„Fullkomlega innréttuð eldhús í öllum stærðum og gerðum tóku þess í stað á móti mér, hamingjusöm pör að skoða glansandi spaneldavélar og alls staðar dundi þessi óumflýjanlega Eurovision-tónlist. IKEA gaf mér hvergi grið. Veröld mín hrundi.“

Þetta skrifaði blaðamaðurinn ungi, Matthías Tryggvi Haraldsson, í mannlífsdálki í Morgunblaðinu í júní 2015. Tæpum fjórum árum síðar virðist hann búinn að vinna aðeins í þessu taugaáfalli á forvitnilegan hátt – hann er altént á leiðinni í Eurovision sjálfur með hljómsveit sinni Hatara.

Meðlimir Hatara voru unglingar þegar búsáhaldabyltingin átti sér stað (og smábörn þegar IKEA-ádeilan Fight Club var frumsýnd) og það er mögulega til marks um hve latir við Íslendingar erum við að nefna kynslóðir að við höfum ekki enn þá fundið þessum búsáhaldabörnum nafn. Fyrir okkur hin eldri var gamalkunnur heimur að hrynja, fyrir þau yngri var heimur sem þau voru rétt að byrja að átta sig á að hrynja. Jafnvel heimur sem þau höfðu lítið orðið vör við fram að þessu, það var að minnsta kosti takmarkað rifist um pólitík og verðbréfamarkaði í mínum grunnskóla. En það var líka löngu fyrir hrun.

Sú kynslóð hafði skiljanlega takmarkað aðgengi að fjölmiðlum þá, búsáhaldabyltingin var saga okkar sem vorum orðin fullorðin í góðærinu. Eða öllu heldur, það var sagan sem var sögð þá. En núna eru búsáhaldabörnin orðin fullorðin, þau eru farin að segja sína sögu – mögulega er saga Hatara fyrsti kaflinn.

Gamla Eurovision og neðanjarðarsenan

Hatari birtist ýmsum eins og skrattinn úr sauðarleggnum. „Ég vissi ekkert hverjir þessir gaurar voru. […] „Þeir komu alveg tilbúnir og voru rosalega fagmannlegir. Búningar, sviðsframkoma, söngur, grafík og heildarmyndin rosalega fullkláruð og sterk. Það er sjaldséð hjá einhverjum sem maður þekkir ekki, ekki reynsluboltum. Það kemur manni ekkert á óvart að Friðrik Ómar komi og negli þetta upp á tíu.“

Þetta segir Jóhanna Guðrún, forveri Hatara í Eurovision, í samtali við Vísi. En Hatari varð auðvitað ekkert til í forkeppni Eurovision, þetta er sveit sem hafði unnið til fjölda verðlauna og vakið töluverða athygli í neðanjarðartónlistarsenunni undanfarin ár. En sá heimur virðist nógu órafjarri Eurovision-senunni til þess að reynsluboltar þaðan kannist hreinlega ekki við bandið. Sem lýsir gjörningnum ágætlega, þeir eru Trójuhestar í þessari keppni á svo ótal vegu.

Hjá Hatara birtist líka sú beinskeytta samfélagsrýni sem margir kölluðu á frá listamönnum eftir hrun, þetta er engin krúttkynslóð. Þeir gripu mig fyrst í „Ódýr“, sem er enn þá þeirra besta lag – fullt af orðkynngi og magnaðri músík – og einni merkilegustu kúnstpásu íslenskrar tónlistarsögu. Söngvarinn talar um brostna drauma, endurlit og spyr: „Af hverju seldi ég mig,“ nema hvað, þarna er ekkert spurningarmerki, þótt maður haldi það fyrst. Setningin er ekki búin, hann geymir lokaorðin þangað til hlustandi er örugglega búinn að setja spurningarmerkið fyrir aftan sjálfur og bætir svo við: „ekki fyrir meira?“

„Af hverju seldi ég mig ekki fyrir meira?“ rennur saman við spurninguna „Af hverju seldi ég mig?“ og kjarnar þannig þversögn kapítalismans. Þú getur reynt eftir fremsta megni að gangast ekki auðvaldinu á hönd – en þegar allt kemur til alls þurfum við öll einhvern veginn að þrífast innan þessa kerfis, jafn alltumlykjandi og það er. Þótt þú sért sannfærður um að húsið þitt sé óíbúðarhæft ferðu ekki að rífa niður veggina – ekki ef þetta er þitt eina athvarf. Þess vegna verða uppreisnarmenn alltaf í þessari skrítnu stöðu – að reyna að spila leikinn sem best (og reyna jafnvel að spila hann af einhvers konar heilindum) á meðan þeir reyna að rústa kerfinu, en samt: án þess að berja niður veggina.

Hernumin söngvakeppni

En eins og við vitum öll er Eurovision ópólitísk, það stendur hreinlega í reglum keppninnar að pólitík sé bönnuð, líka þegar keppnin fer fram í Ísraelsríki, einum mikilvægasta pólitíska skurðpunkti heimsins, landi þar sem fjöldamorð á undirokuðum íbúum eru daglegt brauð.

En sá sem heldur að list geti verið ópólitísk skilur ekki list. Einmitt það að senda steingelda merkingarleysu – sem flest hin lögin voru – hefði til dæmis verið hápólitísk yfirlýsing, sú pólitík að líta undan þegar þarf að ræða erfiða hluti, eða jafnvel þegar þeir gerast í bakgarðinum, í næsta þorpi.

Og við skulum ekkert velkjast í vafa um það að Hatari er hápólitísk sveit, mögulega sú pólitískasta sem Ísland hefur alið í langan tíma. Það er hins vegar ekki auðvelt fyrir keppnina sjálfa eða Ísraelsríki að útiloka þá, þeir afhjúpa þá ef þeir leyfa þeim að spila og þeir afhjúpa þá jafnvel enn frekar ef þeim yrði meinuð þátttaka.

Þeir eru slyngari en svo að nefna Ísrael berum orðum í textanum og leyfa honum að vísa í ýmsar áttir. Og þótt sveitin kenni sig við raftónlist og fagurfræði BDSM gæti textinn þess vegna verið týnt vers úr Völuspá. Þetta byrjar með innihaldslausu íslensku góðærisfylleríi:

Svallið var hömlulaust
þynnkan er endalaus
lífið er tilgangslaust

En svo förum við á enn myrkari slóðir.

Tómið heimtir alla
hatrið mun sigra
gleðin tekur enda
enda er hún blekking
svikul tálsýn

Þarna er beinlínis ort um keppnina sjálfa, þessa blekkingar-gleði – staða ljóðmælanda er samt óræð, hvort hann sé hinn drottnandi stjórnvöld Ísraels eða einfaldlega spámaður sem lýsir því sem hann sér. En þótt yrkisefnið kunni að vera Ísrael þá er það svo margt annað, samanber viðlagið (að því leyti sem hægt er að tala um viðlög hjá Hatara):

Hatrið mun sigra
Evrópa hrynja

Popúlismi og vond meðferð á múslimskum minnihlutahópum er nefnilega ekki sér-Ísraelskt sport. Það er verið að níðast á hælisleitendum sem og rótgrónari múslimum í flestum ef ekki öllum Evrópulöndum, fasísk öfl hafa skotið djúpum rótum í Ungverjalandi, Póllandi, Austurríki og jafnvel Danmörku og, já, Íslandi líka. Áratug eftir byltinguna sem litaði unglingsár Hatarameðlima virðist manni stundum að þjóðernis-popúlisminn sé að sigra á nýjan leik. Með öðrum orðum: hatrið.

Að sniðganga eða taka glímuna

En ættum við ekki bara að sleppa þessu, er sniðganga ekki eina leiðin? Ég skal játa að ég hafði samúð með málstað sniðgöngunnar fyrir forkeppni og fyrst þegar Hatari skráði sig til leiks bölvaði ég þeim, ekki síst fyrir að eyðileggja áralanga persónulega sniðgöngu mína á keppninni (sem snerist að vísu aðallega um vonda tónlist), en velti líka fyrir mér hvort þeir væru að eyðileggja samstöðu sem væri mögulega mikilvæg, samstöðu gegn óverjanlegum aðgerðum Ísraelstjórnar.

Framhaldið sannfærði mig hins vegar um að sniðgangan myndi litlu skila, sérstaklega ef við hefðum bara sent Heru Björk og allir neðanjarðarkrakkarnir hefðu mætt keppninni með sama tómlæti og venjulega (hérna ætlaði ég að taka Friðrik Ómar sem dæmi en það verður að segjast að lagið hans var óvenju djarft og einlægt, svona á hefðbundinn Eurovision-skala, og þetta sekúndubrot í sjónvarpinu þegar hann og Klemens í Hatara tóku utan um hvor annan rétt fyrir úrslitaeinvígið sannfærði mig um að Hatari ætti helst að fá Friðrik Ómar með sér í lið, svona eins og Pálmi fékk Eirík Hauks og Helgu Möller með sér í lið eftir að hafa unnið fyrstu forkeppnina 1986).

Það sem sannfærði mig hins vegar var hugmyndafátækt sniðgöngunnar. Flest rökin voru af-því-bara-rök, án þess að virkni og gildi einstakra baráttuaðferða væru rædd af neinni alvöru. Verst var þó þegar spurt var, í hneykslunartón, hvort menn héldu í alvörunni að listin gæti stöðvað hernað Ísraela gegn Palestínumönnum?

Svarið er auðvitað nei – en sniðgangan myndi ekki stöðva hernaðinn heldur. Hvorugt myndi virka, eitt og sér. En svona barátta tekur tíma og vinnst á mörgum vígstöðvum og á löngum tíma. Mögulega er breið sniðganga gagnvart Ísrael eina lausnin, sniðganga sem myndi snúa íbúum gegn eigin stjórnvöldum þegar fólk myndi ekki enn geta keypt sér amerískar gallabuxur, svona svo gömul og útjöskuð mýta úr kalda stríðinu sé dregin á flot. En hitt gæti líka gerst, íbúar gætu fylkt sér bak við stjórnvöld þegar vestrið snýr baki við þjóðinni allri. Þetta er einfaldlega ekki einföld spurning og svarið er það ekki heldur. Á einhverjum tímapunkti fer maður samt að velta fyrir sér hvort Hatari sé hér líka í uppreisn gegn kynslóð sem vill helst bara sitja hjá.

Hér er kannski rétt að geta þess í framhjáhlaupi að á meðan Hatara-æðið var að byggjast upp á Íslandi vann ísraelsk mynd Gullbjörnin í Berlín. Myndin heitir Samheiti og fjallar um sjálfshatandi Ísraela í París sem er skemmdur af ofbeldismenningunni sem þetta hervædda land ól með honum, hann neitar að tala hebresku sökum þess og reynir að finna sjálfan sig í fjarlægri Evrópu – en rekur sig þó á alls kyns þjóðernissinnaða veggi í Frakklandi, með alla sína nýlendusögu.

Þegar fréttir af sigri myndarinnar bárust ísraelsku ríkisstjórninni sagði Miri Regev menntamálaráðherra: „Til hamingju … kannski.“ Þetta er vissulega umorðun en ráðherrann sló varnagla, hún hafði ekki séð myndina og árnaðaróskirnar yrðu ekki staðfestar fyrr en hún gæti staðfest að myndin stæðist „gildi Ísraelsríkis, tákn þess og gildi“.

Regev þessi hyggur á frekari frama í kosningunum í apríl, ísraelskum kvikmyndagerðarmönnum til mikils léttis. Þeir vilja nefnilega fyrir alla muni losna við hana úr menntamálaráðuneytinu. Hún er öfgahægrimaður og meðal annars með það á stefnuskránni að ná í gegn lögum um „menningarlega hollustu“, lög sem hefðu haft það í för með sér að verk sem gagnrýndu táknmyndir Ísraelsríkis, herinn þar á meðal, myndu ekki lengur geta fengið neina styrki. Fyrir aðeins ári síðan var önnur ísraelsk mynd, Foxtrot, harðlega gagnrýnd af Regev, rétt eftir að hún fékk stærstu kvikmyndaverðlaun landsins og komst í forvalið fyrir Óskarsverðlaunin.

Þetta eru tvö dæmi sem sýna okkur að hernámið er líka umdeilt í Ísraelsríki sjálfu og samtalið sem við eigum við ísraelska listamenn og ísraelskan almenning skiptir máli, ekki síður en það samtal sem við eigum við þá palestínsku. Vegna þess að þróun hersetunnar veltur að stærstum hluta á því hvernig ísraelsk stjórnmál þróast – og það hvernig þau þróast getur vel ráðist á því hvort andspyrnulist og gagnrýnar raddir fái þrifist eður ei.

Að lifa sirkusinn af

Það er hins vegar hægt að draga tennurnar úr gagnrýni með öðrum leiðum – og það verður erfiðasta prófið sem Hatari þarf að standast. Það hefur raunar ekkert gengið alltof vel undanfarið. Skipuleggjendur Eurovision í ár ákváðu að drekkja keppninni í viðtölum, í hvert einasta skipti sem einhver söng lag var viðtal bæði fyrir og eftir og svo var heill upphitunarþáttur að mestu helgaður löngu og innihaldsrýru spjalli við keppendurna. Það er rétt að taka fram að upphafleg viðtöl Hraðfréttamannsins Fannars voru ansi vel gerð – en eftir fyrsta viðtalið var fátt eftir til að spyrja um. Hatari lenti líka í klemmu keppninnar – gjörningurinn snýst um að vinna og komast til Ísrael og þegar þeir þurftu að fara í gegnum hakkavél froðukenndra spurninga íslensku pressunnar þá var eins og þeir væru bara að reyna að lifa af, enda snerist ádeila þeirra í þetta skiptið ekki um hið rotna Ísland, heldur hina rotnu Evrópu og sérstaklega það rotna fylgitungl þess sem Ísrael er. Þeir virtust vera að spara sig – en passa samt að vinna.

Og þegar Bjarni Benediktsson djókar um atkvæðaveiðar í kjölfarið á kökubakstri og fyrrverandi þingkona Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir stuðningi um leið og hún talar um að henni finnist atriðið ekkert pólitískt í Silfri Egils daginn eftir úrslitakvöldið er ljóst að menn eru þegar byrjaðir að reyna að draga tennurnar úr Hatara.

Þetta er ekki einu sinni meðvitað, þetta fylgir bara forminu. Hlátur í spjallþætti yfir fálátum svörum sveitarinnar afhjúpaði einfaldlega að þeir voru að fremja gjörning í rými þar sem fólk var ekki vant gjörningi – og í slíku rými er einfaldlega vaninn að hlæja kurteislega, frekar en að opna á alvöru umræðu, hneykslast jafnvel.

Eurovision-sirkusinn allur hefur nefnilega alls kyns hefðir og aðferðir sem draga broddinn úr pólitíkinni sem alltaf villist inn bakdyramegin, eins og lífvera sem viðheldur sjálfri sér. Þú getur alveg gagnrýnt yfirvaldið og verið með óspektir, en þú þarft samt líka að passa þig á að nota réttu hnífapörin við matarborðið. Svo reyndist líka misskilningur að æska landsins, sem margir telja að ráði mestu um framlag okkar í keppninni, hati Hatara. Fyrir þeim er Hatari að gefa þeim nýjar hugmyndir af leðruðum öskudagsbúningum. En munu þau (eða fullorðið fólk sem finnst gaman að headbanga í Eurovision-partíum) fatta ádeiluna?

Þar liggur næsta áskorun Hatara. Hatari er uppreisn gegn því að þaga þegar þarf að öskra. Mun sú uppreisn ganga upp eða verður hún kæfð í fæðingu? Nú væri freistandi að skrifa að við munum komast að því á næstu mánuðum, en það er ekki alveg svo einfalt, list virkar sjaldnast þannig. Líklega komumst við aldrei að því – en ef Hatari sáir nokkrum byltingarfræjum í réttar sálir var til einhvers sungið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn birtist upphaflega í Stundinni 14. mars 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson