utan örstuttar senur með unnustanum Jim seint í myndinni, samkynhneigðin er langoftast sýnd sem tortímingarafl. Vissulega dó Freddie úr kynsjúkdómi og vissulega hefur það örugglega verið á köflum eyðileggjandi að lifa í lygi eða felum, sérstaklega þegar hinn samþykkti hluti lífs þíns er fyrir opnum tjöldum. En það er eitthvað falskt við balansinn í myndinni, hér er samkynhneigð synd þótt hana megi fyrirgefa ef þú finnur nógu settlegan kærasta.
En samt er þetta þrusugóð mynd líka. Bandið sjálft er skemmtilegt saman í sköpunarferlinu og líka þegar þeir eru að rökræða músík, eitthvað sem mætti vera miklu meira af. Fortíð Freddie sem innflytjanda og komplexarnir varðandi tennurnar er sömuleiðis forvitnilegt og myndin leyfir sér að vera glymskrattamynd, leyfir lögunum að lifa, ólíkt alltof mörgum tónlistarmyndum þar sem varla má klára heilt lag. Sem er viðeigandi í mynd um hljómsveit sem er frægust fyrir lag sem þótti alltof langt til að slá í gegn. Vissulega er þetta Greatest Hits mynd, maður hefði viljað fá aðeins fleiri obskúr Queen-lög, og eins hefði mátt fá fleiri sköpunarsögur eins og þá sem hér er sögð um Bohemian Rhapsody og We Will Rock You. Vafalaust stílfærðar sögur, enda hugmyndin væntanlega frekar að ná kjarna sköpunarinnar og tónlistarinnar.
Stærsta ástæðan fyrir því að elska þessa mynd er samt Rami Malek. Hann er einfaldlega frábær sem Freddie, nær performansinum og harminum, óörygginu og bullandi sjálfstraustinu. Einmana rokkstjörnu týndri í risastóra glæsihýsinu sínu. En myndin nær honum ekki, hún skynjar ekki hvaðan harmurinn kemur og endar á að svíkja listamanninn sem Malek heiðrar af svo mikilli list.
Myndin fjallar um harm þess sem villist af leið, ekki harm þess sem þarf að berjast fyrir því að vera hann sjálfur á tímum sem það var langt í frá sjálfsagt. Og það eru einhvers konar svik.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson