Við og hinir í hrollvekjunni Us eftir Jordan Peele
Hvenær byrjar hryllingurinn? Er það þegar hversdeginum líkur eða er hryllingurinn í hversdeginum sjálfum? Þessar spurningar sækja á mann eftir fyrstu tvær myndir Jordans Peele, grínista sem skyndilega er orðinn helsta vonarstjarna amerískra hryllingsmynda eftir aðeins tvær myndir.
Sú fyrri var nefnilega á mörkunum – satíra með hryllilegum undirtóni framan af, hrein og klár hrollvekja undir lokin. Get Out fjallaði um svartan mann, fastan í hvítu fjölskylduboði – og bara þessar aðstæður, vissulega með vísbendingum um að ekki sé allt með feldu – reyndust nógu hryllilegar til þess að ná manni fram á sætisbrúnina. Maður hló um leið og maður skelfdist og einhvern veginn tókst honum meistaralega að flétta hryllinginn við kómíkina og þjóðfélagsádeiluna, en ef eitthvað er missti myndin aðeins flugið þegar hún varð hrein og klár hryllingsmynd undir lokin.
Þrátt fyrir mikla velgengni fóru greiningar eins og sú sem birtist hér fyrir ofan eitthvað í taugarnar á Peele, þetta með að myndin væri satíra og hryllingur í bland, og menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það að Us er hryllingur strax frá upphafi. Bara tónlistin, stemmningin og myndatakan undirstrikar það. Við fylgjum eftir lítilli stúlku, henni Adelaide, þegar hún verður viðskila við foreldrana í skemmtigarði og villist inn í speglasal. Hann ber yfirskriftina „Finndu þitt sanna sjálf“ og við finnum að illskan liggur í loftinu – og mitt í speglunum öllum rekst hún á baksvipinn á sjálfri sér og áttar sig á að þetta er engin spegilmynd.
Ég er ekki að kjafta frá miklu ennþá, þetta gerist allt á fyrstu fimm mínútunum – en raunar hefst hryllingurinn aðeins fyrr, þótt mögulega hafi það verið óvart. Pabbinn vinnur bol í tívolíkeppni og gefur Adelaide, nema hvað – þetta er níundi áratugurinn og þetta er Thriller-bolur, og skyndilega er stúlkubarnið ekki bara umvafið varúlfinum Michael Jackson heldur líka nýjasta hryllingi fréttatímanna.
Vondu tvífararnir sem koma svo fljótlega við sögu í nútímanum virðast líka að sumu leyti fastir í níunda áratugnum, uppteknir af Hands Across America átakinu og Michael Jackson til jafns, þau klæðast alrauðum samfestingum, rétt eins og Jackson klæddist bara rauðu í Thriller-myndbandinu fræga, og eru með stakan hanska á hendi, sérviska sem poppgoðið fallna kom í tísku.
Óþægileg tilviljun kannski – en Peele fullyrðir fullum fetum að í þessari mynd séu engar tilviljanir. Enda ásakanirnar á hendur Jackson ekki nýjar í raun, þótt skyndilega hafi þær hlotið aukin þunga. Jackson stendur nefnilega fyrir ansi margt gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum. Hann var ekki þeirra fyrsta stjarna en þó mögulega fyrsta svarta súperstjarnan – og hann hafnaði upprunanum, varð hvítur við fyrsta tækifæri. Peele segir Jackson vera holdgervingu tvíeðlis mannsskepnunnar og því augljós vísun í mynd um tvífara. Enda Jakson bæði svartur og hvítur, góður og vondur, eilífðarbarn og barnaníðingur.

Er Peele með þessu að hvetja svarta Bandaríkjamenn til þess að horfast í augu við sjálfa sig og eigin menningarbakgrunn, á sama hátt og þeir þurftu að horfast í augu við hvíta manninn í Get Out, þar sem hvíti maðurinn þurfti að horfast í augu við sjálfan sig sem háskalegt og eigingjarnt flón? Mögulega – en myndinni er margt á hjarta og vísar í töluvert fleiri áttir en Get Out gerði.
Blökkumenn eru í öllum aðalhlutverkum og við fyrstu sýn er það helsta byltingin, ekki ólíkt Black Panther fyrir ári síðan, að sjá stóra Hollywood-mynd með blökkumönnum í öllum helstu hlutverkum án þess að myndin þurfi endilega að snúast um kynþáttaátök. En slíkt væri ofureinföldum á Black Panther og ennþá frekar á Us. Þessi átök fylgja okkur alltaf, þangað til við lærum að takast á við þau.
Varúð: spilliefni
Nú er rétt að vara lesendur við: ef þið eruð ekki búin að horfa á Us nú þegar er rétt að gera það áður en lengra er lesið. Myndin er enn nýbyrjuð en núna er hún Adelaide orðin fullorðin og leikin af Óskarsverðlaunaleikkonunni Lupitu Nyong‘o, sem gæti alveg hlotið aðra styttu að ári. Hún er orðin gift tveggja barna móðir og fjölskyldan virðist nokkuð vel stæð – en það er enn uggur í henni. Barnungur sonurinn tekur hlutverk sitt í hryllingsmynd óvenju alvarlega og er alltaf með grímu við höndina, oftast á sér, og það er helst að pabbinn geti slakað aðeins á í þessu svokallaða sumarfríi þeirra.
Enda eru þau við ströndina, skammt frá skemmtigarðinum sem hrelldi Adelaide barnung – og fljótlega fá þau óvænta heimsókn. Fjögurra manna fjölskylda birtist í innkeyrslunni. Við áhorfendur vitum auðvitað að við erum að horfa á hryllingsmynd, við höfum dramatíska tónlist og myndatöku til þess að leiða okkur áfram. En það merkilega er að þau, öll sem eitt, virðast vita það líka. Fjölskyldan dularfulla þarf ekki annað en að standa þögul í innkeyrslunni – þá er strax hringt í lögregluna og leitað vopna. Þetta er Ameríka þar sem óttinn við nágranna og aðkomufólk er orðinn svo sjúklegur að hann er fyrsta viðbragð, löngu áður en spurt er um erindi.
Gestirnir brjótast svo inn, uppfylla óttann, og þegar þau eru loksins spurð hver þau séu er svarið einfalt: „Við erum Ameríkanar.“ Aukamerking titilsins verður enn skýrari; Us. United States. En Jason, sonur Adelaide, svarar þó nákvæmar: „Þau eru … við.“ Við sjálf. Nákvæmlega eins. Aðeins öðruvísi samt. Ef við hefðum alist upp neðanjarðar en ekki ofanjarðar. Sömu leikarar að túlka villtari karaktera. Ef við værum í hversdagsklæðnaði en ekki rauðum búningum – fangabúningum? Verkamannasamfestingum? Villtara hár og dýrslegri hreyfingar, þau eru sama fólk en án siðmemningar og að mestu án eiginlegs tungumáls. Þau eru allt hið dýrslega sem við höfum reynt að berja niður – sem kom þó í ljós við fyrstu ögrun, um leið og óttinn tók völdin, löngu áður en innrásin hófst.

Þau kalla sig „Hin tjóðruðu“ og þau eru komin til að hefna, til þess að ná heiminum á sitt vald. En hver er munurinn á þeim og okkur? Siðmenningin mögulega, svo langt sem hún nær. Siðmenning sem við eignumst hlutdeild í fyrir tilviljanir öðru fremur ef marka má myndina. Það kemur svo á daginn að þau búa öll neðanjarðar – í endalausum ónotuðum göngum undir Ameríku. Hver skapaði þau og hvers vegna er óljóst, þetta virka að sumu leyti á mann sem handanheimsverur en eitthvað virðast þó vísindin hafa komið við sögu. Eru þau genetísk sjúkratrygging okkar, nýrun og hjörtun og lifrarnar sem við munum erfa ef okkar bila? Stjórnum við þeim eða stjórna þau okkur? Það er ýjað að ýmsu en fátt af því gengur almennilega upp, þetta virðist helst vera tilraun sem fór úr böndunum, tilraun sem við reyndum að fela.
Hliðverðir þessa neðanjarðaheims virðast svo vera kanínurnar – sem fyrst eru í búrum í upphafi myndarinnar og svo frjálsar þegar við hittum þær fyrir næst. Hver veit, kannski er þetta allt að þeirra undirlagi – dýrin að láta okkur tortíma sjálfum okkur, áður en við tortímum lífríkinu öllu, lokatilraun til að bjarga jörðinni frá manninum? Þetta eru kanínurnar sem Lísa er dæmd til að elta ofan í holuna, alveg þangað til hún tortímist og kanínurnar erfa jörðina.

Heimsbókmenntirnar eru jafnvel enn skýrari í neðanjarðarskrímslunum, morlokkum Tímavélar H.G. Wells, sem átu ljósverurnar sem bjuggu ofanjarðar í fjarlægri framtíð sem færist þó sífellt nær. Morlokkarnir og hinir tjóðruðu eru verkalýðurinn, hin undirokuðu, rauðu samfestingarnir í staðinn fyrir gulu vestin. En þau eru líka nýbakaðir kúgarar, hvítir Evrópubúar að hrifsa lönd af indjánum, Evrópubúar sem yfirgáfu sína evrópsku örbirgð og gáfu íbúum fjarlægra heimshluta örbirgðina að gjöf. Þau eru líka plantekruþrælar að minna húsþrælana á fortíð sína, helsta vinafjölskylda þeirra virðist til dæmis vera hvít fjölskylda sem er nánast eins og táknmynd innihaldslausrar neysluhyggju, þetta er svört fjölskylda sem hefur gleymt upprunanum og tengir betur við hvíta neyslubrjálæðinga en tvífara sína. Og kannski er þetta Jordan Peele sjálfur og samviskubitið hans, ötull gagnrýnandi kynþáttamisréttis sem er ríkari og frægari en flestir sem hann fjallar um, hin eilífa klemma hinna undirokuðu – eru þeir komnir í hóp þeirra valdameiri um leið og þeir hljóta frægð og frama, er þá vegabréfið úr gettóinu hrifsað af þeim?
En þau eru samt fyrst og fremst við sjálf. Ekki bara þau – þessi fjölskylda, það virðast allir eiga sér morðóða tvífara. Þau eru alveg eins, úr sömu genasúpunni, það er jafnvel ýjað að því að þau séu með sömu sál. Af hverju eru þau þá ekki sálufélagar, bestu vinir?
Jú, af því við lifum í heimi samkeppninnar. Það er bara pláss fyrir eitt eintak af þér. Við erum ekki í samkeppni við þá sem eru ólíkir okkur – við erum í samkeppni við tvíburasálir, fótboltamenn keppa við aðra fótboltamenn, listamenn keppa um listamannalaun við aðra listamenn, kokkar keppa við aðra kokka um vinnu á bestu veitingastöðunum, smiðir keppa við smiði, nemendur við samnemendur, og brátt hættum við að skilja heiminn nema eftir lögmálum samkeppninnar. Kvikmyndasagan verður saga Óskarsverðlauna, bókmenntasagan saga nóbelsverðlaunahafa og mannkynssagan saga sigurvegara – og tapara sem voru samt afkastamestu morðingjarnir, drápu fleiri en allir hinir.
Ótti okkar við tímaflakk aftur í tímann krystallast í þessu sama – við erum ekki hrædd um að heimurinn yrði verri ef við myndum fara aftur í tímann að drepa Hitler eða Stalín, við erum aðallega hrædd um að hann yrði öðruvísi – genahappdrætti sáðfrumna og eggjastokka heimsins hefði endað á því að þú og þín fjölskylda hefðuð aldrei orðið og tvífarafjölskyldan þín yrði ofan á í þessari vídd.
Peele orðar þetta svo í viðtali við Time Magazine: „Sundrungin í Ameríku er til staðar út af því okkur skortir samkennd. Hún er tilkomin af því við afneitum reynsluheimi hvors annars.“
Að tjóðra sig við hugmynd
Auðvitað er svo lokasnúningur á öllu saman í lokin. Það kemur í ljós að Adelaide er undirheimatvífarinn, henni var rænt í bernsku og er komin upp á yfirborðið til að hefna, öðlast sinn réttmæta sess. Sess sem er réttmætur fyrir tilviljun eina, eins og saga hennar sjálfrar sannar. Þess vegna er hún ein tvífaranna til að geta talað, þess vegna á hún brýnara erindi en allur hennar her. En það er líka þess vegna sem hennar fjölskylda á roð í tvífaranna, þau eru jú undirheimaverur sjálf að uppruna, Adelaide að öllu leyti og börnin tvö að einhverju leyti. Enda virðast aðrar manneskjur sögunnar ekki lifa lengi af bardaga við sín villimannasjálf.
En hvað svo? Er eitthvað plan? Já, en það er plan ungrar stúlku sem hefur verið fönguð neðanjarðar síðan 1986. Hún er tjóðruð við gamlar hugmyndir, veraldar sem var, er ennþá meiri eitís nostalgíufíkill en við Stranger Things-fíklar nútímans. Hún fékk ekki skilaboðin um að Michael Jackson væri fallin í ónáð og hún vill breyta heiminum samkvæmt passlega barnalegum hugmyndum Reagan-tímans, með því að taka höndum saman á milli enda Ameríku eins og í rúmlega 30 ára gömlu átaki gegn fátækt, án þess þó að breyta kerfinu eða leikreglunum. Hugmyndin var að safna pening fyrir heimilislausa – en það tóku ekki nógu margir þátt til þess að ná alla leið og eftirá þótti uppátækið vera syndaaflausn hinna vel stæðu frekar en raunveruleg lausn á vandanum, til marks um tvíhyggju óbeislaðs kapítalisma að reyna að sína á sér mennskt andlit. Mögulega er Adelaide tjóðruð við hugmynd, hugmynd sem ekkert leysir, en kannski eru þau einmitt að sýna okkur að samtakamátturinn er meðal þeirra jaðarsettu, þeirra heimilislausu, og þessi mennski veggur minnir svo líka á annan tilgangslausan vegg, vegginn sem Trump vill reisa til að loka Mexíkó úti – og kannski eru tvífararnir þessi þögli meirihluti sem hafði fengið nóg af misheppuðum frjálslyndisöflum og hefndu sín með því að kjósa mesta skrímslið til valda?
Það er ómögulegt að segja, Peele tjóðrar sig aldrei við einhverja eina hugmynd – hann veiðir þær allar í net sitt og leyfir þeim að rekast á, þar sem þær svamla í undirmeðvitund þeirra – og okkar.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson