Hversu langt er hægt að ná með einlægni og gjafmildi að vopni? Ef maður er Daniel Johnston og er berskjaldaður í hverju einasta lagi, hverjum einasta tón, þá tekst manni mögulega að breyta einlægninni í tóna sem eru hjartaskerandi eða upplífgandi á víxl. Það er eitthvað við röddina, undirspilið og textana sem er magískt, jafneinfalt og það hljómar.
Já, og teikningarnar – horfið bara á þessa myndafígúru á kasettuumslaginu og leyfið ykkur bara að gráta með honum. Þetta er af annarri kasettu Johnston, Don‘t Be Scared – lagið The Story of an Artist, sem minnir ekki lítið á sögu Johnston sjálfs, sem þá var þó aðeins rétt að byrja.
„The sun doesn‘t shine on your TV,“ syngur hann fáeinum árum áður en Morten Harket fullyrti að þar skyni sólskinið alltaf. Og í kommentaþræði Youtube dúkkar svo æskuvinur Daniels upp og segir okkur söguna af laginu. Þetta er móðir hans að tala við hann, guðhrædd mamman með áhyggjur af stráksa – enda skynjaði hún sjálfsagt djöflana sem herjuðu ítrekað á þessa viðkvæmu sál.
Lagið er tvíbentur óður til lífs listamanns sem augljóslega elst ekki upp í listamannakreðsum, maður getur bæði séð listamanninn sem sigraði heiminn og þann sem myndi deyja án þess að draumarnir myndu rætast – og á einkennilegan hátt var bæði satt um Daniel.
Hann gaf iðullega út á heimatilbúnum kasettum sem hann gaf öllum sem hann þekkti, eins og Ágúst Garðarsson minnist á í mjög skemmtilegu spjalli í Lestinni, sem finna má hér. Og þegar menn eins og Johnston deyja lenda smyglarar vitaskuld í valkvíða með föstudagslagið, og svindla því bara og taka nokkur uppklappslög. Það er vitaskuld ekki hægt að horfa fram hjá stærsta hittaranum, hinum ægifagra bjartsýnisóð um ástina sem við munum öll finna á endanum. Og jafnvel ef þú trúir því ekki, þá trúir þú því í þessar 111 sekúndur sem lagið endist.
Það besta sem finna má á Þúskjánum góða með Daniel okkar er þó þessi yndislega heimildamynd, þar sem Daniel anno 2015 á í samtali við Daniel anno 2015. Magnaðra verk um það að eldast, um brostnar vonir og, núna, hinstu daga þreyttrar sálar er varla hægt að ímynda sér.
Í lokin syngur svo Lana Del Ray magnaða ábreiðu af lagi Daniels, aldrei þessu vant betri en hans eigin útgáfa (og það er sannarlega ekki tilfellið með ábreiðurnar á True Love Will Find You in the End).
Texti: Ásgeir H Ingólfsson