„Þekkirðu til verka Karel Schulz?“ Við þessa tilviljunakenndu spurningu vinar míns á Facebook vaknaði ég einn morguninn. Ég þekkti hann ekki neitt, en komst fljótlega að því að hann var tilraunakennt ljóðskáld sem gerði andskoti forvitnileg myndljóð á millistríðsárunum og lést svo í miðri Seinni heimstyrjöldinni, nýbyrjaður á öðru bindinu í þríleik sínum um sjálfan Michaelangelo. En á ensku er til dæmis hægt að lesa nýlega þýðingu Meghan Forbes á ljóðinu „Travel by Train,“ sem birtist í bókmenntaritinu Words Without Borders.

Nema hvað, þetta reyndist svakaleg bókmenntafjölskylda, þótt Schulz-nafnið sé þar löngu týnt. Pabbi hans var þýðandi og mamman hörpuleikari. Dóttir hans, Jiřina, giftist svo Josef Topol, rithöfundi og einum helsta Shakepseare og Tsjekhov-þýðanda Tékka. Það voru svo synir þeirra sem ég kannaðist við – Jáchym og Filip. Jáchym Topol er einn frægasti rithöfundur Tékka síðustu ár, áranna eftir flauelsbyltingu nánar tiltekið. Filip var rithöfundur eins og bróðirinn, en þó ekki nærri jafn frægur eða afkastamikill sem slíkur, en báðir voru þeir líka tónlistarmenn og þar er það píanóleikarinn Filip sem er með frægari tékkneskum tónlistarmönnum síðustu ára, en hann spilaði með rokksveitinni Stríðshundunum – Psí vojací.

Filip lést ungur, 48 ára gamall, enda hellraiser af bestu / verstu gerð, og hann var ekkert að slaka á á sviði, braut stundum hnúana á tónleikum og skyldi píanóið eftir þakið blóði. Hann sagði stundum að þegar hann spilaði á píanóið væri eins og hann væri að temja heilt stóð af villtum hestum.

Hann byrjaði snemma, kom fyrst fram þrettán ára þegar hann hitaði upp fyrir andspyrnubandið fræga Plastic People of the Universe á sveitaóðali Václav Havels, seinna forseta. Þetta var árið 1979 og Josef pabbi Filip var andspyrnumaður og hafði skrifað undir hina frægu Charta 77 yfirlýsingu Havels og andspyrnufélaga hans. Hér má geta í framhjáhlaupi að þessi pistill er vitaskuld skrifaður á knæpunni góðu Kávarna Mlýnská, Myllukaffihúsinu (og já, það er mylla við innganginn) á Kampa-eyju, sem er ein helsta andspyrnukrá Tékklands vorra daga. Það virka allir frekar rólegir hérna, en ég veit að þau eru að plotta eitthvað svakalegt.

Filip var svo aðeins fjórtán ára þegar hann stofnaði Stríðshundana ásamt félögum sínum og hann var líka fjórtán ára þegar hann var fyrst yfirheyrður af tékkóslóvakísku leynilögreglunni. Hljómsveitin nýstofnaða sótti nafn sitt í samnefnda hermenn úr Little Big Man, skáldsögu Thomas Berger, sem seinna varð bíómynd með Dustin Hoffman og Faye Dunaway, að ógleymdum Chief Dan George.

Þeir félagar voru þó varla búnir að stofna bandið þegar það var bannað og þurftu þeir því að láta sér nægja neðanjarðartónleika og ólögleg bútlegg þangað til Flauelsbyltingin skall á og þeir gátu farið að spila opinberlega og gerðust atvinnutónlistarmenn.

Lagið sem ég ætla að spila fyrir ykkur heitir „Žiletky,“ eða „Rakvélarblöð,“ og er úr samnefndri bíómynd sem Topol leikur sömuleiðis aðalhlutverkið í. Textinn er myrkur eins og flestir textar Topol, og eins og vænta má af tilinum. Við heyrum fyrst um tunglið í Utah, þótt Utah komi málinu í sjálfu sér ekki neitt við, en það er enn nógu stutt liðið frá Flauelsbyltingunni til þess að uppreisnargjarnir tónlistarmenn bregði fyrir sig óræðri Ameríkurómantík til þess að stríða yfirvöldum. Þetta tungl gerir þau brjáluð – það er spurning hvenær lagið er samið, er þetta ófrelsið eða nýfengið frelsið að gera þau brjáluð?

Myndina sjálfa má vel að merkja finna í heild sinni á Youtube, að vísu textalausa, og það er skemmst frá því að segja að þetta er hræódýr og oft passlega amatörleg indímynd, en mjög tilraunakennd og óneitanlega sjarmerandi fyrir okkur sem erum haldin nostalgíu gagnvart næntís Prag. Það sem er þó óvenjulegt er hvað bæði tónlistin, sem Topol samdi með bandi sínu, og hljóðmyndin öll, er mögnuð og miklu vandaðri en myndin sjálf. Þetta er pínulítið eins og Vangelis, Hilmar Örn eða John Williams hefðu ákveðið að leika í menntaskólabíómynd og semja líka tónlistina. Sem væri satt best að segja frábær hugmynd, menntaskólanemum sem lesa þetta er frjálst að stela hugmyndinni.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson