Þetta lag göluðum við okkur hása á fjalli nálægt Illugastöðum, einhvern tímann á síðustu öld. Spread Your Wings. Mögulega besta obskúr Queen-lagið. Unglingsstrákar sem föttuðu frumkraftinn í Queen.
En svo var það ekki fyrr en í fyrra, í skúringahelvíti á næturvöktum í Mývatnssveit, sem ég fattaði þetta lag almennilega. Þetta er nefnilega besta skúringalag í heimi.
Hann Sammi er sloppinn, að minnsta kosti tímabundið. Hann er staddur á hóteli, á leið út í heim, og í hausnum á honum eru tvær raddir. Yfirmaðurinn sem skipar honum að skúra, átelur hann fyrir það mikilmennskubrjálæði að eiga sér drauma. Þetta byrjar þar, þar sem hann er áhorfandi á lífi sem er ekki hans, ákveðinn í að flýja þótt bossinn afgreiði auðvitað allt svona draumóratal sem grillur. Þið þekkið týpuna.
Freddie hvetur hann áfram. En samt, hann er ennþá í þessu hótelherbergi. Kemst hann eitthvað lengra? Er kannski jafn vonlaus yfirmaður í næsta þorpi, næstu borg? Er einhver leið að fljúga nógu langt?
Sjálfir syngja þeir þetta lag í gaddfrosti einhvern tímann á áttunda áratugnum. Það er kalt þarna úti en maður er að minnsta kosti frjáls. Maður skelfur en maður er frjáls.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson