The Ballad of Buster Scruggs
Leikstjórn: Joel & Ethan Coen
Ferill flestra kvikmyndaleikstjóra er keimlíkur: þeir byrja á nokkrum stuttmyndum (eða tónlistarmyndböndum eða auglýsingum eða sjónvarpsmyndum) áður en þeir fá stóra sénsinn: mynd í fullri lengd. Og ef vel gengur eru það bara myndir í fullri lengd eftir það, mögulega stöku sjónvarpsþættir inná milli. En það eru fáir sem snúa aftur í ræturnar – það er helst að reyndir leikstjórar séu fengnir til að gera stuttmyndir fyrir svokallaðar omnibus myndir, þar sem margir leikstjórar gera stutta mynd um tengd efni. Ein slík mynd er Paris, je t‘aim, þar sem Coen-bræður áttu eitt af eftirminnilegri atriðum myndarinnar og sýndu að þeir kunna ekkert síður að gera stuttmyndir.
Það benti líka margt til þess að þeir þráðu að gera fleiri stuttmyndir, Hail, Ceasar! er í raun samansafn af skissum af stuttmyndum, inni í lengri mynd sem þeir virðast í raun minna spenntir fyrir. En nú loksins létu þeir verða af því og gerðu sex stuttmyndir í einu: The Ballad of Buster Scruggs. Lengra nafnmyndarinnar er þó mun meira lýsandi: The Ballad of Buster Scruggs and OtherTales of the American Frontier.
Það er kannski helst þrennt sem sameinar allar myndirnar sex: þær gerast allar í villta vestrinu, dauðinn er alltumlykjandi og þær hefjast allar og enda á því að hendi flettir bók – og ef þið eruð að horfa á Netflix getur alveg verið þess virði að frysta rammann stöku sinnum og lesa upphafið og endinn á sögunni.
Höfundareinkennin eru vissulega alltaf til staðar, en myndirnar eru samt sem áður gjörólíkar, bræðurnir virðast ákveðnir í að prófa mismunandi stíla og mismunandi minni úr vestranum, sem er eðlileg ákvörðun – ef þær væru of líkar hefði alveg eins mátt gera eina langa mynd. Coen-bræðurnir hafa líka sveiflast á milli þess að keyra súrealismann í botn og þess að tóna hann niður í öllu jarðbundnari myndum eins og No Country for Old Men, Inside Llewyn Davis og True Grit, fyrsta hreina vestrans þeirra, þar sem súrealísminn er krydd í öllu alvarlegri sögur.
Og það má eiginlega segja að sagnabálkurinn hefjist á tveimur sögum úr fyrri flokknum, tveimur skemmtilegum aulabröndurum um flónsku villta vestursins. Fyrst er það titilsagan, sem keyrir súrealismanní botn, en fatast aðeins flugið (bókstaflega) í lokin – og svo „Near Algodones,“sem snýst í raun um 2-3 skemmtilega brandara sem tvinnast ekkert sérstaklega vel saman.
Miðkaflinn er hins vegar magnaður og þar leynast tvær bestu sögurnar. Fyrst er það „Meal Ticket“ – sem fjallar um handalausan og fótalausan mann sem er flestum fremri í að fara með ljóðmæli. Já,og umboðsmanninn hans, svarttenntan Liam Neeson. Þeir ferðast um á fáktælegum hestvagni sem hægt er að breyta í örleikhús og slá upp sýningu fyrir bæjarbúa utandyra í sífellt meira strjálbýli. Þar flytur Harrison hinn útlimalausi okkurbtexta eftir Shelley og Shakespeare, Biblíutexta og Gettysborgarávarp Lincoln. Við þetta blandast óvænt samkeppni við kjúkling sem kann að reikna – sem minnir nokkuð á nútíma þar sem ljóðlistin þarf sífellt oftar að keppa við myndbönd af krúttlegum dýrum. En það sem situr þó enn frekar eftir er þessar undarlegu og undurfögru senur af litlu leikhúsi á hjara veraldar, þar sem maður nær aðhalda athygli með orðunum einum – því þau eru það eina sem hann á eftir.

Ég gæti bætt við undurfallegu landslaginu, sem er stórkostlega skotið – en ég ætla að geyma það fyrir næsta kafla, „All Gold Canyon.“ Þar erum við stödd í vestri sem er raunverulega villt. Við sjáum það hreinlega á hreindýrinu og íkornunum og uglunni sem þvælast áhyggjulaus um stórfenglegt skóglendið, hingað hefur maðurinn aldrei komið. Myndatökumaðurinn Bruno Delbonnell á vissulega ótal gullfalleg náttúruskot í öllum sögunum – en þessi sena er meistaraverkið hans.
En svo heyrum við raul – og þá er friðurinn úti, fyrsti gullgrafarinn er mættur á svæðið. En þótt það boði ógæfu fyrir dýrin þá boðar það aðeins gleði fyrir áhorfandann, því gullgrafarinn þessi er leikinn af sjálfum Tom Waits, í hlutverki sem er klæðskerasniðið fyrir hann. Hér er hann aleinn með náttúrunni, talar við sjálfan sig og raular til skiptis – eða öllu heldur, talar við Mr. Pocket, gulluppsrettuna sem hann grunar að sé þarna einhvers staðar. Gullgrafarasögur fjalla vissulega oftast um græðgina – en það á ekki við þessa nema að örlitlu leyti, ef þið viljið ádeilu á kapítalismann þá má hann frekar finna í sögunni á undan. Þessi saga fjallar miklu frekar um manninn, einan með sjálfum sér og náttúrunni. Nákvæmlega hvað hann er að sýsla á meðan hann talar við sjálfan sig og raular rámri röddu er aukaatriði.

Bálknum líkur svo með tveimur lengstu sögunum – og sú næstsíðasta, „The Gal Who Rattled,“ virðist uppáhald ansi margra, enda kannski næst því að vera hefðbundin bíómynd í uppbyggingu. Sjálfum þótti mér hún ójöfn – en hins vegar er rómansinn á milli tveggja aðalpersóna óvenju fallegur, þar sem þau eru afskaplega formleg en um leið afskaplega einlæg í ástleitni sinni. Þar koma hins vegar indjánar fyrir í annað skipti í sagnabálknum – og þær senur valda báðar vonbrigðum, frumbyggjarnir birtast í báðum þessum senum aðeins sem ógn við hvíta manninn, barbarar sem gera árás án nokkurar sýnilegrar ástæðu. Og bara sorrí, kæru Coen-bræður, það var ódýrt minni í upphafi 20 aldar og það er ennþá ódýrara núna.
Lokakaflinn fléttar svo öllum sögunum skemmtilega saman og minnir okkur á að Edgar Allan Poe var samtíða kúrekunum. Myndin gerist nær öll um borð í hestvagni þar sem fimm gjörólíkar manneskjur hafa safnast saman. Menn virtust ekki alveg hafa lært á kurteislega þögnina sem einkennir flestar almenningssamgöngur nútímans og úr verður drungalegt en heillandi karakterdrama, þar sem hrjúfur einbúi og veiðimaður, franskur séntilmaður, stíf og íhaldssöm heldri kona og tveir mannaveiðarar misbjóða hvoru öðru tilskiptis.
Þannig líkur þessu, í tunglskininu sem glampar á mannaveiðarana þar sem þeir segja sögur af manndrápum og syngja þess á millitregafulla söngva á meðan einsetubúinn ofbýður hefðarfrúnni og fransmaðurinn reynir að halda friðinn. Og eins og í öllum sögunum spyr maður sig: hverjir eiga eftir að lifa þetta af?
Texti: Ásgeir H Ingólfsson