Nýlega var loksins, eftir langa bið, frumsýnd mynd eftir einn ástsælasta leikstjóra heims um hina hedónísku Hollywood undir lok sjöunda áratugarins. Um heim sem er að líða undir lok, um það að eldast, um þessa skrítnu valdabaráttu listamanna sem allir eru að elta drauminn og glíma við eigin djöfla jöfnum höndum. Þetta er langt í frá besta mynd leikstjórans, en það er samt heilmikill galdur í henni, einhver fílingur, einhver tilfinning fyrir horfnum heimi.
En nóg um The Other Side of the Wind, ég ætlaði víst að skrifa um Once Upon a Time … in Hollywood hérna. Vandinn er bara að hugurinn leitaði alltaf aftur til myndar Welles þegar ég horfði á nýjustu Tarantino-myndina, því þær eru svo ískyggilega líkar – nema hvað Welles-myndin er bara svo miklu betri.
Auðvitað er munur – mynd Welles fjallar um stórleikstjóra, mynd Tarantino um b-mynda leikara – en báðar fjalla þær um tímans þunga nið og hvernig aðalpersónurnar eru farnar að finna harkalega fyrir honum. Önnur finnur endinn nálgast, hin veit að niðurtúrinn er hafinn. Báðar fjalla um draumaverksmiðjuna sem er músa þeirra sem og djöfull og báðar fjalla um tíma sem voru í senn frjálslyndari og afturhaldsamari en okkar.
Vandamálið er ekki að mynd Tarantino sé problematísk. Hún er það vissulega um sumt (nánar um það í lokin), en eitt af betri atriðum myndarinnar er hins vegar er umdeildur slagur Cliff (Brad Pitt) og Bruce Lee. Það eru fleiri frábærar senur hér, eins og til dæmis báðar senur DiCaprio með hinni barnungu Julie Butters, einhverri skemmtilegustu barnastjörnu sem maður hefur lengi séð, og svo sena Pitt með hinum aldna og vanmentna stórleikara Bruce Dern, sem leikur blint og hálf-rúmfast gamalmenni. DiCaprio er köflóttur í myndinni, stundum frábær en stundum aðeins of mikið að LEIKA með hástöfum – en Pitt hefur sjaldan verið betri, honum fer fátt betur en passlega kómísk hlutverk og hefur fengið alltof fá slík í gegnum tíðina.
Manni þykir hins vegar vænt um hvoruga aðalpersónuna, til þess eru þeir aðeins of holar– og stöku sinnum kemur þó myrkrahlið Pitt fram og við vitum ekki alveg hversu skuggaleg sú hlið er. En það hreinlega vantar oftast þennan léttúðuga og skemmtilega fíling sem oftast fylgir Tarantino, jafnvel í hans slakari myndum, og það vantar töluvert upp á að eitthvað bitastæðara komi í staðinn, meiri dýpt eða viska. Hann blandar raunverulegum persónum við söguna, bíógoðsögnum á borð við Roman Polanski, Steve McQueen og Sharon Tate – og sóar þeim. Polanski fær ekkert að gera, McQueen fær eitt atriði sem nær ekki alveg að vera jafn fyndið og það ætti að vera og Tate er sýnd sem of mikil og einföld ljóska til að verða áhugaverð.
Það er vel að merkja slæðingur af mögnuðum senum hérna, þetta hefði getað verið frábær 80 mínútna mynd. Sally Menke, sem klippti allar myndir Tarantino fram að Django Unchained, lést langt um aldur fram fyrir tæpum áratug síðan, og maður velti fyrir sér hvort hann sakni hennar mögulega, listrænt, meira en menn grunar? Kannski er þetta skuggahlið hins listræna frelsis sem aðeins örfáir leikstjórar njóta á þessum skala – það er enginn til þess að stoppa þá þegar þeir verða of sjálfhverfir og ástfangnir af eigin senum.
Af því við vitum öll hvað Tarantino getur gert á góðum degi. Líklega þarf hann bara að hætta að umkringja sig já-fólki og taka gott eintal sálarinnar, rétt eins og persóna DiCaprio gerir rétt fyrir sinn stærsta leiksigur.
Vegna þess að þetta er slappasta mynd Tarantino til þessa, fyrsta myndin hans sem manni hreinlega leiðist á löngum köflum. Hingað til hefur maður vissulega oft klórað sér í hausnum yfir Tarantino myndum og velt fyrir sér: af hverju? Því oft virðast myndirnar hans skorta alvöru erindi. Oft á tíðum vitrast manni erindið þó þegar líður á myndina – og jafnvel þegar erindið er takmarkað þá er fílingurinn að bæta fyrir það, þá er þetta að minnsta kosti skemmtilegt bíó – sem Once Upon a Time … in America er eingöngu í stöku senum.
Höskuldarviðvörun um endalokin
Svo er rétt að enda þetta á rækilegri Höskuldarviðvörun: það sem er helst problematískt við myndina er endirinn, og atburðir honum tengdir. Ekki út af minningu Sharon Tate, hún deyr ekki einu sinni hér – en hún hefði hins vegar átt skilið að vera skrifuð sem bitastæðari og tvívíðari persóna, ekki eins og staðalmynd saklausu Hollywood-ljóskunnar.
Nei, miklu frekar út af því hvernig átök hippa og ríkisbubba í Hollywood-hæðum eru birt hérna. Tarantino notar hér sama trikkið og í Inglorious Basterds og Django Unchained, þar sem Hitler annars vegar og þrælahaldarar hins vegar fengu rækilega á baukinn fyrir syndir sínar, töluvert fyrr og á dramatískari og hressilegri hátt en í raunveruleikanum. Þetta voru hefndarfantasíur fyrir illskuverk mannkynssögunnar – og afskaplega skemmtilegar sem slíkar, leyfir áhorfendum að ímynda sér betri og réttlátari heim – með helling af blóðsúthellingum.

Manson-morðin voru hins vegar annars eðlis, hluti af miklu flóknari valdabaráttu á milli hippa, ríkisbubba og annarra þjóðfélagshópa – þar sem einstaka vanstilltir einstaklingar geta gert þann kokteil eitraðan. En hér eru fylgjendur Mansons einu sýnilegu hipparnir í myndinni, sem er ansi ósanngjörn birtingarmynd stórs þjóðfélagshóps, og þegar aðalpersónurnar slátra þeim af blóðþyrstri heift virkar það ekki eins og hefnd fyrir misgjörðir – enda deyja Sharon Tate og félagar aldrei í þessum hliðarheimi – heldur hreinlega eins og heift gömlu stúdíó-kapítalista Hollywood gagnvart þessum boðflennum, með sitt síða hár og skrítnu hugmyndir um frelsi og frið. Vegna þess að persóna Pitt er, á milli þess sem hann sötrar kippu af bjór yfir ódýru sjónvarpsefni, líklega sami sadistinn og líklega sami morðinginn og Manson-gengið ætlaði sér að vera. Persóna DiCaprio trompast svo yfir þessum hippum fyrir það eitt að villast í götunni hans, löngu áður en hann hefur nokkurn grun um ætlun þeirra. Þetta er þannig ennþá heimur þar sem spilltar Hollywood-stjörnur komast upp með allt en vegvillt ungmenni fá ávallt sína refsingu. Líklega kemst þessi fantasía Tarantinos næst sannleikanum með einmitt það – en vekur upp þá spurningu af hverju hann vill viðhalda einmitt því lögmáli en öðrum ekki?
Texti: Ásgeir H Ingólfsson