Hvenær uppgötvum við okkar innri Abe Simpson, röflandi gamlingja að öskra á ský, að kvarta yfir unga fólkinu sí og æ? Ég held við gerum það oft fyrr en við viðurkennum það, svo er bara spurning hversu vel gengur að halda honum í skefjum, passa að hann röfli ekki of mikið fyrr en maður er að minnsta kosti orðið löggilt gamalmenni, þá eru auðvitað bara mannréttindi að röfla reglulega. Og muna að stundum er hann mikilvægur, röflandi gamalmenni hafa alveg stundum rétt fyrir sér.

Ég held að ég hafi fyrst uppgötvað minn gamla skrögg Verslunarmannahelgina eftir að ég varð stúdent, þar sem ég sat á gömlu Kaffi Karólínu með tveimur gömlum bekkjarfélögum og við hristum öll hausinn, nýkomin úr miðbæjarrölti þar sem við höfðum labbað í gegnum unglingafylleríið sem fylgdi Halló Akureyri þá (eða hét það kannski Ein með öllu þá?) og hugsuðum bara: fannst okkur þetta í alvörunni einu sinni spennandi?

Gamli skröggurinn kom svo aftur upp í mér þegar ég horfði á byrjun tónleikanna á menningarnótt í sjónvarpinu í heimsókn hjá móður minni og hugsaði að músíkin væri kannski þokkaleg – en þessir textar væru svo innihaldsrýrir að það væri meiri næring í McDonalds-borgara. Meira að segja Skímó hefðu skammast sín. Þegar ég heyri svona hroðbjóðstexta þá fyrst fer ég að hafa áhyggjur af ungviðinu, þau þurfa jú alvöru ljóðlist til þess að þroskast almennilega, annars verða þau bara tóminu að bráð og enda í notaðri Olís-peysu af Herra Hnötusmjöri.

Ef ég hefði hins vegar fylgst með aðeins lengur hefði ég öðlast trú á unga fólkið á nýjan leik, því eftir innihaldsrýra texta GDRN þá steig Auður á svið (og tók raunar stuttan dúett með GDRN fyrst sýndist mér) og fékk í kjölfarið Velvakandi nöldrara upp á móti sér fyrir að syngja lag með alvöru texta, alvöru meiningu og alvöru pælingum. Já, og magnaðri sviðsframkomu.

Þetta byrjar svosem eins og heilalaus dópóður, intróið er villandi, en svo fer ýmislegt að gerast. Við áttum okkur á að þetta eru mannalæti, litlir strákar að þykjast stórir – og þetta er þeirra eina leið:

Stórir strákar taka kók á B5

Til að sýna að þeir séu ekki “has-been”

Svo kemur lúmskt heimspekileg pæling um framtíðina:

Hún segir “vinir mínir, þeir eru dópistar”

Ég segi “vinir mínir, þeir eru foreldrar”

Hún segir “honestly veit ekki hvort ég vil frekar”

En þetta þarf ekki að útiloka hvort annað

Vó! Hún er á gráu svæði

Þessi klassíska spurning: eigum við að vera ung og kærulaus eða eigum við að fullorðnast? Eða getum við kannski gert bæði, verið freðnir foreldrar? Þetta er ákveðin blindgata, þau sjá engan alvöru milliveg, annað hvort að kasta æskunni endanlega á glæ, fara í pakkann, eða vera út úr heiminum. Þau finna ekki heim fyrir sig, þannig að þangað til þau verða foreldrar „verða“ þau að vera dópistar – þarna vantar eitthvað val, það er verið að þröngva þeim í tvær áttir, ósamstæðar – dyggðaveginn eða lastaveginn og einu ráðgjafarnir eru englarnir og djöflarnir á öxlinni, sem eru líkast til báðir óttalegir öfgamenn.

Seinna meir kemur raunar texti sem mætti hreinlega kalla hreinan forvarnartexta:

Hver er munurinn á rútínu og vítahring

Hver er munurinn á dópinu og vítamín

Seinna kemur svo í ljós að rót vandans er geðrænt, þunglyndislyf eru nefnd og ef önnur lög Auðar eru skoðuð þá er þar sungið mikið um andleg veikindi.

Ertu tilbúin að horfa framhjá göllunum

Beibí ég er nýkominn af þunglyndislyfjum

Hún segist vilja bjóða mér á lítið stefnumót

Ég er svo kvíðinn held ég þurfi að taka meira dóp

Helsti galli lagsins er hins vegar óþolandi autotune skrípóröddin sem stundum hljómar bak við og mann langar helst til þess að kyrkja. En hún súmmerar kannski upp Pétur Pan syndróm ljóðmælanda, hann á erfitt með að fullorðnast, venja sig af barnslegum kækjum eins og að fela sig á bak við skrípórödd. Því jafnvel þótt dópið gefi honum í raun litla fró þá horfir hann upp á hina settlegu og fullorðnu og veltir fyrir sér: er það eitthvað skárra að hætta að dópa og verða settlegur úthverfapabbi í Grafavoginum? Enda er það settlegu góðborgararnir sem valda oft mesta skaðanum, eða svo ég vitni í doktor Arnari Eggert að í viðtali á RÚV:

„Tengslin á milli þess að spila tölvuleiki og fara út og myrða fólk eru óveruleg ef einhver. Þetta er hlægilegt. Ef það er eitthvað sem ýtir fólki út í eiturlyfjaneyslu er það misskipting í samfélaginu og stjórn landanna sem er einmitt í höndum fullorðins fólks.“

Þessari upplifun lýsir Auður einmitt ágætlega í öðru lagi, „Manískur.“

Heimurinn snýst svo hratt

Mig skortir þyngdarafl

Skýst upp á ljóshraða

En reyni að standa í fæturnar

Heimurinn snýst of hratt

Mig skortir þyngdarafl

Flýg upp á ljóshraða

En reyni að standa í fæturnar

Texti: Ásgeir H Ingólfsson