Bíóklassík 1973

Don’t Look Now

Leikstjóri: Nicolas Roeg

Aðalhlutverk: Julie Christie & Donald Sutherland

Feneyjar eru í hættu: „Venice in peril.“ Þetta stendur á skilti í Feneyjum, skilti sem birtist fyrir miðri mynd í Don‘t Look Now, þekktustu mynd hins nýlátna Nicolas Roeg. Ég veit ekki meira, þótt ég frysti augnablikið næ ég ekki að lesa smáa letrið. En það kallast á við myndina, fortíðina sem hún birtir okkur sem og nútímann. Mögulega á þetta einfaldlega við um plottið, þar sem morðhrina virðist standa yfir í Feneyjum. En kannski er þetta varnaðarorð um skeytingarleysið í þessari fornu borg, sem virðist vera að grotna niður, á þessum árum þegar gamlar Evrópskar borgir í klassískum stíl voru engan veginn í tísku. Núna er hættan allt önnur, það er sjálfsagt búið að mála og laga flest húsin sem maður sér í myndinni – núna hefur bara engin venjuleg manneskja efni á að búa í þeim.

Ég mun minnast aðeins á söguþráðinn rétt bráðum – en fyrst er rétt að taka fram að hann er hálfgert aukaatriði, myndin er fyrst og fremst ástaróður til Feneyja, þessarar borgar sem jafnvel í niðurníslu er ægifögur. Nicolas Roeg vann lengi sem kvikmyndatökumaður áður en hann fór að leikstýra sjálfur – og það er enda kvikmyndatakan sem er ástæðan fyrir því að myndin er jafn mögnuð og raun ber vitni, þegar við sjáum Donald Sutherland örvæntingarfullan hlaupa um borgina þá hugsar maður ekki svo mikið um hlutskipti hans, heldur miklu frekar: þvílík fegurð, þvílík borg!

Myndir Roeg fjalla raunar margar um glögg gestsaugu, glögg augu sem um leið eru barnaleg í flónsku sinni. Aðalpersónurnar eru breskt par í Feneyjum, rétt eins og David Bowie er geimvera á jörðu í The Men Who Fell to Earth og í Bad Timing er Art Garfunkel Ameríkani í Vínarborg. Sem minnir raunar á myndina sem ég ímynda mér að hafi mögulega verið einn helsti áhrifavaldur þessarar, Þriðja mannsins (The Third Man).

Báðar eru sálfræðiþrillerar hvers stærsta tromp er leiksviðið, ein af þessum fornu meginlandsborgum með mannkynssöguna við hvert fótmál, og ekki síður dularfullar og löngu gleymdar sögur og tungumál sem aðalpersónurnar skilja mismikið í. Þetta eru expata-myndir í jákvæðri merkingu orðsins, útlendingar að semja falleg ástarbréf á filmu til borga sem snerta við þeim. Þegar ein persónan minnist á það að Newton hafi elskað borgina þá finnst manni nánast eins og leikstjórinn hafi verið að trúa okkur fyrir einhverju: Hann og Newton eru sálufélagar í Feneyjaást sinni.

Það sem Þriðji maðurinn hefur hins vegar fram yfir Don‘t Look Now er gott plott. Veikleiki Don‘t Look Now er fyrst og fremst hryllingurinn, hann er sjaldan sannfærandi. Gömlu konurnar tvær, önnur mögulega blind og skyggn (segja þær, ég myndi treysta þeirri frásögn mátulega) eru á köflum sannarlega óhuggnanlegar og andstyggilegar – en á öðrum stundum nánast kómískar, sem dregur úr háskanum. Og þótt Donald Sutherland og Julie Christie séu góð þá bregst þeim aðeins bogalistin þegar örvæntingin er mest, þannig að stærstu mómentin verða of stór, ofleikin. Á móti kemur að mörg litlu augnablikin eru miklu betur heppnuð, þar finnur maður að eitthvað uggvænlegt býr undir.

Sutherland og Christie leika sumsé hjón sem missa dóttur sína í blábyrjun myndarinnar og fara svo til Feneyja út af atvinnu eiginmannsins, en þessi fallega borg er þeim vitaskuld aðallega staður til að syrgja. Það hvernig þau, eða a.m.k. hann, sjá dótturina flöktandi í hverju horni segir líka ýmislegt um missinn, þar sem þú leitar að dótturinni týndu í hverju andliti. [Höskuldarviðvörun]Og ef Roeg hefði bara sleppt ódýru hryllingsmyndastöntinu í lokin þá hefði þessi hluti myndarinnar verið fullkominn. Djöfullinn í vélinni er nefnilega alveg jafn ódýrt trikk og Guð í vélinni. [Höskuldarviðvörunlíkur]

Sutherland er góður með þessa skemmtilegu Kurt Vonnegut klippingu, en maður saknar samt Julie Christie óneitanlega þegar hún bregður sér af bæ, enda er hún stórkostleg að venju, náttúrutalent sem lýsir upp flestar senur. Og eftir ofsafengin viðbrögð við meintri skyggnigáfu blindu konunnar (það er þó a.m.k. eitt skot sem bendir sterklega til þess að hún sé alls ekki blind) þá er ofsakæti hennar í kjölfarið miklu forvitnilegri sorgarviðbrögð.

En hvað sem Feneyjum og öllum hryllingi líður þá vitum við öll af hverju myndin er fræg, fyrir eitt frægasta kynlífsatriði kvikmyndasögunnar. Og stendur það undir væntingum? Já og nei. Ef þú býst við einhverju sérlega sjokkerandi verðurðu fyrir vonbrigðum – það er hellingur af miklu grófari senum í kvikmyndasögunni. Hins vegar eru ekki mörg kynlífsatriði jafn falleg. Það má meira að segja þakka það ritskoðuninni, Roeg ku hafa klippt yfir í atriði með Christie og Sutherland að klæða sig, greiða sér og hafa sig til á milli bólfimiæfinga, þannig að þær yrðu ekki of langar og of áberandi, til þess að það yrði líklegra að kvikmyndaeftirlit heimsins slepptu myndinni í gegn. En einmitt þessar klippingar gera senuna undurfagra, það hvernig fötin verða hluti af nektinni og lostanum, hvernig öll þeirra tilvera, fyrir og eftir, tengist þessu augnabliki.

Og stórleikur Feneyja sem og þetta magn aðaatriði, já, sem og atriðið magnaða í kirkjunni sem ýtir örugglega undir lofthræðsluna í flestum, gera það að verkum að þetta er um margt mögnuð bíómynd, þótt þetta sé slöpp hryllingsmynd.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson