Elliott Smith hefði orðið fimmtugur síðasta þriðjudag. En hann varð bara 34 ára – og ástæðan er óljós, sjálfsmorð eða morð – þótt hið fyrra virðist líklegra.
Hann var bara 28 ára þegar ég uppgötvaði hann, hann var í eyrunum á mér á meðan ég þvældist um Evrópu í fyrsta skiptið fyrir alvöru, rétt skriðin yfir tvítugt – og lögin voru, rétt eins og allar borgirnar sem ég þeyttist fram hjá í lestinni, einhver óhöndlanleg fegurð. Það hjálpaði ekki til með að tæknin hafði tekið af okkur hinn trausta Walkman og í staðinn var komin Discman frændi hans, hátæknivædd græja sem fór á taugum við minnsta hristing – og Evrópulestirnar kunna nú alveg að hristast, þótt það sé ekkert í líkingu við íslenskar rútur.
En jafnvel þegar ég náði að hlusta á heilt lag án þess að tækið hristist þá var samt alltaf eitt lag sem var búið áður en ég byrjaði almennilega að hlusta. Það var stutt, en það var Say Yes líka – en það er eitthvað einkennilega óhöndlanlegt við Between the Bars – einhver örskotsstund á milli rimla eða á milli bara. Það síðara er kannski líklegra, þetta er ekki ástaróður til bokkunnar heldur miklu frekar ástaróður frá bokkunni til Elliotts.
Þetta er lag um hið óhöndlanlega, möguleikana sem aldrei rætast, loforðin sem aðeins þú gefur, gleymskuna, manneskjurnar sem þú hefur verið í fyrndinni. En svo klárast það allt í einu, áður en það átti að klárast, eins og draumur sem þú sofnar aftur til að reyna að finna. Eins og líf sem entist alltof stutt.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson