Við erum stödd í Stokkhólmi – eða öllu heldur, Gyða Valtýsdóttir er stödd þar og er að flytja ræðu. Hún þakkar tvíburasystur sinni Kristínu Önnu sérstaklega;
„Það var mögnuð reynsla að alast upp sem tvíburi. Og það var líka mikil áskorun að vera borin saman við listamann eins og hana. En öðru fremur lærði ég að samanburður og samkeppni lætur manni ekki líða vel.
Hafandi alist upp við það hefur leitt mig yfir í hinar öfgarnar að sjá hlutina aldrei með þeim gleraugum. Það eru svo sterk tengsl, svo mikill innblástur í að sjá allt og alla í ljósi þeirra eigin gildis. Ég lít því á þessi verðlaun sem viðurkenningu þess að ég hafi stigið inn í það ljós. Og það er lítið skref innra með sjálfum manni, en ekki klifur á toppinn.“
Níu árum áður eru þær svo staddar í herbergi – að klóra segulbandi, að vakna jafnvel, það laumast þarna inn einn geyspi – þetta er stuttmynd og tónlistargjörningur í senn, „collection petites planètes“ – 18 bindi. Samansafn lítilla reikistjarna.
Kannski eru þær að leita að lífi á öðrum plánetum, plánetum jafn litlum og okkar. Þú vaknar og veltir fyrir þér – „Hvernig músík eru þau að gera á tvíburaplánetunni okkar núna?“ Það er nefnilega það sem manni sýnist leitin að lífi á öðrum hnöttum snúist mest um núna, að finna tvíburaplánetu jarðarinnar – eða jafnvel myndi duga að finna systkyni eða allavega fjarskyldan ættingja. Plánetur með svipað erfðaefni. Það sem hefur fundist hingað til eru helst plánetur sem rétt svo geta talist af sömu reikistjörnutegund, en alltof ólíkar til að fóstra svipað líf og á þessari jörð – og við vitum ekkert hvernig allt öðruvísi líf myndi líta út, ef það er á annað borð mögulegt.
Og já, afsakið útúrdúrinn – við erum stödd í herbergi þar sem tvær tvíburasystur vakna og fremja músík. Önnur klórar segulbandinu, þær umla og raula, önnur finnur sér gítar og hin fiðlu. Þetta er tónlist sem samvinna, sem leikur, sem systralag– og ekki síst, tjáskiptaleið. Leið til þess að hafa samband við verur á öðrum hnöttum, handan sameiginlegs tungumáls.
Þetta er hin eilífa æska, tónlist sem tengir ávallt við ræturnar, bernskuna, jafnvel sem uppreisn gegn ferköntuðum fullorðinsheiminum og alvarleika hans. Tilraun kynslóðarbrots til byltingar í formi þess að verða ekki eitthvað.
Já, kynslóðarbrots – því krúttkynslóðin var aldrei nema brot af kynslóð þótt mun fleiri hafi hlustað. Það á auðvitað við um flestar kynslóðir, en samt, sérstaklega krúttin. Þetta var lítill hópur og þú finnur þau raunar ekki einu sinni víða annars staðar en í músíkinni.
Hér er tilraunagleði, þetta er heimilisiðnaður, og já, þetta er svo sannarlega krúttkynslóðin. Þessar brothættu raddir, önnur vefur sig inn í teppi og stendur á haus, bröndóttur köttur laumar sér inní myndbandið, en undir lokin finna þær bók. Steinn Steinarr er mættur og skyndilega má greina orðaskil, skýrt og skorinort, „Gömul vísa um vorið“ ómar um herbergið í október 2010.
Ó, slá þú hægt mitt hjarta
og hræðstu ei myrkrið svarta.
Með sól og birtu bjarta þér birtist vor á ný.
Og angan rósa rauðra
mun rísa af gröfum dauðra
Og vesöld veikra og snauðra
mun víkja fyrir því
Um daga ljósa og langa,
er ljúft sinn veg að ganga,
með sól og vor um vanga
og veðrin björt og hlý.
Þá rýs af gömlum grunni
hvert gras í túni og runni
Hún, sem þér eitt sinn unni,
elskar þig kannski á ný.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Ljósmynd: Magnus Fröderbergh / Norden.org