Angela Davis er mætt hingað til lands til þess að tala á #metoo ráðstefnu í Hörpu. Hún er þekkur kommúnisti, aktívisti, fræðimaður og rithöfundur – en þó fyrst og fremst einn frægasti fangi. 20 aldarinnar. Hún lenti á sínum tíma upp á kant við jafn ólíka menn og Ronald Reagan, Richard M. Nixon og Alexander Solzhenitsyn en átti ófáa stuðningsmenn líka – og sumir þeirra sungu um hana lög.

John Lennon og Yoko Ono sömdu lagið „Angela“ henni til stuðnings og félagarnir í Rolling Stones, sem annars hafa sjaldan verið afgerandi pólitískir, gerðu slíkt hið sama með laginu „Sweet Black Angel.“ Þá samdi Bob Dylan lag um George Jackson, einn bræðranna sem kom að málinu.

En hver er þessi Angela Davis? Hún var meðlimur í Ameríska kommúnistaflokknum í marga áratugi og kom að störfum Svörtu pardusana á sjöunda áratugnum. Þátttaka hennar í kommúnistaflokknum varð til þess að Ronald Reagan, þá fylkisstjóri í Kaliforníu, reyndi að koma í veg fyrir að hún gæti kennt í háskólum fylkisins.

Frægð hennar reis þó hæst í frægu réttarmáli í upphafi áttunda áratugsins. Í ágústmánuði árið 1970 hertóku þrír bræður dómssal í Marin-sýslu í Kaliforníu þar sem fjórir manns létu lífið áður en yfir lét. Davis hafði keypt byssurnar sem notaðar voru en var ekki með í ráðum, en var í kjölfarið eftirlýst og varð aðeins þriðja konan í sögunni til þess að lenda á hinum alræmda lista FBI yfir tíu eftirlýstustu menn Bandaríkjanna og var handsömuð eftir tveggja mánaða flótta og hrósaði Richard M. Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, CIA sérstaklega fyrir að handtaka þennan hættulega hryðjuverkamann.

Við tóku 18 mánuðir í fangelsi þar sem hún beið dóms og til marks um þá feykilegu athygli sem réttarhöldin vöktu þá sömdu nokkrir frægustu tónlistarmenn þess samtíma áðurnefnd lög samin henni til stuðnings, þúsundir manns skipulögðu stuðningsaðgerðir og svartir rithöfundar í New York stofnuðu „Blökkumenn til varnar Angelu Davis.“ Málinu lauk svo árið 1972 þegar al-hvítur kviðdómur sýknaði Davis af öllum ákæruliðum.

En lítum aðeins á lögin sjálf. Stuðningslög Lennon & Yoko annars vegar og Rolling Stones hins vegar endurspegla listamennina sjálfa að mörgu leyti skemmtilega. Hið fyrrnefnda er lítið að fela boðskapinn – „You’re one of the millions / Of political prisioners / In the world“ er bókstaflega endirinn á fyrsta erindinu. Hins vegar eru skemmtilegustu erindin aðeins óræðari – sérstaklega þetta:

They gave you sunshine

They gave you sea

They gave you everything

But the jailhouse key

Einmitt þetta er ófrelsið holdi klætt, hvort sem það er beinlínis fangavist eða ófrelsi til þess að njóta þessa heims vegna vinnuþrælkunar, fátæktar eða annarra aðstæðna; þessi fallegi heimur er þarna, alltumlykjandi, en við fáum ekkert alltaf lykilinn.

Jagger og félagar eru hins vegar öllu groddalegri og ekki beint PC í sínum textum, gera Angelu að pin-up gellu, þeir gera hana að stjörnu, jafnvel þótt þeir taki fram að hún sé hvorki söngvari eða stjarna. En það var auðvitað áður en hún varð viðfang Rolling Stone lags. Þetta gengur líka upp hjá þeim félögum, ná aðeins meiri einlægni en John & Yoko með því að hljóma pínu eins og vel meinandi gaurar á barnum (But the gal in danger / Yeah, de gal in chains) en vísa á sama tíma lymskulega í umdeildustu barnabók síðustu ára, Tíu litla negrastráka.

Þá er ónefnt Bob Dylan-lagið George Jackson, sem fjallar um annan aðila þessa umdeilda máls – og þar saknar maður vissulega aðeins meiri óræðni og ljóðrænu, hvað sem segja má um boðskapinn þá hljómar þetta meira eins og lag sem samið var á PR stofu heldur en gott Dylan-lag, þótt hann nái smá ljóðrænu undir lokin með línum á borð við:

Sometimes I think this whole world
Is one big prison yard
Some of us are prisoners
The rest of us are guards

Umdeild austan járntjalds

En þótt hún væri engill í augum Mick Jaggers þá er Angela Davis enginn engill. Eftir réttarhöldin var hún einn þekktasti yfirlýsti kommúnisti Bandaríkjanna og var boðið í heimsóknir til þáverandi kommúnistaríkja á borð við Sovétríkjanna, Kúbu og Austur-Þýskalands. Tékkneski andspyrnumaðurinn Jiří Pelikán, náinn samverkamaður Václav Havel, skrifaði henni opið bréf þar sem hann óskaði eftir stuðningi við pólitíska fanga í Tékkóslóvakíu en hún svaraði því til að „þeir ættu refsingu sína skilið. Látið þá vera áfram í fangelsi.“ Sovéska Nóbelsskáldið Alexander Solzhenitsyn gagnrýndi hana harðlega fyrir sinnuleysi hennar gagnvart pólitískum föngum í austurblokkinni, sérstaklega þar sem hún var á sama tíma harður andstæðingur ameríska fangelsiskerfisins, en virtist sorglega blind á óréttlæti annars rotins stjórnkerfis.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Lauslega byggt á grein undirritaðs í Mannlífi þann 23. júní 2019.