Bíóklassík 1982

The Dark Crystal

Leikstjóri: Jim Henson

Sumir kvikmyndasagnfræðingar harma hvernig talmyndir ruddust fram á sjónarsviðið og eyðilögðu þar með listrænan blóma þöglu myndana. Menn höfðu náð nauðsynlegri færni í myndmáli og tækni eftir fyrri heimstyrjöldina til að segja orðlausar sögur af miklu listfengi – en þurftu skyndilega að bæta orðum við, og um leið frumstæðri tækni sem réð ekki við alltof flóknar senur af því faldir risahljóðnemar máttu ekki vera of langt frá aðalleikurunum.

Og þegar maður horfir á The Dark Crystal aftur áttar maður sig skyndilega á því að listrænum hápunkti tæknibrellnnana var náð á fyrri hluta níunda áratugarins.

The Dark Crystal er brúðumynd, en allar brellumyndir fram að því höfðu verið stútfullar af brúðum og módelum, þó að flestar hafi þær skartað mennskum leikurum líka. King Kong og skrímsli Harryhausen, furðuverurnar í gömlu Stjörnustríðsmyndunum og svo mætti lengi telja.

Jim Henson einbeitti sér hins vegar að brúðunum og hafði helst hlotið frægð í sjónvarpi með sjálfa Prúðuleikarana – en hann vildi gera alvarlegri sögur og mystískari og úr varð The Dark Crystal – einhver fallegasta mynd kvikmyndasögunnar.

Galdurinn við brúðurnar er handbragðið, það er í þeim innbyggð mennska. Brúður geta brotnað og slitnað, en ef pixlarnir raðast ekki rétt saman leysast þeir bara upp, færa okkur í versta falli villuskilaboð um að tölvan segi nei. Háskinn er horfinn, eða öllu heldur, er ekki á færi nema þessara fáu brellugerðamanna sem ná að gera tölvubrellur með handbragði og tilfinningu. Eins er rétt að nefna gullfalega tónlist Trevor Jones, sem nær bæði háska og fegurð ævintýrisins sannfærandi.

Horfinn heimur

Henson átti fáeinum árum seinna eftir að gera Labyrinth og eins má merkja áhrifa frá The Dark Crystal í kvikmyndagerð Sögunnar endalausu, þar sem má nánast ímynda sér að leitað hafi verið að tvífara Jen þegar ráðið var í hlutverk Atrejú. Sagan sjálf sækir svo í Ronju ræningjadóttur og Hringadróttinssögu jöfnum höndum, sem og einhverja popp-mýtólógíu sem var vinsæl á hippatímanum sem hafði mótað Henson.

Nánar tiltekið kenningu um skiptingu góðs og ills, sem er nokkuð forvitnileg, þar sem hinir illgjörnu Skeksis og hinir algóðu Mystics eru af sömu verunni komin, hið andlega og hið veraldlega sem hafði splundrast einhvern tímann í fyrndinni.

Inn í söguna fléttast svo Gelflings, hálfgerðar álfaverur, sem og ýmsikonar kynjadýr. Gelflingarnir eru líkastir mönnum, eða kannski öllu heldur börnum, staðgenglar áhorfandans öðru fremur. Ævintýrið er í raun frekar einfalt og blátt áfram, maður hefur séð þessa sögu margoft áður. En maður hefur aldrei séð jafn gæðalegar skepnur og vitringana sem Mystics eru, mann langar helst bara að klifra upp í feldinn hjá þeim og fá að liggja þar, fjarri illsku heimsins. Að sama skapi eru fáar verur kvikmyndasögunnar jafn hrollvekjandi og skeksarnir, eðlukenndir ránfuglar klæddir í glysgjarnar glæsiflíkur afdankaðra miðaldahirða. En um leið svo mennskir, þannig að mann bæði hryllir við dauðdaga þeirra sem og finnur til með þeim, því þeir brotna, þeir berjast eins og þeir geta gegn dauðanum en eiga alltaf eftir að tapa.

Svo hélt kvikmyndasagan áfram – við fengum myndir sem gerbreyttu landslaginu öllu með eigin tæknibyltingum, Who Framed Roger Rabbit, Forrest Gump og Jurassic Park helst, magnaðar myndir á sinn hátt – en myndir sem gerðu veröldina hans Hensons skyndilega úrelta. Sjálfur dó hann, ekki nema 53 ára gamall, árið 1990 – rétt um það leyti sem heimurinn sem hann fullkomnaði var endanlega að hverfa. Heimur sem núna er að ganga aftur í nýlegum sjónvarpsþáttum – meira um þá síðar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson