Við erum stödd á steppum Mongólíu, þar situr einamna lögreglumaður og bíður eftir aðstoð en leiðist á endanum biðin, setur Elvis á fóninn og dansar á steppunum, einn með snjallsímann. Hann er bara átján ára og hann þarf að bíða þarna eftir aðstoð, því þarna liggur nakið lík undir laki.

Í heilan sólarghring bíður lögreglumaðurinn ungi þarna – og seinna hirðingjakona nokkur líka. Við sjáum víðáttur Mongólíu í víðmynd, þetta er eins og að horfa lengi á stórt málverk og sjá þegar allar litlu manneskjurnar á því hreyfast, finna sér eitthvað að gera – og það er meira að segja óvænt vísun í íslenska kvikmyndasögu. Þið munið kannski eftir kynlífssenunni í Land og synir, þar sem elskendurnir – aleinir úti í miðri sveit – bregða sér bak við heysátu til þess að hlífa blygðunarkennd áhorfenda? Hér er sama trikk notað, nema í stað heysátu er kominn úlfaldi, uppfullur af stóískri ró.

Á endanum er þó ýmislegt sýnt, en samt ekki – því það er svo andskoti kalt þarna að fólk er ekkert að fara úr fötunum þótt það sé að gamna sér, sem kallar á nýstárlegar og hugvitsamlegar aðferðir til þess að sýna samlíf elskendanna.

Þessi mongólska mynd heitir Öndög, en öndög er mongólska fyrir risaeðluegg. Við fáum að heyra hvernig ameríkumenn fundu fyrstu risaeðlueggin í Mongólíu, hvernig eitt sinn hafi risaeðlur drottnað yfir jörðinni, og í raun væru mongólarnir afkomendur þeirra, síðustu risaeðlurnar – og ef þeir myndu fjölga sér myndu risaeðlurnar ekki deyja út strax. Þetta er hæg mynd en gullfalleg, launfyndin sömuleiðis, og það er einhver merkilegur skyldleiki við íslenskt bíó. Það er smá Grímur Hákonar þarna, smá Dagur Kári, smá Friðrik Þór. Sem er ágætis sárabót, því það er engin íslensk mynd á kvikmyndahátíðinni í Berlín þetta árið.

Seinna er ég svo mættur í bíó á What She Said: The Art of Pauline Kael, um einn frægasta kvikmyndagagnrýnanda tuttugustu aldarinnar. Það er þýsk stelpa við hliðina á mér, líka ein í bíó, sem hlær á sömu stöðum og ég, ég velti fyrir mér hvort hún sé næsta Pauline. Við erum óþarflega framarlega, samt öftustu sætin sem voru í boði, þannig að maður þarf að halla sér rækilega aftur í sætinu til að sjá allan skjáinn.

Venjulega myndi ég ekki segja ykkur öll þessi smáatriði, en eitt af prinsippum Pauline Kael var að láta bíóupplifunina sjálfa fylgja, það að vera umkringd fólki, þeirra viðbrögðum, hlátri, gráti, klappi eða púi. Þessi mynd er ágætis innblástur fyrir langþreytta kvikmyndagagnrýnendur, minnir á að gagnrýnendur geta skipt máli – eða gátu það allavega, kannski á þessi setning að vera í þátíð?

Þátíð um þá tíma þegar gagnrýnendur skiptu máli en voru ekki bara ein prósenta til eða frá á Rotten Tomatoes. Til marks um áhrif Kael þá er Bonnie & Clyde nefnd sem dæmi, mynd sem segja má að marki upphaf bandarísku nýbylgjunnar – sem hefði kannski aldrei náð flugi ef Kael hefði ekki hrósað henni svo mjög, þvert á aðra dóma sem birtust fyrst eftir frumsýningu. Hún átti stóran þátt í því að koma mönnum eins og Scorsese og Spielberg á kortið, Spielberg segir raunar að þúsund dómum síðar sé hún sú eina sem skyldi Ókindina sjálfa, Jaws. Hún hafði þó mögulega of mikil áhrif á hátíndi ferilsins. Þá var talað um hóp ungra gagnrýnenda í kringum hana sem Paulettes, og Paul Schrader játaði að Kael hefði sent þeim skilaboð ef hún var uppnumin af einhverri mynd, ekki bara með meðmælum, heldur með þeim skilaboðum að þessa mynd þurfi að bakka upp, koma henni á framfæri. Sem hljómar dálítið eins og ólöglegt gagnrýnendasamráð.

Þversögnin var hins vegar sú að Pauline Kael naut þess sérstaklega að synda á móti straumnum, beið jafnvel stundum eftir að hinir gagnrýnendurnir birtu sína dóma áður en hún kom með mótsvar – hennar gagnrýni var ekki skrifuð í tómarúmi, hún var ávallt í samtali við bæði aðra gagnrýnendur og aðra áhorfendur. Og þótt hún hafi verið óvægin og ráðist harkalega á frægar myndir eins og 2001: A Space Odyssey, þá gekk hún á móti ansi langt í að bakka upp myndir sem hún elskaði, hún vildi tryggja að þessir leikstjórar myndu fá fleiri og betri tækifæri í framtíðinni og fólk myndi sjá myndirnar þeirra.

Og ég ætla einfaldlega að taka hana á orðinu þar og eyða restinni af pistlinum í að segja ykkur frá mikilvægustu mynd sem gerð hefur verið um blaðamennsku síðan Network fyrir 40 árum síðan, eftir einn vanmetnasta leikstjóra samtímans. Leikstýran sem um ræðir er sjötug pólsk kona, hún Agnieszka Holland, og þrátt fyrir að hún sé ágætlega þekkt og virt þá er eins og myndirnar hennar fái sjaldnast þá athygli sem þær eiga skilið – og ég held það sé kannski helst af því hún er ekki í tísku.

Hún er nefnilega um sumt pínulítið gamaldags leikstjóri, þetta er um flest hefðbundin kvikmyndagerð. En hún gerir þetta einfaldlega jafnvel og margir gömlu meistararnir, finnur alvöru handrit og treystir á söguna, sem hún segir af öryggi og án allra stæla. Hún kann alveg að vera tilraunakennd og var það það í næstu mynd á undan þessari, myndinni Pokot – en oftast er prinsippið einfaldlega þetta: við erum með skothelda sögu, treystum henni.

Harmur aldanna

Nýjasta mynd Agnieszku heitir Mr. Jones – en áður en ég ræði hana langar mig að rifja upp þegar ég var staddur í Úkraínu í byrjun aldarinnar, á almenningstorgi í Lviv, og sá þar sem hópur gamalmenna stóð í hnapp og söng. Þetta var háaldrað fólk, virðulegt og veðrað. Það var heil mannkynssaga í þessum hrukkum, og þau sungu, öll sem eitt. Lagið var fallegt en þótt ég skyldi ekki orðin var einhver ósegjanlegur harmur sem lá undir, harmur aldanna, harmur sem engin getur skilið nema að hafa farið í gegnum helst bæði skelfilegustu hungursneyð Evrópu og skelfilegasta stríð álfunnar.

Svo sit ég í bíósal og horfi á sársvöng börn syngja söngva um hungursneyð og lífsháska, í hungursneyðinni miðri, og velti fyrir mér hvort þetta sé nokkuð gamla fólkið sem ég sá þarna á torginu. Núna erum við sumsé komin aftur í bíó, á Mr. Jones, sem fjallar um velskan blaðamann, Gareth Jones, sem fyrstur manna sagði umheiminum árið 1933 frá hungursneyðinni miklu í Úkraínu. Hún hafði verið rækilega þögguð niður og þar voru vestrænir fjölmiðlar samsekir.

Gareth Jones átti sín tengsl við Úkraínu, móðir hans hafði verið kennari á heimili stálverksmiðjueigandans John Hughes, sem var velskur en hafði stofnað úkraínsku iðnaðarborgina Hughesova í lok nítjándu aldar, borg sem varð seinna Stalino og er í dag stærsta borg Austur-Úkraínu, þótt nafnið sé núna Donetsk.

Þrammar í gegnum hungursneyð

Jones lærði rússnesku og þýsku, var fyrstur breskra blaðamanna til þess að taka viðtal við Hitler, þegar honum tókst að smygla sér um borð í flugvél þeirra Göbbels – og þótt hann hafi verið sjálfur um borð velti hann strax þá fyrir sér hvort það hefði ekki verið best fyrir gang veraldarsögunnar ef flugvélin hefði hrapað með manni og mús. Seinna fór hann svo til Moskvu til að ná viðtali við Stalín til að spyrja hann hvaðan allir peningarnir kæmu, en mikil uppgangur var í fjárfestingum Sovétmanna á þessum árum.

Það viðtal var aldrei tekið – en hins vegar lendir Jones í hedónísku partíi strax eftir komuna með öðrum erlendum blaðamönnum. Hann áttar sig fljótlega á því að menn verða ekki langlífir í þessu starfi ef þeir rugga bátum, en hins vegar er lífið eintómt kampavín og kavíar fyrir þá blaðamenn sem láta að stjórn. En auðvitað er hvíslað – og Jones skilur fljótlega að þar liggur sagan sem hann þarf að segja.

Þannig að hann fær leyfi til þess að fara til Úkraínu í fylgd undir því yfirskyni að sjá nýjustu verksmiðjur Sovétríkjanna. En á miðri leið tekst honum að sleppa og endar svo á að þramma í gegnum hungursneyðina miðja, þar sem barist er um brauðskorpur og börnin syngja um hungursneyð og mögulega er mannakjöt á boðstólnum þar sem ástandið er verst. Þarna dóu milljónir manns, tölurnar eru á reiki, en Jones var fyrstur til þess að segja fólki á vesturlöndum frá.Auðvitað var mótmælt frá Moskvu – og þar fór fremstur í flokki Walter Duarty, sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir blaðamennsku sem reyndist svo vera að mestu skáldskapur. Líklega varð það til þess að saga Jones týndist, ástæða þess að lengi hefur úkraínska hungursneyðin aldrei hlotið það umtal sem hún á skilið.

Ferð Jones hafði þó víðtæk áhrif. Sagan segir að hann hafi hitt George Orwell ungan og seinna hafi frásögn Jones verið kveikjan að Animal Farm. Seinna átti Orwell eftir að hjálpa til við úkraínska þýðingu af bókinni, sem var smyglað yfir landamærin og varð skyldueign á öllum úkraínskum andspyrnuheimilum. Engir skyldu nefnilega Animal Farm betur en úkraínumenn, þeir vissu að þetta var bók um það sem þeir höfðu gengið í gegnum, og Orwell sendi þeim meira að segja bréf, sem í dag er eini formálinn eftir Orwell sjálfan á undan Animal Farm, í seinni tíma úkraínskum útgáfum.

En í þessum blaðamannaátökum Duarty og Jones liggur saga fyrir okkar tíma, tíma falskra frétta og viðsjárverðra breytinga í umhverfi blaðamanna. Það eru víða freistingar eins og þær sem Duarty fékk ekki staðist, það eru ótal blaðamenn sem þurfa að velta því fyrir sér á hverjum degi hvort þeir þurfi að gefa afslátt af prinsippum sínum. Peter Saarsgard, sem leikur Duarty, sagði mér frá því að þetta gerðist í litlum skrefum. Eitt skref í einu, örlítið meiri afsláttur með hverjum degi – og skyndilega ertu farinn að ljúga og hilma yfir með þjóðarmorðum. Hann bætti við að auðvitað væru hellingur af arftökum Duarty í dag – en hann vildi ekki gera þeim þann greiða að nefna þá, hann vildi frekar hvetja okkur til þess að halda nöfnum Jones-a heimsins á lofti, hefja alvöru blaðamenn til vegs og virðingar þannig að orð þeirra fái þá vigt sem þau eigi skilið. Því annars týnumst við bara í myrkrinu, myrkrinu þar sem sannleikurinn er falinn undir þúsundum dálksentimetrum af lygi.

Pistillinn birtist upphaflega þann 11. febrúar í Lestinni á RÚV.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson