Stundum horfir maður á bíómynd og þegar maður ætlar að byrja að skrifa gagnrýni um hana þá þakkar maður fyrir að þurfa ekki að gefa stjörnur – í þessu tilfelli af því það eru hreinlega ekki til nógu margar hauskúpur í heiminum.
The Laundromat er kannski ekki versta mynd í heimi, en miðað við hæfileikanafólkið sem kemur við sögu og efniviðinn, þá er hún líklega hlutfallslega verst.
Byrjum bara á Gary Oldman. Og höfum eitt á hreinu: Gary Oldman er með magnaðri leikurum samtímans. Ekki vegna þess að hann fékk Óskarinn nýlega fyrir bestu undirhökuna í The Darkest Hour, nei, vegna þess að jafnvel þar var hann ágætur og hann hefur auðvitað verið stórkostlegur í Dracula og Leon og Tinker, Tailor, Soldier, Spy og skrilljón myndum öðrum. Hann gefur líka öllu léttmetinu sem hann birtist í aukna vigt, hversu léttvægt sem það kann að vera.
Maðurinn virtist einfaldlega ekki getað leikið illa. Og það hlýtur eiginlega bara að vera að hann hafi þurft að sanna það fyrir heiminum að hann gæti það. Eða kannski tapaði hann veðmáli, kannski mútaði einhver honum, það hefði verið viðeigandi í samhengi myndarinnar.
Ég veit auðvitað ekkert um það, ég er einfaldlega enn að klóra mér í kollinum yfir því hvernig Gary Oldman getur leikið jafn stjarnfræðilega illa og hann gerir í The Laundromat. Hreimurinn er sérkapítuli út af fyrir sig – og svo sú staðreynd að þessi maður hefði aldrei getað rekið svikamyllu í kortér, hvað þá lengur. Í ofanálag er karakterinn ýktur úr öllu valdi – og Oldman ýkir hann svo aðeins meira sjálfur.

En já, í hvaða skelfingar mynd erum við stödd? Jú, The Laundromat fjallar um Panama-skandalinn – eða ætlar sér það öllu heldur. Oldman leikur Mossack-helminginn af Mossack Fonseca fyrirtækinu, Antonio Banderas er mun skárri sem hinn helmingurinn.
Þeim er stillt upp jöfnum höndum sem eins konar sögumönnum og sem persónum í myndinni, en auk þess segir myndin ýmsar hliðarsögur sem leikstjórinn virðist ímynda sér að varpi einhverju ljósi á Panama-skandalinn, en gera það ekki.
Já, leikstjórinn, hann Steven Soderbergh. Hann hefur alltaf verið mistækur – en samt alltaf verið nokkuð pottþéttur fagmaður. Þangað til núna. Þetta er lestarslys sem verstu amatörar myndu skammast sín fyrir.
Einn stór misskilningur
Þessar hliðarsögur sem ég minntist á eru margar og ólíkar. Sú stærsta fjallar um Meryl Streep, sem leikur syrgjandi ekkju eftir að James Cromwell áttaði sig manna fyrstur á hversu skelfilegri mynd hann var lentur í og tókst að láta drekkja sér í sínu fyrsta atriði. Hinir leikararnir eru ekki jafn heppnir. Streep er að vísu fín í illa skrifuðu hlutverki, en sagan hennar er úti á túni og sögupersónan, sem virðast eiga að skipta lykilmáli, hreinlega gleymist löngum stundum.
Svo er löng hliðarsaga um fjölskylduföður sem í kjölfar framhjáhalds virðist svíkja bæði eiginkonu og dóttur um tugi milljóna dollara. Sú saga öðrum fremur sýnir kannski best hversu hrapalega Soderbergh og félagar misskilja Panama-skandalinn; skandallinn snýst um að þeir ríkustu svíkja undan skatti eins og engin sé morgundagurinn og borga stundum minna en fátæklingar til samfélagsins, þvo illa fengið fé úr alls kyns vafasamri starfsemi og svo framvegis. Hann kemur kjánalegum fjölskyldudrömum ríka fólksins hins vegar lítið við, þótt svona kónar séu vissulega alltaf líklegir til þess að eiga feitan aflandsreikning einhvers staðar.
Það gerist þó tvisvar að myndin lifnar aðeins við, heldur athygli manns fyrir aðrar sakir en hversu skeflilega vond hún er. Fyrst í hliðarsögu frá Kína, þar sem skyndilega byggist upp alvöru spenna, auk þess sem Soderbergh sýnir okkur örstutta en hrollvekjandi innsýn inní heim svartamarkaðsbrasks með líkamshluta. Í Alþýðulýðveldinu finnur hann vísi að allt annarri og betri mynd. Jú, og endirinn er satt best að segja nokkuð lunkinn, eða væri það ef myndin hefði undirbyggt hann almennilega.

Mögulega munu einhverjir reyna að verja myndina með því að benda á að þetta sé satíra, þessi ýkjustíll sé viljandi. En ýkjustíll, sérstaklega þegar kemur að sannsögulegum atburðum, þarf að vera skemmtilegri, fyndnari eða meira afhjúpandi en raunveruleikinn til þess að virka almennilega. Hér er hann bara asnalegur og klaufalegur.
Við þurfum hins vegar að bíða lengur eftir almennilegri mynd um Panama-skjölin. Þangað til sú mynd kemur er líklega skemmtilegasti snúningurinn um aflandsreikninga í þeirri fantafínu kanadísk-frönsku kómedíu Denys Arcand, Falli ameríska heimsveldisins (La chute de l’empire américain), sem segir okkur miklu meira um rotið kerfi heldur en The Laundromat nokkurn tímann.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson