Ghosteen. Táningsdraugur. Sungið af manni sem missti nýlega táningsson. Samt, einhvern veginn meira eins og staður – Canteen, Ghosteen. Þar sem táningsdraugarnir dansa.
Já, Nick Cave var að gefa út nýja plötu og ég ætla að live-blogga fyrstu hlustun. Jú, ég viðurkenni að hafa hlustað á þetta við ritstörfin í kvöld, hef leyft þessu aðeins að seytla inní sálina – en þetta er fyrsta alvöru hlustun.
Þetta er tvöföld plata, gefin út á internetinu að kvöldi fimmtudags 3. október 2019. Fyrri hlutinn inniheldur átta lög í frekar hefðbundinni sönglagalengd, seinni hlutinn eru tvö löng lög og eitt ljóð.
Stuttu lögin eru börnin, þau löngu eru foreldrarnir, táningsdraugurinn Ghosteen er flökkuandi. En þetta er að byrja, The Spinning Song er fyrst.
Undirspil Bad Seeds félaga minnir hálfpartinn á angurværan Vangelis, eins og sálin úr stáli. Hann er að syngja um konung rokksins, ég var ekki viss hvort hann var að tala um sjálfan sig eða Elvis fyrr en Vegas kom til tals. Yearned to be sung. Af hverju finnst mér yearned vera Cave-legasta orð í heimi akkúrat núna?
Þetta er ævintýri með sérviskulegu Cave-ívafi. En eins og hann sé að hita upp áður en hann syngur um eitthvað alvarlegra. Þannig eru ævintýrin oft, tregaþrunginn – en maður áttar sig ekki á því almennilega fyrr en löngu seinna.
Hann syngur línuna I love you, endurtekið, og ég átta mig á að hann er ekki búinn að syngja fram að þessu. Cave verður alltaf meira og meira ljóðskáld með aldrinum, talar undir músíkinni jafn mikið og hann syngur. Kannski er þetta söngleikur? Tregafullur söngleikur um friðinn sem er að koma?
A time will come for us. Einhvern veginn hnýtir hann lagið saman á göldróttan hátt í lokin, ástaróðinn og friðinn og ævintýrið.

Næst: Bjartur hestur, Bright Horse. Annar og dekkri tónn, en samt fyllri. Ennþá smá ævintýri en meiri raunveruleiki – það er eins og við höfum farið frá óraunverulegum riddaratíma Artúrs og hringborðsins yfir í hinar raunverulegu miðaldir með alvöru breyskum kóngum og riddurum.
Ég rétt náði að klára þessi orð þegar Cave staðfestir þessa óljósu tilfinningu, segir mér að hér sé enginn guð og allir séu faldir og allir séu grimmir og það skorti hvorki harðstjóra né fífl. Nútíminn laumar sér inní miðaldirnar, nútíminn sem mögulega verða miðaldir í næstu upplýsingu.
En það er ekki eintómt svartnætti – við getum ennþá trúað á eitthvað. Það er bara spurning hvað. Jú, lestin er að koma. Trúum á lestina, lestir eru bestar. Hin heilaga lest, hvað er betra en trúarbrögð um fallegustu samgöngutækin?
Waiting For You heitir næsta lag. Á lestarpallinum væntanlega? Svipaður tónheimur og síðast, en mér finnst við séum samt ennþá að færast nær nútímanum. Gott ef þetta er ekki nítjánda öldin, rétt áður en Viktoría drottning tekur við.
Æ ég veit samt ekki, ég held þetta sé slappasta lagið. Cave getur vel tekið einfaldar línur og endurtekið og gert þær að ógleymanlegum óð – en það er ekki að gerast hérna.
Jesúfrík á götunni, jæja, er kannski etthvað að gerast? Nei, það er ekkert að gerast. Næsta lag takk, er þetta ekki að vera búið? Nick, I‘m just waiting for the next song! Sem er vissulega þú líka, þannig að textinn passar ennþá, waiting for you to return.
Night Raid. Já, núna er Viktoría tekin við, allt orðið passlega bælt og endalaus rigning. Það er einhver djöflakirkja að hringja bjöllum og Cave tékkar sig inní herbergi 33 – I slid my little songs from under you. Gaman að fá aðeins óræðari texta, þetta er gamli torræði Cave – en samt einfalda útgáfan af honum. „The spurting font“ – nú er gamli orðhákurinn kominn í stuð aftur! Og lagið, í herbergi 33, hljómar eins og ástarævintýri en samt ekki, ljóðið stangast viljandi á við sjálft sig á einhvern óræðan hátt – og núna er það búið og ég næ ekki botn í það í bili.
Sun Forest. Sólarskógur. Hér erum við kominn í eilífiðina, í einhverja forneskju – ég er ekki viss um að það verði sungið neitt hérna, ég er ekki viss um að mannskepnan sé byrjuð að spóka sig – kannski fáum við neanderthals-menn að kveðast á við sverðtígra og mammúta, það hljómar eins og hið stóra ósamda tónverk Nick Cave.
En þetta er ofboðslega fallegt, og svo kemur röddin, og hún er eiginlega fyrir, þetta lag er svo fallegt instrúmental að það hefði átt að vera það áfram. Mammútarnir voru alveg með þetta, Nick!
Textinn verður samt áhugaverður þegar á líður, eftir að hafa verið svakalega banal framan af. En samt, betra instrúmental. Ég sakna sverðtígrana.
En núna, annar taktur – en það er samt ekki búið að kynna nýtt lag, er þetta feid eða – jú, þetta er feid, dálítið gott lokatouch á laginu, þar sem söngurinn passaði loks við músíkina.

Næst förum við út á heimshöfin í Galleon Ship. Það voru gömul seglskip sem voru notuð á tímum landafundanna, hver veit, kannski var það svona skip sem fann Ástralíu, heimaland Cave? Ef ég gæti siglt galleon-skipi … syngur Cave og langar að finna sitt gamla heima, fyrstur allra. Það er skemmtilegur fornaldarlegur Blade Runner fílingur í þessu, þetta er steampönk þar sem skipin fljúga. Heilsteyptasta og besta lagið til þessa, 16 aldar vísindaskáldskapur með fljúgandi skipum og róbótum og ég er viss um að Rutger Hauer heitinn er í bakröddum eða spilar á píanóið.
Líklega er þetta heimurinn rétt fyrir landafundina. Þegar vesturlönd voru enn saklaus, ekki enn búin að slátra hálfum heiminum, en létu sig dreyma um heim þar sem heimsendir er á jörðinni sjálfri og það er hægt að sigla fram af honum og þess vegna þarf fljúgandi skip (muna: ekki fletta upp hvenær fólk hætti að trúa þeim kenningum, óþarfi að eyðileggja plottið).
En, búið, þetta var stutt – en samt eiginlega bara passlegt. Hefði samt alveg mátt lengja þetta með ákveðnum flækjum, en það væri kannski allt annað lag. Annað hvort er það bara svona eða tífallt lengra – eins og löngu lögin sem okkur hefur verið lofað.

En já, nú talar hann! Ghosteen Speaks. Loksins mætir aðalpersónan! Ég er við hliðina á þér. Ég er við hliðina á þér. I am beside you. Þetta er huggun, þetta er sálmur, þetta er fallegt. Skerandi einfaldleiki, hrátt, einlægt, enda vitum við öll hvað hann er að syngja um.
En svo fer þetta aðeins af sporinu, líklega er Ghosteen að finna röddina – hann mætir aftur á eftir.

Við erum komin aftur á skipið. Leviathan. Kannski fórum við aldrei þaðan, Ghosteen Speaks var bara draumur um borð á skipi. Hér er einhver sjávarháski, einhver drungi, nánast kafbátur, einfaldur texti en galdurinn er hvað hann er á skjön, er þetta dýrðlegt fjöldasjálfsmorð, saga af morðingja, framhald af Murder Ballads? En þetta my oh my my er eitthvað göldrótt.
Skilaboðaskjóður internetsins trufla mig aðeins, hvað finnst vorum vakandi vinum um þetta? „Ég vil þjakaðan Cave, ekki frelsaðan og sáttan við að vera edrú og ríkur,“ segir S mér. Ég er alveg sammála og ósammála í senn, hann er frelsaður og ófrelsaður í senn, sáttur og ósáttur.

En núna er hlé, Interlude, það er talið niður, 1.23 sá ég fyrst, núna 0.47. Þögnin maður, þögnin, hvað gerir maður í þögninni? Jú, maður bloggar auðvitað! En nú koma foreldrarnir – og þá kemur í ljós hvort börn eða foreldrar gera betri poppmúsík. Hmm, ætli hugmyndin sé kannski stolin frá Ragnari Braga og Vesturporti, Börn og Foreldrar? Cave vann jú með þeim … en samsæriskenningarnar þurfa að bíða. Ghosteen var að byrja.
Þetta er lag með ásetning. Það er slegið ákveðið á píanóið, ég veit ekki enn hvort það sé gott eða slæmt. Er þetta foreldrið að gera eitthvað stórt í staðinn fyrir að láta innsæið ráða?
Ég held þeir félagar hafi verið að hlusta á 1492: Conquest of Paradise þegar þeir voru að semja þetta, það er þannig væb hérna og annars staðar, við erum sumsé að tala um handónýta bíómynd um landafundina með guðdómlegri tónlist Vangelis – þar sem hann er á dálítið öðrum slóðum og klassískari en í Blade Runner og Chariots of Fire. En skýrasta dæmi kvikmyndasögunnar um þegar platan var betri en bókin.
Þetta er samt ekki jafn gott, þarna er hann aðeins of frelsaður bölvaður. Of hreint, of slétt og fellt, getur ekki einhver boðið manninum kókaín?
Nei, sko, einhver tók mig á orðinu – núna er eitthvað að gerast. Ghosteen dansar og það er einhverjar skemmtilegar myndir hérna … núna er hann eins og leikstjóri að segja leikurum fyrir verkum, en þetta er samt raunveruleikinn, einhver óræð skil – að segja aðalpersónum að sætta sig við hlutverk sín. Og birnirnir þrír að horfa á sjónvarpið, þetta er æði – fleiri birni, Papa bear og Mama bear og allt að gerast, yndislegur útúrdúr.
En nú tengir maður, skyndilega kemur höggið í magann, þetta var enginn útúrsnúningur, hann þvær föt hans á meðan hún er annars staðar, fortíðin sleppir aldrei af manni takinu. If I could move the night I would.
Nóttina, himininn, lífið. Svindlað á helvítis dauðanum.

Og núna, ljóðið. Fireflies.
We are photons released from a dying star.
Ég held hann hafi samið þetta þegar hann fór á Ad Astra í bíó. Gott sci-fi í gangi. Eða kannski er þetta um apann í 2001, þegar hann öðlaðist vitundina?
Það er líka smá Neruda-blær á þessu, eða kannski frekar Andy Garcia að lesa Neruda – og djöfull gerði Garcia það vel í gamla daga, kannski verður það laugardagsljóðið? Stjarna er bara minning um stjörnu. Jú, og smá Darrell Jónsson í þessu líka – hann Nick gamli hefur mætt á gigg hjá okkur í dulargervi.
Hollywood er næst. Og síðast. Þar endar þetta, í draumaborginni. Yearning aftur og svo krakki með leðurblökugrímu. Titillinn á laginu einkennilega á skjön við plötuna til þessa, eldglæringar – þessi dáleiðandi myndbönd eru alveg að ná mér – þau virka pínu trist fyrst en svo áttar maður sig á hversu vel myndasmiðirnir ná að myndskreyta stemmninguna með örlitlum blæbrigðamun oft. Og þessi fontur er fjandi fínn. We crawl into our wounds, vá, nú er allt að gerast, gamli orðhákur kominn aftur!
I‘m gonna buy me a house up in the hills
With a tear-shaped pool and a gun that kills
Og svo verður þetta um ellina, um gamlan mann að bíða dauðans. Eða eins og S sagði við svipað tilefni, „dark, dawg!“ Greinilega ennþá að horfa á Ad Astra, Tommy Lee Jones söng þetta þar sem hann sveif síðasta hringinn í kringum Neptúnus.
Þetta er eiginlega dálítið eins og maður sem dreymir klippur úr Hollywood-myndum á dauðastundinni, sem er pínu sniðug hugmynd. Það er nú þegar búið að leikstýra öllum okkar draumum, ef okkur dreymir eitthvað frumlegt er það væntanlega bara mynd sem við eigum eftir að sjá eða erum löngu búinn að gleyma, þótt undirmeðvitundin muni enn.
Bíddu, „Kisa had a baby but the baby died.“ Kisa? Er hann farinn að læra íslensku? Nei sko, Búdda mættur á svæðið! Allt annar tónn, þetta lag er það langt að það verður á endanum mörg lög – eða a.m.k. tvö. Við erum komin í burtu frá Hollywood, Ozu eða Kurosawa, ekki viss, sjáum hvernig þetta þróast. Everybody‘s losing someone. Sorrí, Nick, en REM gerðu þetta stef miklu betur.
En já, hvað skal segja? Þetta er mínímalískur Cave. Berstrípaður. Sem er allt í lagi, skemmtileg tilbreyting. Stundum banalt en stundum ægifagurt. En Cave er orðhákur, þessi mínímalismi er ágætis stílæfing – en næst vil ég meiri Cave, að hann fari aftur dýpra inní hellinn.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson