Hvar finnur maður eilífðina? Svarið er einfalt: einhvers staðar í sveitum Anatólíu, þar sem hvíthærður og skeggjaður Özgür Baba spilar á saz á meðan kötturinn hlustar á trjádrumbi. Það er örlítil gola, eins og sést á trénu og þvottasnúrunni, annars hreyfist ekkert nema fingurnir á Özgür.
Svona, einmitt svona, lítur kyrrðin út. Alvöru kyrrð, kyrrð í boði þöguls manns kenndum við öskur. Þangað til fjórar mínútur eru liðnar – þá fer allt að gerast! Hann fer kannski ekki að öskra, en hann fer að syngja – og kisi er greinilega meira fyrir instrúmental, þannig að hann er fljótur að forða sér.
Nema hvað, þetta gæti verið útsmogið bragð hjá kisu, fiðurfénaðurinn er ekki alveg að treysta fjarveru kattarins, og það er ekki fyrr en tveimur mínútum seinna sem fuglarnir þora að stíga inní rammann. En líklega er Özgür bara svona flinkur dýrahvíslari, þarf ekki nema saz-inn og röddina til að fá þau til að koma eða fara.
Hann syngur ævaforn ljóð eftir Yunus Emre, um tré sem verður að fataskáp ef marka má internetið. En hvernig villtist hann Özgür inná internetið?
Jú, myndbandið er hluti af Elif’in Hecesi verkefninu, mannfræðitónlistarverkefni sem snýst um að safna saman á myndband þjóðlagatónlist út um allt Tyrkland, allt frá afkimum Anatólíu til Miklagarðs sjálfs. Í Istanbúl er svo skemmtilegasti kontrastinn við Özgür, hún Adaya sem syngur á ensku og við fyrstu sýn gætu kannski einhverjir haldið að þetta væri frekar New York skólinn í söngvaskáldum, en maður þarf ekki að hlusta lengi til þess að skynja sömu taugina, sama arfinn.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson