Loksins, loksins! Loksins kemur Hollywood-mynd með vigt og þor og vit og hjarta, sem er samt algjörlega fullorðins. Það er nóg af góðum bíómyndum þarna úti – evrópskar og asískar og ódýrar amerískar – en það er stundum dálítið eins og Hollywood hafi gleymt hvernig á að gera dýrar og millidýrar bíómyndir fyrir fullorðna sem innihalda ekki spandex-galla og erfðabreyttar ofurhetjur.

James Gray hefur verið dálítið einmana á þeim lendum, maður finnur að hann vill helst mála á stóran striga, þótt það sé ekki alltaf í boði, hann er leikstjóri af gamla skólanum sem smellpassar þó inní nútímann þegar nútíminn leyfir honum það, en hann minnir mann um leið oft á menn eins og Kubrick og Kazan – og kemur furðu vel út úr þeim samanburði.

En nánar að Ad Astra, þessari undurfögru mynd um himingeiminn, feðgana Brad Pitt og Tommy Lee Jones, feðraveldið, sonarástina, nýlendustefnuna, tunglið, Mars, Neptúnus og brjálaða apaketti.

Við hittum Roy McBride (Brad Pitt) fyrst fyrir þar sem hann er að vinna við risastórt geimloftnet, himnastiga langt fyrir ofan jörðu – og skyndilega fellur hann. Myndin byrjar á manni sem fellur til jarðar og bjargar sér í einu eftirminnilegasta fallhlífaatriði kvikmyndasögunnar – en megnið af myndinni er það aðeins fjarlægur draumur að geta fallið aftur til jarðar. Jarðarinnar sem sífellt fjarlægist.

Það eru ótrúleg hasaratriði í Ad Astra, upphafsatriðið, geimbílaeltingaleikur á tunglinu og blóðugur bardagi við tilraunaapa. Þessar senur geta flokkast sem hasarsenur – en þær fara samt margar fram að mestu í kyrrð, meðal annars eltingarleikurinn á tunglinu sem annars er aðal hasaratriði myndarinnar.

En það sem einkennir myndina er þó þessi djúpa kyrrð, í bland við þyngdarleysið sem James Gray fangar svo stórkostlega sem er akkeri myndarinnar – ásamt Brad Pitt auðvitað. Gray hefur alltaf verið flinkur að láta mann fá tilfinningu fyrir stað og stund, og það bregst ekki þótt staðurinn sé staður sem enginn manneskja hefur komið á.

Hér má líka finna íróníu og ádeilu. „Við borðum heima,“ segir Roy McBride þegar hann lendir á tunglinu og sér Subway-veitingastaði svo langt sem augað eygir. McBride vill helst gera allt til þess að sleppa frá jörðunni, en það er eins með heimaplánetur og heimalönd, þær elta okkur ferðalangana hvert á land sem er.

Innrásin frá Jörðinni

H.G. Wells skrifaði Innrásina frá Mars ekki löngu eftir ótal raunveruleg bindi af Innrásinni frá Evrópu; í Afríku, Asíu, Ameríku og Ástralíu. Mögulega vildi Wells skoða hvernig væri að vera fórnarlamb slíkra innrása en ekki gerandi – og horfði þá til himins. En Ad Astra ýjar að því að saga Wells yrði ávallt fantasía, mannskepnan, sérstaklega sú evrópska, er of stríðsóð, of gráðug og of forvitin, til að láta geimverur skáka sér í þeim efnum. Það er ýjað að hamfarahlýnun á jörðu niðri, en það er allt frekar óljóst hvernig ástandið er nákvæmlega á gömlu plánetunni – hér er himingeimurinn aðalmálið.

James Gray er magnaður og vanmetinn leikstjóri sem missteig sig illa með síðustu mynd, The Lost City of Z, en ýmsar hugleiðingar úr þeirri mynd heppnast miklu betur í Ad Astra, kannski aðallega af því Brad Pitt er ekki sami spýtukall og Charlie Hunnam.

Pitt leikur geimhetju sem er sonur stærstu geimhetju allra tíma – eða hvað? Þegar efasemdirnar kvikna um það þarf McBride yngri að ferðast, mjög bókstaflega og sömuleiðis mjög táknrænt, í innstu myrkur himingeimsins. Það lítur nefnilega ekki bara út fyrir að pabbinn gæti verið á lífi eftir allan þennan tíma, heldur lítur líka út fyrir að hann ætli að tortíma gervöllu sólkerfinu áður en hann drepst.

Pabbinn er Kurtz sögunnar, Ahab skipstjóri – en kannski ekki síður Pizarro. Leiðangur Clifford McBride er ávallt kallaður The Lima Project, eins og höfuðborg Perú, landsins sem Pizarro hernam og þar sem hann leitaði endalaust að hinni goðsagnakenndu gullborg. Clifford er landnemi af gamla skólanum, orðinn brjálaður af hinni eilífu leit. Sú leit er að lífi utan jarðar, jafnvel eins og leit af guði – hann er eins og trúmaður sem er búinn að missa trúna, aftur, Tommy Lee Jones orðinn að örþreyttum og brjáluðum spámanni himingeimanna.

Það er þó Brad Pitt sem leiðir okkur í gegnum myndina – og aðrir leikarar koma aðeins stuttlega við sögu hver, en það breytir því ekki að sumir eru einstaklega eftirminnilegir. Tommy Lee Jones öðrum fremur, en Ruth Negga sem marsbúi af jarðarættum og Donald Sutherland sem gamall vinur pabbans eru líka algjörlega stórkostleg – Liv Tyler er sömuleiðis ágæt en því miður er hennar karakter stærsti galli myndarinnar og jaðrar við klisju. En raunar man ég bara eftir einum galla öðrum, myndin mætti nefnilega alveg vera miklu lengri.

Gray fær vant fólk með sér út í geim, Hoyte van Hoytoma sem kvikmyndaði Interstellar og Max Richter sem samdi tónlistina við The Congress og sömuleiðis einhver stef í tónlist Jóhanns Jóhannssonar fyrir Arrival.

Og Ad Astra fellur í þennan flokk alvarlegri nýlegra geimmynda, myndir á borð við Interstellar, Gravity, First Man, Arrival og High Life – en hún er bara betri en þær allar. High Life og First Man eru einfaldlega frekar lélegar – þótt furðulíkt sé raunar margt með Ad Astra og First Man, þá gerir sú fyrrnefnda einfaldlega allt vel sem First Man gerði illa. Interstellar var meingölluð en samt heillandi í ofmetnaði sínum, metnaði sem Gravity og Arrival náðu.

En Ad Astra er einfaldlega skör ofar, þetta er Hamlet í geimnum, þetta er Innstu myrkur Conrads og Moby Dick þar sem Ahab finnur hvergi hvalinn. Þetta er einfaldlega besta bíómynd ársins hingað til – jafngóð og Parasite en eitthvað segir mér að hún eigi eftir að sitja ennþá lengur í manni og ég hef meiri þörf fyrir að sjá hana aftur sem fyrst.

Þetta er líka táknsaga um landafundina, þar sem hvíti maðurinn kemst að því að pabbinn er bæði morðingi og hetja í senn. Sjálft feðraveldið í allri sinni dýrð og öllum sínum ófrýnileika. Um pabba sem er, eins og Mateo Wilder orðaði það svo vel, „alkóhólískur, narsisískur 20 aldar rithöfundur sem skrifaði stóru amerísku skáldsöguna og er núna ákveðinn í að gelda son sinn.“

Myndin um pabba

Já, það má lesa allt þetta út úr myndinni. Hún er um allt þetta. En samt ekki. Hún er nefnilega fyrst og fremst um tvennt.

Fyrst og fremst er hún um foreldramissi, að sjá pabba gamla hverfa fyrir augunum á þér, vera orðinn óþekkjanlegur, út úr heiminum, að öskra á þig að hann vilji deyja, núna loksins þegar þú hefur fundið hann. Það skiptir ekki öllu máli að pabbinn sé ótvírætt skúrkur á heimsmælikvarða, hann er samt pabbi Roy, og eitt það fallegasta við myndina er hvernig ást Roy á föður sínum dýpkar bara eftir því sem hann verður ákveðnari í að stöðva hann. Hann skilur þessa skepnu, þessa geðveiki, og veit að hún er í honum sjálfum – en hann geti mögulega bjargað þeim báðum, á sinn hátt.

Svo er myndin einfaldlega um nákvæmlega það sem stendur framan á veggspjaldinu. Ad Astra. Til stjarnanna, til himinsins, til ljóðanna, til draumanna. Stundum verða draumarnir martröð – en við þurfum samt að þora þangað, annars er alveg eins hægt að afskrifa þetta mannkyn.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson