Óskarsverðlaunin hafa verið stærstu kvikmyndaverðlaun heims í nærri heila öld og á 91 ári hefur 448 tilnefningum verið útdeilt til leikstjóra heimsins. Af þeim hafa karlar hlotið alls 443 tilnefningar og konur fimm. Sú fimmta kom í fyrra, í ár eru fimm karlar tilnefndir eins og venjulega, jafn margir og konurnar hafa verið frá upphafi.

Ástæðurnar fyrir þessu eru vissulega kerfislægar að hluta, konur eiga erfiðara með að fá tækifæri og raunar segja margar leikstýrur að mynd númer tvö sé erfiðasti hjallinn fyrir konur í Hollywood. Ef karlkyns leikstjóri gerir eina ódýra, óháða mynd sem fær góða dóma er hann oft von bráðar farinn að fá tækifæri til að leikstýra stórmyndum – kona sem nær sama árangri er áfram föst í harkinu, velgengni litlu óháðu myndarinnar hennar reynist ekki sami aðgangsmiði að karlaklúbbnum Hollywood og hann var fyrir karlkyns leikstjórann.

En það þýðir ekki að engir kvenleikstjórar gætu komið til greina fyrir óskarinn. Þvert á móti er hellingur af þeim. Þannig að prófum að teikna upp nýja heimsmynd, heim þar sem eingöngu konur eru tilnefndar fyrir bestu leikstjórn og skoðum hvort það er nokkuð verri veröld.

Þetta eru mjög fjölbreyttar myndir, en eiga það þó allar sameiginlegt að fjalla um fólk sem passar illa inn í eigið samfélag, þótt ástæður þess og birtingarmyndir séu afskaplega misjafnar. Eitthvað sem leikstýrurnar tengja mögulega óvenju vel við sem kvenleikstjórar í karlaheimi. Myndirnar fjalla hins vegar til jafns um konur og karla og það er erfitt að sjá að viðfangsefnin séu eitthvað sérstaklega kvenlæg, sem segir manni kannski aðallega það að fyrirfram gefnar hugmyndir samfélagsins um hið kvenlæga og þátt þess í listsköpun sé klisjukenndur tilbúningur.

Leave No Trace eftir Debru Granik:

Nútíma útlagar

Við byrjum þessa yfirferð í skóglendi Portland í Oregon. Þar býr Will (Ben Foster) í tjaldi, lifir af náttúrunni og er á sífelldu varðbergi gagnvart yfirvöldum, því ekkert þráir hann heitar en að fá að búa áfram úti í skógi, í friði fyrir hinum veraldlega heimi. Það sem gerir Will þó ólíkan flestum útilegumönnum er að táningsdóttir hans, Tom (Thomasin McKenzie), er með honum í útlegðinni og virðist lítið þekkja til hvorki hins veraldlega heims né móður sinnar sem sögð er látin.

Við vitum ekki mikið um Will, bara það að hann er fyrrum hermaður úr Íraks-stríðinu sem greindur var með áfallastreituröskun – og sú greining kemur sér vel, því vegna hennar fær hann uppáskrifuð lyf, sem hann selur svo á götunni til að eiga fyrir helstu nauðsynjum. Hann virðist hins vegar meta það sem svo að það sé skilvirkari meðferð að ganga úr lögum við samfélagið frekar en að bryðja lyfin sem það vill dæla í hann.

En auðvitað endist þetta ekki. Þau finnast og félagsráðgjafar og barnaverndaryfirvöld blanda sér í málið. Og ég skal alveg viðurkenna að eftir að hafa séð stiklu myndarinnar hafði ég óþægilega á tilfinningunni að í kjölfarið myndi fylgja hefðbundin barátta við skilningslaust kerfi og ferkantaða félagsráðgjafa.

En það er ekki raunin. Félagsráðgjafarnir og aðrir sem vilja hjálpa þeim eru upp til hópa hið vænsta fólk sem er annt um náungann og sinnir störfum sínum af heilindum. Þannig býður myndin aldrei upp á ódýrt drama, en nær samt að halda sífelldri spennu í samspili hinnar villtu náttúru og mannabyggða.

Við áttum okkur fljótlega á því að Will þrífst einfaldlega illa innan um fólk, þótt við fáum aðeins óræðar vísbendingar um ástæður þess. Tom er hins vegar opnari, hún elskar náttúruna en hún hefur líka áhuga á þessum nýuppgötvuðu mannheimum. Hún er flækt í eilífan flótta sem er ekki hennar eigin flótti, en á sama tíma er lífið án föðurins nánast óhugsandi.

Þetta er mynd sem spyr spurninga en svarar þeim ekki, maður situr uppi með ótal óræðar pælingar um náttúru og mannheima þar sem engin auðveld svör eru til staðar. Sem er jú eitthvað sem við könnumst flest við, mörg elskum við óspillta náttúruna en eigum erfitt með að ímynda okkur að búa þar til lengdar, fjarri fjölbreyttu mennsku borga og bæja sem við erum vön, með öllum sínum kostum og göllum.

Debra Granik leikstýrði fyrir átta árum sinni annarri mynd, Winter‘s Bone, sem var ein af þeim tíu myndum sem fékk tilnefningu sem besta mynd á óskarshátíð þess árs, auk þess sem hún var sjálf tilnefnd fyrir besta aðlagaða handrit (ásamt samstarfskonu sinni, Anne Rosselini) og myndin fékk auk þess tilnefningu fyrir besta aukaleikara og bestu aðalleikkonu. Þrátt fyrir þessa velgengni tók það Granik átta ár að gera næstu mynd, eitthvað sem virðist mjög algengt vandamál fyrir kvenleikstjóra í Hollywood. Hún uppgötvaði hins vegar sjálfa Jennifer Lawrence, sem fékk tilnefningu sem besta leikkona, og satt best að segja virðist mér hin unga Thomasin McKenzie vera enn betri leikkona, næm og lágstemmd, ber söguna á herðum sér og gerir það af leikandi öryggi.

Can You Ever Forgive Me? eftir Marielle Heller:

Falsarinn og drottningin

Þið kannist örugglega flest við Melissu McCarthy, gamanleikkonuna sem vakti fyrst verulega athygli sem kokkurinn í Gilmore Girls en er núna orðin ein frægasta gamanleikkona heims eftir myndir á borð við Bridesmaids. Leikur McCarthy hefur sjaldan verið sérstaklega lágstemmdur, en það er hins vegar einmitt tilfellið hér, þar sem hún leikur ævisagnaritarann Lee Israel, sem lendir í fjárhagskröggum eftir að henni er sagt upp vinnunni og getur ekki fengið fyrirframgreiðslu hjá umboðsmanninum.

Myndin er öll í gráum tónum, hér ganga flestir í notuðum jakkafötum og hún birtir okkur New York þar sem virðist vera endalaust haust, á þessum hinstu dögum ritvélarinnar í upphafi tíunda áratugarins, rétt áður en tölvurnar urðu alls ráðandi. Tímabilið birtist manni sérlega vel í einhverri dramatískustu faxtækjasenu kvikmyndasögunnar.

Persónurnar eru hins vegar litríkar þrátt fyrir gráleitan fatasmekk. Þar skipta tvær langmestu máli, Israel sjálf og drykkjufélagi hennar, Jack Hock, sem breski leikarinn Richard E. Grant leikur af einskærri snilld. Þessir ólíku vinir eiga eftirfarandi sameiginlegt; bæði eru drykkfelld og orðheppin, samkynhneigð rétt áður en það varð samfélagslega viðurkennt og finna sér illa stað í heiminum. Jack getur sjarmerað alla upp úr skónum en hefur ekki enn þá fundið út hvað hann vill gera með allan þennan sjarma, sem gæti verið að fölna aðeins með fjölgun gráu háranna. Hann er miðbæjarrottan holdi klædd, samanber bestu setningu myndarinnar: „Kannski dó hún ekki, kannski flutti hún bara aftur í Grafarvoginn.“

Lee skortir hins vegar silfurtungu Jacks, hún er hvöss í öllum samskiptum, of hvöss til þess að tolla í vinnu. Hún er kannski afburða rithöfundur, en afburða höfundur sem ekki er markaður fyrir.

Fyrir tilviljun uppgötvar hún hins vegar aðra markaðsvænni hæfileika; sem ævisagnaritari er hún flink að setja sig inn í hugarheim löngu látinna rithöfunda og annars frægs fólks, það góð að hún getur skrifað óvenju sannfærandi sendibréf í þeirra nafni, með falsaðri undirskrift. Í kjölfarið hefst, með hjálp Jack, ábatasamur ferill sem kemur henni úr skuldafeninu, þótt óvíst sé hvort þetta geti endað vel.

Þetta virðist hins vegar nánast eins og spásögn um framtíðina, kona sem getur skrifað djúpspekilega ævisögu getur ekki lifað á því, en ef hún notar sömu hæfileika til að skrifa stutt sendibréf með ímynduðu stjörnuryki þá fyrst fer hún að græða. Ekki ósvipað áhrifavöldum á samskiptamiðlum nútímans.

Bæði fengu aðalleikararnir óskarstilnefningu en leikstýran Marielle Heller hins vegar ekki. Ferill hennar virðist þó vera ansi skjótur af kvenleikstýru að vera, hún þreytti frumraun sína fyrir þremur árum með The Diary of a Teenage Girl, þar sem Sara Gunnarsdóttir sá um teiknimyndaatriði myndarinnar, og er um þessar mundir að leikstýra Tom Hanks í mynd sem ófáir eru strax byrjaðir að spá velgengni á óskarsverðlaununum eftir ár.

You Were Never Really Here eftir Lynne Ramsey:

Sálumessa leigumorðingja

Tveir menn liggja á gólfinu, haldast í hendur og hlusta á fallegt dægurlag, „I‘ve Never Been to Me“. Þetta gæti verið fallegt atriði, mögulega þó örlítið væmið, ef þetta væru elskendur eða vinir eða feðgar. En þetta eru tveir leigumorðingjar sem voru að enda við að reyna að drepa hvor annan. Þetta atriði lýsir nýjustu mynd Lynne Ramsey ótrúlega vel, hún nær að finna ótrúlega einlæg og falleg atriði mitt í ljótleikanum sem myndin fjallar um.

Joaquin Phoenix leikur hér launmorðingjann Joe, sem bjargar stúlkubarni úr kynlífsánauð – en fær það í bakið þegar sá valdamikli kynlífshringur sem hann abbaðist upp á reynir allt til þess að eyðileggja líf hans. Joe er leigumorðingi með samvisku en einfari mikill, öldruð móðir hans virðist vera eina manneskjan í heiminum sem hann á mannleg samskipti við.

Atriðið sem ég minntist á í byrjun sýnir okkur svo ljósið í myrkrinu. Þegar lagið byrjar og þeir liggja báðir uppgefnir á gólfinu eftir skotbardaga þá byrja báðir að raula með, annar deyjandi, og þá kemur göldrótt augnablik, mitt í svartnættinu. Launmorðinginn deyjandi réttir Joe hendina – og þeir haldast í hendur á meðan lagið ómar. Þetta er lag um húsmóður sem hvergi kemst, en sungið af einhverjum sem fór og týndist. Hver sem syngur, þá er eitt á hreinu – þetta lag er sannarlega um þá.

Þessir menn hafa nefnilega fyrir löngu týnt mennskunni, eins og titill myndarinnar gefur til kynna: þú varst aldrei hérna. Ekki í alvörunni. Þú varst bara draugur sem bjóst til aðra drauga.

Hin skoska Lynne Ramsey er hins vegar svo sannarlega hér – og eftir myndir á borð við Ratcatcher, We Need to Talk About Kevin og þessa hlýtur Óskarsakademían bara að fara að taka eftir henni.

Outside In eftir Lynn Shelton:

Utan rimlanna

Það er rigningardagur og þú horfir út um bílglugga á heiminn þjóta hjá. Þetta er ekki merkilegt landslag, það ætti að vera auðgleymanlegt smáatriði – en við tökum óvenju vel eftir því, vegna þess að við erum að horfa í gegnum augu Chris (Jay Duplass), sem er að sjá heiminn í fyrsta skipti í tuttugu ár.

Myndin fjallar ekki sérstaklega um fangelsiskerfi Bandaríkjanna né réttarkerfið – þótt það sé ávallt undirliggjandi þema þá fjallar myndin meira um litlu hlutina sem fylgja því að vera aftur þátttakandi í heiminum. Að fylla út starfsumsóknir og finna að þú passar ekki inn í þessi box og munt aldrei gera, að þurfa að æla eftir fyrsta bjórinn í 20 ár og að finna aftur gamla BMX-hjólið og uppgötva heiminn á ný á alltof litlum hjólhesti. Chris virðist fá heiminn beint í æð þegar hann hjólar, þennan heim sem hann fór á mis við í öll þessi ár. Einnig fangar þessi mynd af honum á alltof litlu hjóli ágætlega persónu Chris – án þess að hann sé vitlaus eða seinþroska þá er hann samt í einhverjum skilningi ennnþá unglingur í þessum heimi, af því hann gerði ekkert af því sem jafnaldrar hans eru búnir að gera síðustu 20 árin. Eins og að finna út hvernig ástin virkar.

Lynn Shelton leikstýrir ásamt aðalleikaranum Duplass en hún er með þekktustu leikstjórum sem kenndir eru við mumblecore – orð sem leikstjórarnir sjálfir hafna þó. Enda nafnið villandi – flestir eru ágætlega skýrmæltir í þessum myndum – og þetta eru orðmargar bíómyndir, en það þarf samt að hafa fyrir orðunum í þessum myndum.

Die defekte katze eftir Susan Gordanshekan:

Taugaveiklaði kötturinn

Það er kannski ólíklegt að lítil írönsk-þýsk mynd komist að í Hollywood-óskarnum, en fyrst karlleikstjórar komast að þetta árið með myndir á spænsku og pólsku ætti það nú samt ekkert að vera svo galin hugmynd.

Sú sem hér um ræðir fjallar um Mina og Kian, ung íransk-ættuð hjón í Þýskalandi. Um flest eru þau ósköp svipuð vinum sínum og kunningjum, nema um eitt: þau þekktust ekki áður en þau giftust. Spurningarnar sem vakna ósjálfrátt hjá vestrænum áhorfendum eru hlutir eins og: Er hann (eða hún) ofbeldisfullur síkópati? Verður hún (eða hann) ástfangin af einhverjum öðrum? Verður þetta hús fullt af þögn fólks sem þekkist ekki?

 Merkilegt nokk gerist ekkert af þessu. Þetta er sjaldgæf mynd sem tekur þessa stofnun, skipulagða hjónabandið, og sleppir því að demónísera það en leyfir manni þess í stað einfaldlega að fá örlitla innsýn inn í hvernig nútímafólk vinnur úr þessum aðstæðum. Þau eru skiljanlega feimnari heldur en nýgift fólk sem hefur þekkst lengi, allt samlífi og tilfinningar er eitthvað sem tekur tíma að vinna úr. Og það eru alls kyns vandamál í veginum og það er ekkert víst að þetta gangi upp. Í ofanálag er hún nýflutt til Þýskalands frá Íran, hann er altalandi á þýsku á meðan hún er að læra á nýtt hjónaband, nýtt land og nýtt tungumál, allt í einu. Enda er hún aðalpersóna sögunnar – og gaman að sjá hana kynnast nýju tungumáli og nýjum eiginmanni samtímis (og málinu að stórum hluta í gegnum hann). Öll þeirra vandræði kristallast svo í kettinum, sem hún vill og hann ekki. Hann er skilnaðarbarn sögunnar – ef svo fer. Ég ætla ekki að segja ykkur hvernig það fer allt saman, en það kemur skemmtilega á óvart.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Birtist upphaflega í Stundinni þann 24. febrúar 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson