Fyrsta spurningin sem við nískupúkarnir spyrjum okkur þegar við mætum í nýja borg er þessi: á ég að láta mig hafa það að taka leigubíl á gistiheimilið eða á ég að labba? Ákvörðunin var hins vegar auðveld þegar rútan stoppaði í Karlovy Vary í miðri hitabylgju í lok júní, Google Maps segir mér að það þetta sé ekki nema hálftíma labb og um kunnuglegar slóðir að mestu, þetta var jú sjöunda skiptið sem ég kem þarna á kvikmyndahátíð. Maður ætti að komast þetta klakklaust þótt maður væri vel klyfjaður.

Framan af þurfti ég því ekkert að líta á kortið. Ég byrjaði á að þramma framhjá Jan Becher safninu, en Becher þessi er væntanlega frægasti sonur Karlovy Vary gagnvart öllum drykkjurútum Tékklands, enda er Karlovy Vary ólíkt flestum bæheimskum bæjum ekki frægust fyrir bjórinn heldur fyrir Becherovkuna, drykknum sem Halldór Laxness lýsti svo í Reisubókarkorni:

Tékknesk ætt hefur í hundrað og fimtíu ár tilbúið einhvern mesta drykk sem sögur fara af, og nefnist bekkerófka, grænn eins og meðal. Þetta er lífdrykkur. Hann er kryddaður með barkarsafa og kjarna ýmisra villijurta og rennur gegnum tuttugu og níu keröld, og sérstakur keimur í hverju keraldi, uns hann er fullsoðinn. 

… og annan eins drykk hef ég aldrei vitað, hann var eins og sambland af apóteki og vínkjallara, sólheitri lýngbrekku og jarðhúsi; og á eftir voru okkur sýnd öll keröldin. Síðan gáfu þeir okkur gestum sína flöskuna hverjum í nestið. Ég hlakkaði til að verða fyrstur manna að innleiða drykk þenna á Íslandi og skildi ekki flöskuna við mig, brottfararmorguninn hafði ég hana í regnkápunni sem ég bar á handleggnum. En þegar ég var að kveðja vini mína fyrir utan flugstöðina í Pröhu datt flaskan úr regnkápuvasanum og heyrðist brothljóð, og ég leit niður og sá hvar metallinn græni flóði útfyrir steinstéttina.

Stytta af Masaryk í Masaryk-götu

Þaðan beygir maður svo niður aðalverslunargötuna, T.G. Masaryka, skýrð eftir fyrsta forseta lýðveldisins, Masaryk gamla sem barðist fyrir tilvist Tékkóslóvakíu og lést skömmu fyrir stríðið sem var upphaf ógæfu þjóðarinnar á tuttugustu öldinni. Eins og í fleiri löndum ganga ótal götuheiti aftur í mismunandi bæjum og Masarykova – í mismunandi myndum – er eitt af þeim. Sjálfur bý ég raunar við hliðina á Jana Masaryka, sem er skýrð eftir syni hans sem átti öllu ógæfulegra lífshlaup – og það áður en kommúnistastjórnin náði völdum með því að glugga hann (þótt þeir hafi kallað það sjálfsmorð þá trúir þeim enginn), en gluggun, það að kasta óvinum sínum út um glugga er 600 ára gamall tékkneskur siður. Þeir voru einmitt að halda upp á afmæli fyrstu gluggunarinnar fyrir ekki svo löngu, en það var þegar hússítarnir þrömmuðu að gömlu bæjarskrifstofunum til að heimta að félagar þeirra yrðu leystir úr haldi og enduðu á að henda dómaranum og skósveinum hans út um glugga í turninum. Þar með var hefðin orðin til og síðan þá hefur þótt mikil óhæfa hér í Tékklandi að koma pólitískum andstæðingum sínum með öðrum leiðum en hinni þjóðlegu gluggun.

Hotel Thermal, höfuðstöðvar hátíðarinnar og höfuðverk brútalismans.

Svo þrammar maður yfir ána og fram hjá brútalismaferlíkinu Hótel Thermal sem eru höfuðstöðvar hátíðarinnar. Laxness hefði örugglega verið himinlifandi yfir byggingu þess og enn glaðari ef hann hefði komist á Facebook og verið manna virkastur í Facebook-hópnum The Brutalism Appreciation Society. Málið var nefnilega að Bekkerofkan var eitt af því fáa sem hann fílaði við Karlovy Vary, hann var altént ekki hrifinn af öllum glæsihýsunum.

„Eingar fegurðarihugmyndir eru fjær luttugustu öldinni en stíll nítiándu aldar, hann er sá eini tilgerðarstíll sem gerir menn reiða í staðinn fyrir að vekja hjá þeim aðhlátur, sennilega af því það er svo erfitt að finna í honum ærlega tilfinníngu,“ segir Nóbelskáldið og heldur áfram:

„Nítjánda öldin er liðin — loksins’ — og hennar dýrð. Fyrir alla muni, segið fólki ekki leingur að drekka þetta ólystuga ölkelduvatn; og takið gyðjuræksnin og marmarablómsveigana og þessi flúruðu útskot utanaf byggíngunum; og brjótið súlurnar; en ger’ið útisundlaugar og látið hveravatnið renna í þær sumar og vetur, og byggið sólskála og leikskála umhverfis, ice-cream bar og jafnvel whiskybar, alt með línu nútímans og í samræmi við einfaldan og sjálf sagðan munað tuttugustu aldar.“

Já, það er gott að við Kiljan hefðum allavega getað drukkið saman Bekkerófku á mean við rifumst um arkítektúr, en ég var víst að labba hérna. Hef ekki tíma til að stoppa á Thermal núna, fer á eftir að ná í passann og einhverja miða, núna þramma ég áfram eftir I.P. Pavlovu. Hún er vitaskuld skýrð eftir sálfræðingnum snjalla, rétt eins og samnefnd Metro-stöð í Prag, en þar má meðal annars finna meðfylgjandi mynd af Pavlov og hundunum hans, sem hann prófaði hugmyndir sínar um skilyrðingu á.

Manndrápsbrekkan við kastalann

En altént, ég er alveg að koma – og þarf að fara að líta á kortið. Þetta eru bara þrjár götur – en skyndilega átta ég mig á að ég hafði gleymt einu lykilatriði. Brekkunum. Karlovy Vary er líklega hæðóttasta borg sem ég hef komið til á eftir Sarajevo og aðalgatan, kanalinn sem áinn rennur í gegnum, er varinn snarbröttum brekkum á báða kanta. En ég man að ég hef a.m.k. einu sinni gist í þessum brekkum áður og það var ekki svo slæmt. Ég þramma upp fyrstu brekkuna, framhjá Frelsistorginu – Náměstí Svobody – og þaðan upp Moravská-götu, skýrð eftir hinum helmingnum af Tékklandi. Ekki svo slæmt, ég lifi þetta af, hugsa ég lafmóður í 36 stiga hita. Næst er það Libušína-gata, álíka brött og álíka löng og skýrð eftir Libuše, sjálfri móður Tékklands. Hún var yngst þriggja systra, en einnig sú klárasta, enda vitað mál að við örverpin erum almennt langklárust. Hún sá fyrir sér Prag, borg „hvers frægð mun ná til stjarnanna,“ og skýrði hana Praha, að sögn þegar hún sá mann smíða þröskuld – prah á tékknesku. Faðir Libuše gerði hana að drottningu þvert á allar hefðir og feðraveldi þess tíma var ekki mjög sátt þegar hún leit ekki við vonbiðlum sínum í aðalsmannsstétt heldur fór krókaleiðir til þess að giftast honum Přemysl sínum, sem var einfaldur bóndi – en seinna konungur.

Allavega, ég klára að klifra upp þessar tvær götur og þetta er ekki svo slæmt, brattinn ekki svo slæmur og göturnar ekki svo langar. En svo sé ég Vyšehradska. Ég gæti stungið því að ykkur að þarna sé vísað í kastala sem liggur hátt uppi, Vyšehradska þýðir efri kastalinn, kastalinn í hæðunum. Eða kannski bara Bröttubrekka, það á rækilega vel við.

Vyšehradska

Því þegar ég kom að götunni hugsaði ég fyrst og fremst að þetta væri sannkölluð manndrápsbrekka. Miklu lengri og brattari en göturnar á undan. 36 stigin, 30 kílóin í töskunum og brattinn þýddu að maður sá rétt svo út úr augum fyrir svita þegar maður loksins þrælaðist upp götuna. Þá var maður kominn á sæmilega jafnsléttu – svona miðað við það sem á undan hafði gengið – og átti eftir að finna bæði Hótel Imperial, þar sem lyklarnir mínir voru, og svo gistiheimilið mitt. Fyrst hélt ég að eitthvað lágreist hús væri sérstakt lobbí fyrir Hótel Imperial, en hitti þar fyrir miðaldra konu sem talaði sama og enga ensku en tókst þó að útskýra fyrir mér að þetta væri ekki Imperial-hótelið heldur Imperial-kláfurinn. Ég hefði sem sagt getað tekið kláf hingað upp eftir – gott að vita það næst, hugsaði ég – og keypti seinna meir tíu miða bara til að komast að því að bölvaðurinn kláfurinn hætti að ganga klukkan níu á kvöldin.

En allavega, áfram þrammaði ég og sá fallegan franskan garð, vel hirt tré og glæsilegasta og stærsta hótel sem ég hef séð í þessari borg glæsihótelanna. Þetta var máski kastalinn sem gatan lofaði? Hotel Imperial gnæfir yfir manni þegar maður rogast þangað með töskuna – en það var þó engin vikapiltur í Svals-búning að taka á móti mér. Þess í stað rogast ég með dótið inn, fæ að geyma það í hægindastól á meðan ég skýst á salernið, og tala svo við afgreiðsludömu sem rukkar mig um gistinguna og lætur mig fá lyklana af Penzion Villa Hofman. Hofman-pensjónatið er sumsé ekki með eigin afgreiðslu, þess vegna er ég hérna, ég finn alveg á kellunni að ég er aðskotahlutur, aulgjóslega ekki jafn fínn og hinir gestirnir, og þótt mér finnist ég vera að borga morðfé fyrir gistinguna á Hofman þá grunar mig að ég myndi fá svona tíu hjartaáföll ef ég myndi spyrja hvað herbergið á Imperial kostar. Svo dröslast ég með töskurnar fram hjá íþróttaðastöðu fyrir Imperial-gesti og eftir að hafa villst lítillega finn ég loks Hofman-pensjónatið. Notalegt og lágstemmt gistiheimili. Huggulegt en ekki íburðamikið, það vitrast mér að líklegast hefur þjónustufólkið gist þarna í gamla daga – þangað til þau þurftu að flytja út í úthverfin til þess að rýma til fyrir svona túristum eins og mér, millistiginu, þeim sem tímdu ekki glæsihöllunum en vildu samt vera miðsvæðis.

Og svo ég haldi nú áfram síðbúnu rifrildinu við Kiljan, þá erum við held ég sammála um að íbúðir sem og hótel eiga að vera nógu ódýr fyrir venjulegt fólk að búa í / gista í. En þótt hótelin hérna í Vary séu dýr þá er nú samhengið á milli fegurðinnar og verðsins ekkert alltaf þannig – það er nóg af ódýrum gullfallegum húsum hér í Bæheimi og nóg af foxljótum rándýrum húsum í Reykjavík. Niðurstaðan er einfaldlega að kapítalisminn sökkar en falleg hús eru æði, og heyrirðu það Halldór Kiljan Laxness!

Svo finn ég að þessi hiti er aðeins farinn að taka á, ég er búinn að skjótast inná Hofman til að fara í langþráða sturtu og smá chill, en þegar ég kem aftur út finn ég að þessi hiti er farinn að segja til sín, ég þarf að drífa mig í dimman bíósál áður en ég fæ sólsting. Já, bíósál, hér í Tékklandi bæta þeir við broddstaf til að bíóið fái sál. Kino sál. Og þar sem ég horfi í þessi ægifögru sól sem mér þykir óttalega vænt um af því öll þessi ár fjarri Íslandi hafa bara sannfært mig enn betur um að ég er ekkert mikið fyrir langan vetur – en auðvitað, eins og við öll, með fréttir af yfirvofandi hamfarahlýnun svamlandi í undirmeðvitundinni, og þá laumar annað Nóbelsskáld sér inní hausinn á mér og hvíslar: „Svoleiðis verður heimsendir, ekki með kjökri heldur með sólsting.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson