Mannkynssagan vitrast manni oft skýrast í mistökum, misskilningi og blekkingum, því það er oft fyrst þegar maður fer að leita að sannleikanum á bak við blekkinguna sem maður áttar sig best á hversu flókinn og þversagnakenndan vef sagan á það til að vefa.
Ágætis dæmi er nýlegt andlát ástralska leikarans Heath Ledgers. Það mætti skrifa lærða ritgerð um hvernig misvísandi upplýsingar, meinfýsnar tilgátur og slúðursögur sem komnar voru á kreik áður en líkið var orðið kalt séu ágætis birtingarmynd allra verstu eiginleika fjölmiðla samtímans (enda kom í ljós að uppruna „fréttanna“ mátti í flestum tilfellum rekja til hinnar alræmdu fréttastofu Fox News). Enn merkilegri draugur birtist hins vegar með ófáum vel meinandi minningarorðum margra bloggara og stöku fjölmiðla – því í stað þess að birta mynd af Ledger með fylgdi iðullega mynd af þýskum leikara sem lést fyrir nærri 65 árum síðan, draugur sem sannaði að kvikmyndasagan endurtekur sig ekkert síður en mannkynssagan.
Rætur myndarinnar fölsuðu má rekja allt aftur til franska skáldsagnahöfundarins Victor Hugo. Hann skrifaði skáldsöguna Maðurinn sem hlær (L’Homme qui rit) árið 1869, en í henni er aðalsmaður sem er Englandskonungi ekki að skapi tekinn af lífi og barnungur sonur hans, Gwynplaine, færður í hendur Comprachicos-læknis (en flökkusögur á tímum Hugos hermdu að barnasölumenn, Comprachicos, afskræmdu börn til þess að þau yrðu færari betlarar eða hægt væri að selja þau í næsta sirkus) sem sá til þess að drengurinn myndi bera trúðsglott um alla ævi – „svo hann gæti hlegið til eilífðarnóns að flónsku föður síns.“
Þegar sagan var kvikmynduð árið 1928 var þýski leikarinn Conrad Veidt í hlutverki hins síglottandi Gwynplaine og það var mynd af honum sem Bob Kane og Bill Finger, skaparar Batman, höfðu til hliðsjónar þegar þeir sköpuðu Jókerinn, illmennið sem mun verða síðasta hlutverk Heath Ledger. En áður en auglýsingaherferð nýju Batman-myndarinnar fór af stað, nokkru fyrir andlát leikarans, höfðu birst veggspjöld á netinu þar sem búið er að skeyta saman andliti Veidt og jókersins og voru þau nógu vel gerð til þess að enn eru menn að ruglast á raunverulegum stillum úr myndinni sjálfri og gervimyndunum.
En Veidt átti fleira sameiginlegt með Ledger en stirðnað glott. Árið 1919 lék hann í myndinni Öðruvísi en hinir (Anders als die Andern), nokkurs konar Brokeback Mountain Weimar-lýðveldisins og einhverri fyrstu bíómynd mannkynssögunnar til þess að sýna samkynhneigð í jákvæðu ljósi. En vitaskuld var myndin bönnuð og aðeins aðgengileg læknum og sálfræðingum þangað til Hitler komst til valda og brenndi öll eintökin nema eitt.
Það var svo ári síðar sem Conrad Veidt sló í gegn í Das Cabinet des Dr. Caligari, einni af lykilmyndum þýska expressjónismans, og viðhélt frægðinni með myndum á borð við Der Student von Prag (þar sem hann var ofsóttur af eigin spegilmynd líkt og hans glottandi sjálf átti eftir að ofsækja minningu Ledgers) og The Thief of Baghdad. En nútímaáhorfendur hafa líklega ófáir aðeins séð hann í síðustu mynd hans, Casablanca. Þar leikur hann nasistaforingja sem er að reyna að hafa hendur í hári andspyrnuleiðtogans Victors Laszlo. Laszlo var leikinn af Paul Henreid, austurrískum gyðingi sem fáeinum árum áður hafði átt að framselja til Þýskalands frá Bretlandi. En Veidt, þá þegar orðin stjarna í enskumælandi löndum, talaði máli hans og kom í veg fyrir að hann yrði sendur út í opinn dauðann – svo hann gæti ofsótt hann seinna í bíó.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Greinin birtist upphaflega sem Listapistill í Morgunblaðinu þann 9. febrúar 2008.