Ég keypti óvart Under the Pink fyrst, hún var einfaldlega áberandi í geilsadiskarekkanum í plötubúðinni. Í gamla daga þegar það voru svoleiðis búðir á Akureyri. Fannst hún mögnuð en hugsaði samt; hvar er besta lagið? Fór svo og keypti Little Earthquakes. Og þar var það – og miklu fleiri stórkostleg lög.

Þetta var ekki frumraun Tori Amos – það var Y Kant Tori Read með samnefndu bandi. Það var samt ekki Tori Amos – það var Tori Amos að leika eitís poppdívu. Það var ekki hún – og hún segir okkur það í „Girl“:

She’s been everybody else’s girl

Maybe one day she’ll be her own

Það höfðu orðið vatnaskil þarna, það var komin nýr áratugur, með gruggi og persónulegri lagasmíðum og sterkum konum. „Hinum megin í bænum var Tracy Chapman að taka upp sína fyrstu plötu,“ rifjar Tori upp í viðtali við Rolling Stones löngu seinna. Melissa Etheridge sömuleiðis bætir hún við, það var eitthvað í loftinu.

Framan á plötunni situr Tori í litlum kassa, en hann er skyndilega opinn. Það er einhvern veginn táknrænt fyrir plötuna – og tímana. Það er eitthvað nýtt að verða til, x-kynslóðin að gera músík sem passaði ekki í neina kassa.

Eins og að semja persónulegt misnotkunarlag innblásið af Litlu hafmeyjunni, Silent All These Years. Sem er samt nógu dulkóðað og hefðbundið til þess að fá útvarpsspilun. Mönnum svelgist ekki á morgunkorninu yfir því nema menn hlusti mjög vel.

So you found a girl who thinks really deep thoughts

What’s so amazing about really deep thoughts

Í næsta lagi er hún byrjuð á uppreisninni.

I want to smash the faces

Of those beautiful boys

Those christian boys

En það er svo undir lokin – þá kemur lagið sem engin gat gleymt, lagið sem fékk enga útvarpsspilun, lagið sem MTV klipptu úr af Unplugged tónleikunum. Berstrípaðasta og átakanlegasta lag um nauðgun sem nokkurn tímann hefur verið samið. Me and a Gun.

Tori er píanógella, það einkennir öll hennar lög. Nema þetta, þarna er bara röddin. Á bílhúddi að reyna að lifa af. Til að sjá Barbados.

Eina sem var skáldað í laginu var byssan, hann var víst með hníf. Og flest annað var miklu verra en í laginu. Löngu seinna, mörgum árum seinna, sá hún Thelma & Louise í bíó og lokaði sig af í nokkra daga. Til að vinna úr. Það voru engar trigger warnings til í þá daga.

Faðirinn og píanóið

Það er ekkert hægt að tala um Little Earthquakes án þess að minnast á Me & a Gun – en það var samt ekki lagið sem ég ætlaði að helga þessum föstudegi. Síðasti vetrardagur er nefnilega á morgun og ég hef einmitt elskað hana Tori síðan ég heyrði „Winter.“ Þetta píanó, þessi rödd, þessi orð.

Snow can wait, I forgot my mittens

Og svo:

I put my hand in my father’s glove

Þetta er lag um pabba hennar. Hún orðar allt sem hann kenndi henni, allt sem hann innrætti henni. Öll mistökin sem hann gerði og hann reyndi að hjálpa henni að gera ekki. Um hvernig foreldrar okkar lifa í okkur, ef við skiljum hvað þeir voru að segja okkur.

You must learn to stand up

For yourself ’cause I can’t always be around

Ég er ekki einn um að elska Winter. Glímukappinn Mick Foley rifjar upp þegar hann var lítill í sér og var að fara í hringinn, þá hlustaði hann á „Winter.“

„“When you gonna make up your mind?” Tori Amos asked me inside that frigid dressing room. “When you gonna love you as much as I do?”

And then I realize I’m going to be all right. Head first, neck first, balls first—it really doesn’t matter. By the fourth listen, I know I’m going to tear that place apart.“

Þetta er kona sem bræðir hörðustu glímukappa eins og smjör – og ástæðan fyrir að ég skrifaði þetta allt saman, það sem rifjaði upp fyrir mér gamla ást mína á Tori, var þessi yndilega átján mínútna heimildamynd um Tori Amos og stóru ástina í lífi hennar. Píanóið. Á einum stað segir hún: „Það er ekki eins og maður þurfi að deita alla stráka sem maður hittir. Það þýðir ekki að maður geti ekki fengið sér kaffibolla með þeim, við vitum bæði að þetta er ekki hjónaband.“ Já, hún er auðvitað að tala um píanó. Við sjáum hana skoða píanó, daðra við píanó og leika á píanó – og skiljum loksins til fulls að leiðin að hjarta Tori Amos er í gegnum alla þessa píanóstrengi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson