Sting & Shaggy
Don’t Make Me Wait
Árið 1988 söng Sting um það að vera Englendingur í Stóra eplinu í I‘m an Englishman in New York. Fimm árum síðar tók Shinehead lagið upp á arma sína og söng um það að vera Jamaíkamaður í New York.
Og núna, aldarfjórðungi síðar, hefurtónlistar sagan farið einn af sínum skrítnu hringjum og núna er Sting Englendingur í Jamaíka. Hann hefur undanfarið unnið með jamaíska reggí-tónlistarmanninum Shaggy og þeir tóku upp meðfylgjandi lag í Jamaíka, þar sem Shaggy er „eins og sjálfur páfinn“ að sögn Sting.
Í myndbandinu fylgjumst við með þeim félögum ferðast um þessa galdraeyju reggísins, það eru æðislegar götusenur, hellingur af lífslgleði, bernsk leikgleði og leikandi kynhvöt sem nást þarna á mynd – þetta myndband gæti alveg verið notað í góða Inspired by Jamaica herferð, ég væri allavega örugglega búinn að kaupa mér flugmiða ef ég væri ekki of blankur.
Galdurinn í laginu er svo hversu vel þessir ólíku söngvarar ná saman, bæði tónlistarlega og persónulega. Það er vinalegur fílingur í þessu og kombóið er ekki jafn ólíklegt og halda mætti, það hafa stundum verið dágóð reggí-áhrif í músík Sting og Police í gegnum tíðina.
Og hey, ef þið eruð svo heppin að vera auralaus í Búdapest akkúrat núna – þá eru þeir félagar með ókeypis tónleika á Hetjutorginu á morgun, laugardag, klukkan sex – og munu vonandi sýna Viktor Orbán og félögum hvað bölvaður rasisminn þeirra er asnalegur.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson